Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fúskarinn Guð

Það eru engin merki þess í náttúrunni að stefnt sé að nokkrum tilgangi. Eftir því sem hún er betur könnuð verður það ljósara að atburðir gerast þar í röð eftir því sem aðstæður leyfa og algerlega undir hælinn lagt hverjar afleiðingarnar eru.

Sú ævagamla hugmynd mannskepnunnar að heimurinn hljóti að vera smíðaður kringum hana og hún sé hið endanlega markmið með tilurð heimsins stenst einfaldlega ekki. Tökum sem dæmi staðsetninguna. Hvað á það að fyrirstilla að planta okkur niður í útjaðrinum á einum armi þeirrar vetrarbrautar sem við erum partur af? Og þessi vetrarbraut er svo bara ein af milljörðum slíkum. Hefði ekki verið flottara að hafa okkur í miðju hennar og hafa hana þá einu í alheimi?

Með þeirri tækni sem við ráðum yfir í dag sjáum við ekki nema hluta af öllum þeim grilljónum vetrarbrauta sem vitað er af þarna úti. Af hverju öll þessi leiktjöld ef nóg var að stilla upp einni vetrarbraut? Pétur Gunnarsson lýsir þessu þannig í bókinni Myndin af heiminum:

Þetta er óheyrileg sviðsetning, líkt og stæði til að taka upp eitt andvarp í kjallaraholu í Vesturbænum og leiktjöldin væru öll Reykjavík, Hveragerði, Þorlákshöfn, Eyrarbakki, Stokkseyri, Hella, Hvolsvöllur og áfram allt landið hvert einasta krummaskuð, sveitabæirnir líka með kviku og dauðu, hver einasta hnífaparaskúffa fyllt með tilheyrandi dóti - og ekki nóg með það - Evrópa, Asía, Afríka, Ameríka, já Eyjaálfan einnig - með manni, mús og munum - fyrir eitt andvarp í Vesturbænum!

Einfaldasta og rökrænasta skýringin er sú að þetta sé ekki leikmynd, heldur sé hið kvika líf á þessu rykkorni þarna í armi sjö á vetrarbraut númer 439.453.082.304.390.439 einungis tilkomið vegna þeirra aðstæðna sem þarna urðu.

Svo er það hægagangur hins meinta guðs. Almennilegur guð hefði skapað þetta allt á fáeinum dögum eða í einni andrá, eins og Biblían lýsir. En við vitum einfaldlega betur. Það tók óratíma frá því að hnöttur okkar myndaðist þar til eitthvað sem heitið gat líf náði að kvikna. Og ekki hefur minni tími farið í það að þróa og útfæra þetta líf áður en maðurinn "var fenginn" fram.

Fyrst skiptist lífið niður í tvær greinar, flóru og fánu. Dýraríkið náði fljótt að skipast niður í ótal tegundir, fyrst í sjó en svo á landi líka. Hryggdýr koma ekki til sögunnar fyrr en að heilli eilífð liðinni. Sá guð sem tekur sér allan þennan tíma til að skapa eitt stykki mann er varla merkilegur smiður.

Svo er þessi smíðisgripur, þetta endanlega markmið Guðs almáttugs, meingallað. Við erum enn með rófubein, þótt engin sé rófan. Þetta bein þjónar engum tilgangi öðrum en þeim að valda okkur sársauka þegar það brákast eða brotnar fyrir slysni. Almennilegur guð hefði strokað það út á teikniborðinu.

Karlmenn hafa geirvörtur þótt engan veginn verði séð að það sé hlutverk þeirra að ala önn fyrir afkvæmum sínum með brjóstagjöf. Hvað á það að fyrirstilla? Týndi almáttugur Guð strokleðrinu?

Svo er þessi herra jarðar varnarlaus gegn alls kyns ósýnilegum bakteríum og veirum. Almennilegur guð hefði séð til þess að svoleiðis drasl væri ekki að ónáða þetta höfuð sköpunarverksins. En nei, við höfum þurft að finna út úr því sjálf, því það er eins og það sé vilji guðs að við kveljumst fyrir tilstuðlan þessara örvera.

Og eru þá ekki læknavísindin slæm, fyrst þau ganga gegn þessum augljósa vilja skaparans? Eða var það kannski meiningin hjá honum að mannskepnan fyndi út úr þessu sjálf. En af hverju þá allar þessar kvalir ártugþúsundum saman áður en tókst að finna út úr þessu? Er þessi guð haldinn kvalarlosta?

Nei, einfaldari og lógískari skýring er til. Við erum bara ein dýrategundin og ekki par merkilegri en hinar. Aðstæður hafa mótað okkur þannig að við stöndum á tveimur fótum, höfum misst feldinn, búum að litasjón en litlu lyktarskyni. En svo höfum við þennan stóra heila sem hefur hjálpað okkur að kljást við erfiðar aðstæður.

Og þar liggur einnig helsti vankantur þessarar dýrategundar. Flókið heilabú kallar á flókinn hugsanagang sem birtist m.a. í flóknum skýringum á veröldinni. Það er reyndar ekkert athugavert við að hrapa að flóknum skýringum þegar engin þekking liggur fyrir, en þegar þekkingin hefur verið fengin er það í raun stórundarleg hegðun að hampa enn þessum flóknu og ólíklegu skýringum.

Og ábyrgðarhluti, ef menn boða þær sem einhvern sannleik. Hafi tilvera okkar verið planlögð af skapara er sá hinn sami bæði illa skipulagður bruðlari, latur og lélegur hönnuður með illt innræti.

Birgir Baldursson 13.09.2003
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )