Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þögnin um eðli sóknargjalda

Peningar Sóknargjöld eru eitt helsta hagsmunamál Þjóðkirkjunnar. Þau voru skert eftir hrun og samkvæmt útreikningum Þjóðkirkjunnar fengi hún um milljarði meira á ári ef engin skerðing hefði orðið.

Meginstoðin í baráttu Þjóðkirkjunnar fyrir þessum fjármunum er hugmyndin að sóknargjöld séu félagsgjöld sem ríkið innheimtir fyrir kirkjuna.

Ýmsir hafa bent á að þessi málflutningur standist ekki, sóknargjöld séu alls ekki félagsgjöld. Slíkt er eflaust hægt að afskrifa sem andkirkjulegan áróður. Að vísu hafa fjármálaráðherra, ríkislögmaður og Umboðsmaður Alþingis líka haldið því fram að sóknargjöld séu ekki innheimt félagsgjöld. Þann málflutning má afskrifa með því að þar sé ríkisvaldið að verja hagsmuni sína.

Það væri kannski erfiðara að afskrifa einstakling sem er vígður prestur, kirkjuþingsfulltrúi, prófessor við guðfræðideild HÍ og velunnari Þjóðkirkjunnar. Hjalti Hugason er einmitt svona einstaklingur og fyrir rúmu ári birtist ritrýnda fræðigreinin „Félagsgjöld eða ríkisframlag? Eðli og þróun sóknargjalda“ eftir hann í Ritröð guðfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Í greininni útskýrir Hjalti ítarlega og skýrlega að sóknargjöld eru ekki félagsgjöld; gjaldskyldan miðast ekki við aðild, ekki er um bein persónulegt gjald að ræða og gjaldtakinn ákveður ekki upphæðina svo eitthvað sé upp talið.

Það er varla hægt að afskrifa Hjalta Hugason sem óvin Þjóðkirkjunnar eða talsmann ríkisvaldsins og í ljósi þess að milljarður á ári er í húfi mætti halda að það yrðu einhver viðbrögð við þessum skrifum.

Í staðinn ríkir vandræðaleg þögn. Þegar sannleikurinn kostar þúsund milljónir á ári finnst sumum kannski óþarfi að vekja athygli á því að andmælendur Þjóðkirkjunnar og talsmenn stjórnvalda höfðu einfaldlega rétt fyrir sér um eðli sóknargjalda.


Birtist upphaflega í Morgunblaðinu 2018-10-10

Hjalti Rúnar Ómarsson 18.10.2018
Flokkað undir: ( Sóknargjöld )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.