Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Smjaðrað fyrir Kidda

Í morgun var barið dyra hjá mér. Þegar ég opnaði hurðina sá ég snyrtilegt og vel klætt par. Maðurinn talaði fyrst:

Jón: Hæ, Ég er Jón og þetta er María

María: Hæ, við erum hér til að bjóða þér að smjaðra (kiss ass) fyrir Kidda með okkur.

Ég: Fyrirgefið? Um hvað eruð þið að tala? Hver er þessi Kiddi og hvers vegna ætti ég að vilja smjaðra fyrir honum?

Jón: Ef þú smjaðrar fyrir Kidda þá gefur hann þér 100 milljónir króna en ef þú gerir það ekki lemur hann þig í klessu.

Ég: Ha? Hva, eruði eitthvað klikkuð?

Jón: Kiddi er milljónamæringur og mannvinur. Kiddi lét byggja bæinn okkar. Kiddi á bæinn.

Hann getur gert það sem honum sýnist og það sem Hann vill gera er að gefa þér 100 milljónir en hann getur það ekki fyrr en þú smjaðrar fyrir honum.

Ég: Það er alveg óskiljanlegt. Hvers vegna.."

María: Hei, hver þykist þú vera að efast um gjöf Kidda? Viltu ekki 100 milljónir króna? Er það ekki þess virði þótt það kosti smá smjaður?

Ég: Ja, jú kannski ef það er allt löglegt, en…"

Jón: Komdu þá með okkur að smjaðra fyrir Kidda.

Ég: Smjaðrið þið oft fyrir Kidda?

María: Ó, já, alltaf.

Ég: Og er hann búinn að gefa ykkur 100 milljónir?

Jón: Uh, nei. Þú færð ekki peningana afhenda fyrr en þú flytur frá bænum.

Ég: Af hverju flytjiði þá ekki bara úr bænum núna?

María: Þú mátt ekki flytja fyrr en Kiddi segir þér að gera það, annars færðu ekki peninginn og Kiddi lemur þig í klessu.

Ég: Vitið þið um einhvern sem smjaðraði fyrir Kidda, flutti úr bænum og fékk 100 milljónirnar?

Jón: Mamma mín smjaðraði fyrir Kidda í fjölda ára. Hún flutti úr bænum í fyrra og ég er viss um að hún fékk peninginn.

Ég: Hefurðu ekki talað við hana síðan?

Jón: Auðvitað ekki. Kiddi leyfir það ekki.

Ég: Og hvers vegna heldurðu þá að Hann muni í raun og veru láta þig fá peningana ef þú hefur aldrei talað við neinn sem hefur fengið peningana?

María: Ja, hann lætur þig fá smá áður en þú flytur. Kannski færðu kauphækkun í vinnunni, kannski vinnur þú smá í lottó eða finnur kannski þúsundkall úti á götu.

Ég: Hvað hefur það að gera með Kidda?

Jón: Kiddi hefur sambönd.

Ég: Mér þykir það leitt en þetta hljómar bara eins og eitthvað fáránlegt svindl.

Jón: En þetta eru 100 milljónir, getur þú tekið svona áhættu? Og ekki gleyma að ef þú smjaðrar ekki fyrir Kidda þá lemur hann þig í klessu.

Ég: Ja, ef ég gæti séð Kidda, talað við Hann og fengið öll smáatriðin beint frá honum sjálfum…"

María: Enginn sér Kidda, enginn talar beint við Kidda.

Ég: Hvernig smjaðrið þið þá fyrir honum?

Jón: Ja, stundum hugsum við bara til hans eða smjöðrum fyrir Gunnari og hann kemur smjaðrinu áleiðis.

Ég: Hver er Gunnar?

María: Vinur okkar. Það var hann sem kenndi okkur allt um að smjaðra fyrir Kidda. Það eina sem við þurftum að gera var að bjóða honum út að borða nokkrum sinnum.

Ég: Og tókuð þið hann bara á orðinu þegar hann sagði ykkur að það væri til einhver Kiddi og að hann vildi láta smjaðra fyrir sér og að Kiddi myndi launa ykkur?

Jón: Ó nei! Gunnar á bréf sem Kiddi sendi honum fyrir mörgum árum síðan þar sem hann útskýrir málið. Hér er afrit af bréfinu, sjáðu bara sjálfur:

FRÁ SKRIFSTOFU GUNNARS

1.SMJAÐRAÐU FYRIR KIDDA OG ÞÁ MUN HANN GEFA ÞÉR 100 MILLJÓNIR KRÓNA ÞEGAR ÞÚ FLYTUR ÚR BÆNUM.
2.NEYTIÐ ÁFENGIS Í HÓFI.
3.LEMDU FÓLK Í KLESSU EF ÞAÐ ER EKKI EINS OG ÞÚ.
4.BORÐAÐU HOLLA FÆÐU.
5.KIDDI LAS SJÁLFUR FYRIR ÞENNAN LISTA.
6.TUNGLIÐ ER ÚR GRÆNUM OSTI.
7.ALLT SEM KIDDI SEGIR ER RÉTT.
8.ÞVOÐU ÞÉR UM HENDURNAR ÞEGAR ÞÚ ERT BÚINN Á KLÓSETTINU.
9.EKKI NEYTA ÁFENGIS.
10.BORÐAÐU PULSUR Í BRAUÐI MEÐ ENGU ÖÐRU.
11.SMJAÐRAÐU FYRIR KIDDA EÐA HANN LEMUR ÞIG Í KLESSU.

Ég: Þetta virðist vera skrifað á bréfsefni frá Gunnari.

María: Kiddi átti ekki neinn pappír.

Ég: Ég hef það á tilfinningunni að ef við myndum athuga það kæmi í ljós að þetta væri rithönd Gunnars.

Jón: Auðvitað, Kiddi las þetta fyrir.

Ég: Ég hélt þú hefðir sagt að engin fengi að sjá Kidda?

María: Ekki núna, en fyrir mörgum árum talaði hann við sumt fólk.

Ég: Ég hélt að hann væri mannvinur. Hvers konar mannvinur lemur fólk í klessu bara af því að það er öðruvísi?

María: Það er það sem Kiddi vill, og Kiddi hefur alltaf á réttu að standa.

Ég: Hvernig færðu það til að ganga upp?

María: Liður nr. 7 segir "Allt sem Kiddi segir er rétt". Það er nógu gott fyrir mig!

Ég: Kannski bjó Gunnar vinur ykkar þetta bara allt til sjálfur?

Jón: Ó, nei! Liður nr. 5 segir "Kiddi las sjálfur fyrir þennan lista". Auk þess segir í lið nr. 2 "Neytið áfengis í hófi", liður nr. 4. "Borðaðu holla fæðu" og liður nr. 8 segir "Þvoðu þér um hendurnar þegar þú ert búinn á klósettinu". Allir vita að þetta er rétt svo hitt hlýtur líka að vera rétt.

Ég: En segir ekki liður nr. 9 "Ekki neyta áfengis" sem passar nú ekki alveg við lið nr. 2, og svo segir í lið nr. 6 "Tunglið er úr grænum osti" sem er nú bara alrangt.

Jón: Það er engin mótsögn milli liða nr. 9 og nr. 2, liður nr. 9 einfaldlega skýrir lið nr. 2. Varðandi lið nr. 6 þá hefur þú aldrei farið til tunglsins svo þú getur ekki haldið því fram með vissu.

Ég: Vísindamenn hafa mjög örugglega sýnt fram á að tunglið er úr steini…"

María: En þeir vita ekki hvort steininn kom frá jörðinni eða utan úr geimnum svo það gæti alveg eins verið úr grænum osti.

Ég: Ég er nú enginn sérfræðingur en ég held að löngu sé búið að leggja þeirri kenningu að jörðin hafi einhvernveginn "fangað" tunglið til sín. Auk þess sem að það gerir ekki steininn að osti bara af því við vitum ekki hvaðan hann kom.

Jón: Aha! Þú viðurkennir sem sagt að vísindamenn geri mistök, en við vitum að Kiddi hefur alltaf á réttu að standa!

Ég: Vitum við það?

María: Auðvitað vitum við það, það stendur í lið nr. 5.

Ég: Þið sem sagt segið að Kiddi hafi alltaf á réttu að standa af því að það stendur á listanum, listinn er réttur af því að Kiddi las hann fyrir og við vitum að Kiddi las hann fyrir af því að það stendur á listanum. Þetta eru bara rök sem fara hring, í raun það sama og að segja að Kiddi hafi á réttu að standa af því að hann segist hafa á réttu að standa.

Jón: Já, nú ertu að ná þessu! Það er svo dásamlegt að sjá þegar fólk fer að hugsa eins og Kiddi.

Ég: En…oh, skiptir ekki máli. En hvað er þetta með pulsurnar?

María (hún roðnar)

Jón: Pulsur í brauði með engu öðru. Svona vill Kiddi hafa það. Allt annað er rangt.

Ég: En ef ég nota ekki pulsubrauð?

Jón: Ekkert pulsubrauð engin pulsa. Pulsa án pulsubrauðs er rangt.

Ég: Ekkert remúlaði? Engin tómatsósa?

María (í sjokki)

Jón (öskrar): Það er engin þörf fyrir slíkan talsmáta! Það er rangt að hafa eitthvað með pulsunni!

Ég: Svo að risa hrúga af steiktum lauk og sinnepi með niðurskornum pulsubitum er út úr myndinni?

María (stingur puttunum í eyrun): Ég er ekki að hlusta á þetta. La la la la la la lalalalalaalala.

Jón: Þetta er viðurstyggilegt. Aðeins viðbjóðslegur og vondur pervert myndi borða eitthvað slíkt…

Ég: Það er gott! Ég fæ mér það oft.

María (fellur í yfirlið)

Jón (grípur Maríu): Ef ég hefði vitað að þú værir "einn af þessum" hefði ég ekki sóað tíma mínum. Þegar að Kiddi lemur þig í klessu verð ég viðstaddur, tel peningana mína og hlæ mig máttlausan. Ég skal smjaðra fyrir Kidda fyrir þig, þú þarna pulsubrauðslausa remúlaðiætan þín.

Og Jón dröslaði Maríu út í bíl og keyrði burt í hasti.

(þýðing. Aiwaz- höf. Jim Huber?)

Aiwaz 17.11.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )