Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Nýr kirkjujarðasamningur styrkir tengsl ríkis og kirkju

Peningar

Nýlega var sagt frá því að ríkisstjórnin og ríkiskirkjan hefðu náð samkomulagi um endurskoðun á kirkjujarðasamningum frá 1997.

Sumt í nýja samningnum er skref í rétta átt, en því miður þá myndi samþykkt þessa samnings á Alþingi þýða að það verði erfiðara að slíta sambandi ríkis og kirkju.

Litla skrefið í rétta átt

Það góða í samningnum er að ríkið myndi hætta að borga Þjóðkirkjunni á forminu ~135 árslaun presta. Í staðin verður þetta bara ákveðin krónutala og ríkiskirkjan mun sjálf sjá um öll starfsmannamálin sín.

Þetta er liður í því að klerkastéttin verði í framtíðinni ekki lengur starfsmenn ríkisins heldur starfsmenn Þjóðkirkjunnar. Bæði ríkisstjórnin og stjórn ríkiskirkjunnar (að undanskildum prestum) hafa verið sammála um þessa breytingu undanfarin ár.

Stóru skrefin í ranga átt

Því miður er það slæma í samningum miklu veigameira.

Stór hluti af þeim peningum sem ríkið greiðir kirkjunni árlega fer í tvo sjóði, Kirkjumálasjóð og Jöfnunarsjóður sókna. Það eru um 711 milljónir á ári.

Í nýja samningnum er þessum 711 milljónum bætt inn í kirkjujarðasamkomulagið.

Núna eru þessar greiðslur einfaldlega ákveðnar af Alþingi með lögum. Þannig að ríkið getur slitið á þessar 700 milljón króna tengsl með einfaldri lagabreytingu.

Ef þessi samningur verður samþykktur, þá mun það þýða að ríkið getur ekki lengur slitið þessi 700 milljón króna tengsl einhliða, heldur mun þetta verða fest í samningi.

Í núverandi kerfi hefur fækkun (eða fjölgun) meðlima í ríkiskirkjunni áhrif á þær greiðslur sem Þjóðkirkjan fær. Í nýja samningnum er það tekið út. Það hagnast ríkiskirkjunni augljóslega, þar sem að það fækkar í henni á hverju ári og ekkert bendir til að hægja muni á þeirri fækkun.

Ekkert fæst fyrir hátt í milljarð

Í stuttu máli má segja að eina góða breytingin, að prestar verði ekki lengur ríkisstarfsmenn, er breyting sem að ríki og kirkja vildu bæði.

Á móti er kirkjujarðasamningurinn stækkaður um meira en 700 milljónir á ári og fækkun ríkiskirkjumeðlima mun ekki lengur hafa áhrif á greiðslur vegna samningsins.

Það er erfitt að sjá hvað ríkið fær fyrir þessa 700 milljón króna hækkun (og þessi upphæð hækkar með fækkun í kirkjunni). Eina breytingin í aðskilnaðarátt er breyting sem Þjóðkirkjan er hvort sem er sammála (að prestar verði ekki lengur ríkisstarfsmenn).

Það er út í hött að reyna að kynna þessar breytingar sem skref í átt að aðskilnaði ríki og kirkju. Þó lögin sem kveða á um þessar 700 milljónir verði afnumin, þá skiptir það litlu máli ef ríkið setur nákvæmlega sömu greiðslur í nýjan samning. Sérstaklega þar sem þá er erfiðara að hætta þessum greiðslum.

Erfiðasti hlutinn við aðskilnað ríkis og kirkju er að leggja niður þennan kirkjujarðasamning. Að hækka hann um 700 milljónir er skref í kolvitlausa átt.

Ritstjórn 08.11.2019
Flokkað undir: ( Ríkiskirkjan )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/19 13:25 #

Það er rosalega "heppilegt" fyrir Þjóðkirkjuna að gera samning í dag sem tryggir henni áfram sömu (meiri!) tekjur þegar það er ljóst að það mun halda áfram að fækka í kirkjunni og tekjur hennar myndu annars minnka.

Þetta er svo heppilegt að ég vil eiginlega segja að þetta sé dæmi um glórulausa spillingu.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?