Því er oft haldið fram að sóknargjöld séu félagsgjöld trúfélaga. Stundum er einnig sagt að þau séu elstu félagsgjöld landsins (jafnvel er gengið svo langt að halda því fram að þau séu 900 ára gömul).
Raunin er að sóknargjöld voru fyrst sett árið 1909 með lögum frá Alþingi. Fyrir þann tíma greiddu landsmenn ýmsa skatta og gjöld til ríkiskirkjunnar en árið 1909 var ákveðið að einfalda kerfið og taka upp sóknargjöld. Ef umræðurnar á Alþingi og lögin eru skoðuð sést að þetta voru alls ekki félagsgjöld.
Félagsgjöld eru gjöld sem lögð eru á félagsmenn. Fólk sem er ekki í félagi borgar ekki félagsgjöld.
Í lögunum sem voru samþykkt á Alþingi segir að allir 15 ára og eldri eigi að borga gjöldin til sóknar sinnar[1]. Sókn er landfræðilegt heiti og þetta þýddi að einstaklingur sem var ekki á neinn hátt meðlimur í Þjóðkirkjunni þurfti samt að borga til Dómkirkjusóknar ef hann bjó innan marka sóknarinnar.
Sóknargjöld voru því ekki bundin við félagsaðild. Þau voru lögð á fólk sem var ekki í neinu trúfélagi og því var ekki um neins konar félagsgjöld að ræða.
Það var deilt um þessi gjöld á Alþingi. Aðallega þóttu sumum að nefskattur væri ósanngjarn gagnvart fátæku fólki, en sumum fannst þetta ósanngjarnt gagnvart þeim sem voru ekki meðlimir í Þjóðkirkjunni.
Í framsöguræðu efri deildar var minnst á þetta atriði: "en það er vitanlegt, að gjaldskyldan hvílir jafnt á öllum, sem ekki eru í einhverju kirkjufélagi utan þjóðkirkjunnar" (dálkur 809)
Í neðri deild kom fram tillaga um að "þeir einir eru gjaldskyldir til þjóðkirkjunnar, sem teljast til hennar, en þeir lausir við að greiða gjöld til þjóðkirkjunnar, sem ekki teljast til hennar". Rökstuðningurinn var sá að það væri "ranglátt að þvinga þá [sem ekki tilheyra neinu kirkjufélagi] til að greiða þessi gjöld". Annar þingmaður tók undir þetta og vildi að "allir, sem ekki eru í þjóðkirkjunni sé undanþegnir gjöldum til hennar" og kallaði sóknargjöld "kúgunargjöld" (dálkur 1382).
Á þinginu kom fram tillaga um að utankirkjufólk gæti borgað þessi gjöld í skólasjóð til styrktar fátækum börnum en því var mótmælt annars vegar með að þá væri í raun verið að láta utankirkjufólk borga "tvöfalt fræðslugjald" (dálkur 1387). Sú tillaga minnir að mörgu leyti á þá framkvæmd sem kom fram síðar meir, þegar utankirkjufólk var neytt til að borga sóknargjöld til Háskóla Íslands.
Að lokum var tillagan um að einungis meðlimir Þjóðkirkjunnar myndu borga sóknargjöld felld (622 skjal) og tillagan um að utankirkjufólk myndi geta borgað í fræðslusjóð fátækra barna var einnig felld (skjal 707).
Sóknargjöld voru því lögð á utankirkjufólk. Aldrei var í þessum umræðum minnst einu orði á að þetta væru félagsgjöld og því ættu einungis félagar að greiða þessi gjöld, enda var væntanlega litið á þetta sem opinberan nefskatt.
Raunin varð að 40 árum eftir að trúfrelsi var lögfest í stjórnarskrá samþykkti Alþingi að þvinga utankirkjufólk til að greiða persónuleg gjöld til ríkiskirkjunnar. Þó þetta hafi ekki verið félagsgjöld, þá voru þetta svo sannarlega “kúgunargjöld" og væru kolólögleg nú til dags.
Það er hægt að nálgast Alþingistíðindi ársins 1909 á vefsíðu Alþingis en hér er hægt að nálgast úrklippur úr Alþingistíðundum 1909 með eingöngu umræðum og skjölum tengdu þessu máli
[1] í 7. gr. laganna stendur “Hver maður, sem er 15 ára eða eldri, hvort heldur er karl eða kona og í hvaða stöðu sem er, skal greiða gjald til kirkju þeirrar, er hann á sókn að, 75 aura á ári.” Í greininni er svo gerð ein undantekning, ef einhver borgaði 2 kr og 25 aura á ári til kirkjufélags með presti utan Þjóðkirkjunnar.
Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.
Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.