Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

DNA-heilun sækir í sig veðrið

Kjaftæðisvaktin vakti í sumar athygli á nýrri tegund heilunar, svokallaðri DNA-heilun. Þótt sjálf hugdettan, að hægt sé að fiffa í okkur erfðamengið með handayfirlagningu og særingum, sé nógu fáránleg til að engum upplýstum nútímamanni ætti að detta í huga að taka hana alvarlega, er samt ekki annað að sjá en þetta lifi góðu lífi í samfélaginu.

Í Fréttablaðinu í dag er að finna viðtal við DNA-heilara og bullið upp úr þeim er með ólíkindum:

Heilunin byggist á því að meðferðaraðilinn róar hugann og fer í markvisst theta-ástand sem er ástandið sem menn fara í milli svefns og vöku. Heilarinn tekur alla orku frá iljum og leiðir hana upp í gegnum líkamann og hvirfilinn út fyrir líkamann upp í efsta ljós alheimsins eða eins langt og hann kemst með vitundina. Þar tengir hann sig við almættið og setur fram skipanir um það hvern og hvað eigi að lækna.

Mikið eru þær nú göfugar þessar fraukur að geta sett sig svona í beintengingu við almættið og notað það eins og hvern annnan vinnuklár. Það kemur fram í greininni að með þessu eigi að vera hægt að lækna krabbamein jafnt sem arfgenga sjúkdóma (erfðagalla). Að auki er fullyrt að tveir heilarar virki á kröftugri hátt en einn. Og má þá ekki bara prófa sannleiksgildi þessara fullyrðinga með tilraunum, láta svona tuttugu heilara breyta fóstri með Downs-heilkenni í heilbrigt? Af hverju getur þetta fólk aldrei vísað í rannsóknir sem staðfesta ótrúlegar staðhæfingarnar?

Það eru ósvífnar kellíngatruntur sem þarna er rætt við, enda sér landlæknir ástæðu til að hóta rannsókn á starfseminni í öðru viðtali á sömu síðu. Fréttablaðið á reyndar þakkir skyldar fyrir að birta ekki bara gagnrýnislaust aðra hlið málsins. Við viljum sjá það gert oftar.

Á öðrum stað í Fréttablaðinu er auglýst til sölu bók um Láru miðil:

Heiðarleg tilraun til að greina umræðuna og rýna í það samfélag sem gerði Láru kleift að hafa broddborgara samtíma síns að ginningarfíflum og féþúfu.

Ég leyfi mér að fullyrða að Vantrú sé heiðarleg tilraun til að rýna í það samfélag sem gerir t.d. Þjóðkirkjunni kleift að hafa borgarana að ginningarfíflum og féþúfu. En hvaða heilvita maður trúir þessu DNA-heilararugli? Er ekki allt í lagi með ykkur?

Birgir Baldursson 10.11.2005
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Sævar Helgi - 10/11/05 14:55 #

Fréttablaðið á reyndar þakkir skyldar fyrir að birta ekki bara gagnrýnislaust aðra hlið málsins. Við viljum sjá það gert oftar.

Já sem betur fer var talað við Sigurð Guðmundsson landlækni um þetta heimskulegasta kjaftæði sem ég hef heyrt í langan tíma. Blaðakonan fær prik fyrir það því venjulega heyrist aldrei í efasemdarmönnunum/þeim-sem-hafa-rétt-fyrir-sér.


Erik Olaf - 10/11/05 15:23 #

Ágætt að einhver gagnrýni sé birt, en betur má ef duga skal.

Í gær var viðtal við apótekara sem talaði um gagnsemi jurta við kvefi og litlum kvillum. Í þessum tilvikum á alltaf að benda á gagnsemisrökvilluna.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/11/05 01:06 #

Það er vissulega jákvætt að Fréttablaðið hafi bent á hina (réttu) hlið málsins og fengið landlækni til að "debunka" þetta kjaftæði, þó hans (rétta) hlið á málinu hafi fengið töluvert minna pláss á síðunni en kjaftæðið.

En af hverju starfa íslenskir fjölmiðlar á þennan máta? Af hverju kynnti blaðamaður sér ekki málið og fjallaði svo um það á gagnrýninn hátt? Hvernig stendur á því að blaðamaður tók ekki nokkra afstöðu í málinu, þegar það er alveg ljóst að þetta er fullkomið rugl?

En eins og ég sagði, þá er það mikil framför að efasemdarraddir fái líka að heyrast.

Ég held að frammistaða þessa DNA heilara í Kastljósinu eigi eftir að verða lengi í minnum höfð.


Tinky Winky - 11/11/05 01:59 #

Er það Matti? Er það ekki landlægt vandamál hér hversu óminnugt fólk er? DNA heilun rennur sitt skeið á enda einhvern daginn en þá tekur bara eitthvað nýtt við. Eitthvað sem vont fólk notar til að hagnast á veikleikum annarra eins og hefur alltaf verið gert í gegnum tíðina.

Ég get t.d. ekki skilið af hverju fólk hætti að ganga með orkuarmböndin því þau áttu nú aldeilis að hjálpa fólki í gegnum lífið, en málið er að í dag man bara enginn eftir þeim því fólk gleymir bara svo ótrúlega fljótt.

Ein ástæða þess að fólk grípur alltaf svona bull á lofti þegar það kemur nýtt inn er kannski sú að eiginleikinn að læra af bulli fortíðarinnar er af svo skornum skammti hjá fólki.

Menn eru einfaldlega alltaf að selja sama bullið, þeir klæða það bara í nýjar umbúðir og bæta við fínum orðum. Sem dæmi mætti taka gífurlegar framfarir í fegrunariðnaðinum með vítamínbættu húðkremi hér og kreatín DZ2000 þar, sem nú hefur komið í ljós að framleiðis 6000 nýja húðsjúklinga á ári hverju í Danmörku.

Hið sama á við um andalæknana, þeir bæta bara við nýjum hugtökum þegar gamla bullið hefur runnið sitt skeið á enda og halda þannig áfram að selja sama bullið í nýjum búningi.

Allir gleyma því gamla og gleypa við því nýja. Enginn man nokkurn skapaðan hlut.


Kalli - 11/11/05 02:22 #

Ég hef nú ekki skoðað svona lagað marktækt en eitt þykir mér áhugavert við þetta tilfelli; það að grípa svona „buzzword“ til að fríska upp á sama gamla bullið. Erfðarannsóknir eru mikið í sviðsljósinu og þá þýðir ekki fyrir dulspekingana að láta sitt eftir liggja.

Ég ætla heldur ekki að halda því fram að ég sé sérstaklega vel upplýstur um stofnfrumur og erfðaefni en Jesús Kristur... hvernig dettur fólki ÞETTA í hug?

Viðbrögð mín við Kastljósinu (náði reyndar ekki að horfa á alla DNA heilunina) skiptust á milli vandræðalegs hláturs og vorkunnar...


Dipsí - 11/11/05 04:09 #

Kennir ekki neyðin naktri konu að spinna Kalli? Bullið þarf sífellda endurnýjun því það gengur ekki til lengdar að viðhalda því sama gamla endalaust og þá er gott að grípa til þess sem er í tísku hverju sinni.

Annars er svona dæmi auðvitað tærasta snilld þar sem allir endar eru hnýttir vel og duglega. Ef meðferðin virkar ekki, þá er það bara þér að kenna skilurðu því þú verður að trúa því að meðferðin virki :)

sé fyrir mér skurðlækni að afsaka sig eftir misheppnaða aðgerð sko : "já en þú bara hafðir greinilega ekki nógu milkla trú á mér sko..."


Kalli - 11/11/05 04:42 #

Dipsí: can you spell "malpractice"? :)


Helgi Briem - 11/11/05 09:59 #

það að grípa svona „buzzword“ til að fríska upp á sama gamla bullið. Erfðarannsóknir eru mikið í sviðsljósinu og þá þýðir ekki fyrir dulspekingana að láta sitt eftir liggja.

DNA heilun er reyndar búin að vera "til" í allmörg ár meðal erlendra ruglufræðinga.

Til dæmis má skoða þessar undursamlegu bullsíður sér til gamans:


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 11/11/05 17:16 #

Uff! Þessir linkar eru þungir af kjaftæði. Þegar ég las þetta yfir var eins og einhver væri að klipa mig í hnakkaspikið. Allt stútfullt af rökvillum. Það er eins og það sé að vera koma með dulspekilega orwellískt tvífeldins-tal í þessari DNA-heilunarhefð. Fleyja fram loftkenndum orðum og hugtökum með víð og losarleg merkingarmið. Sem blandast síðan orðum sem hljóma vísindalega til þess að vitleysuflaumurinn virðist meira viruðlegur eða einkvernvegin meira sannur eða staðfestur. Þessari orðasúpu er svo flengt framan í fólk eins og sand í augun.

Sagt og gefið sterklega í skyn að allt sé Vibringar og orkur sem eiga að geta haft kraftmikil og djúpstæð áhrif á alheiminn. En sem eru í raun ekkert annað en tilfinningar sem hafa engin önnur áhrif en á þann einstakling sem sem þær tilfinningar finnur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.