Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Áskorun til Geirs Waage

Mynd af peningum

Fyrir stuttu birtist grein eftir Geir Waage í Morgunblaðinu þar sem hann fjallar um niðurskurð á sóknargjöldum. Geir heldur því fram að með lækkun sóknargjalda sé ríkið að hlunnfara Þjóðkirkjuna. Hann segir að ríkið “innheimti” sóknargjöld að fullu, en skili þeim skertum til sóknanna. Hann gengur svo langt að ýja að því að um þjófnað sé að ræða.

Málflutningur Geirs byggir á ranghugmynd um eðli sóknargjalda. Þvert á fullyrðingar hans þá innheimtir ríkið engin sóknargjöld. Ríkið ákveður á ári hverju hve há framlög það veitir trúfélögum fyrir hvern skráðan meðlim. Ef Geir vill nánari útskýringu á fyrirkomulaginu bendi ég á álit Umboðsmanns Alþingis í máli 6322/2011.

Það að ríkið ákveði að lækka framlög til opinberra aðila á borð við sóknir Þjóðkirkjunnar er fráleitt að kalla þjófnað.

Sögulegt slys

Þessi ranghugmynd á eðli sóknargjalda er því miður ríkjandi innan Þjóðkirkjunnar. Ég tel ástæðu misskilningsins vera þá að það var ekki ætlunin að breyta sóknargjöldum í hrein og bein framlög þegar núverandi lög voru samin. Það gerðist óvart og orsökin var græðgi Þjóðkirkjunnar sjálfrar og ofríki í garð utantrúfélagsfólks.

Áður voru sóknargjöld nefskattur. Til að koma í veg fyrir að fólk myndi skrá sig úr Þjóðkirkjunni til að losna við skattinn var skatturinn einnig lagður á utantrúfélagsfólk. Þegar núverandi kerfi var tekið upp var hætt með nefskattinn. Þess í stað áttu sóknargjöld að koma úr innheimtum tekjuskatti.

Í Danmörku er svipað kerfi en ólíkt Íslandi er tekjuskattsprósenta meðlima trúfélaga örlítið hærri en þeirra sem standa utan trúfélaga. Því er hægt að benda á þann pening sem innheimtist vegna þessarar hærri tekjuskattsprósentu og kalla það innheimt sóknargjöld.

Á Íslandi er tekjuskattsprósentan sú sama hvort sem fólk er skráð í trúfélag eða ekki. Hér er því engin hluti tekna skattlagður sérstaklega og eyrnarmerktur trúfélögum og því ekki hægt að benda á neina prósentu eða upphæð og segja að það séu innheimt sóknargjöld.

Ef Þjóðkirkjan hefði ákveðið að hætta að kúga fólk sem stendur utan trúfélaga þegar núverandi kerfi var tekið upp og ákveðið að sóknargjöld skyldu bara innheimt af meðlimum trúfélaga, þá greiddu meðlimir þeirra örlítið hærri tekjuskattsprósentu en utantrúfélagsfólk. Skatttekjur sem innheimtust þannig, mætti með réttu kalla innheimt sóknargjöld.

Áskorunin

Ef Geir Waage er ósammála Umboðsmanni Alþingis og þrjóskast við að staðhæfa að ríkið sé að stela innheimtum sóknargjöld frá Þjóðkirkjunni, skora ég á hann að fara með málið fyrir dómstóla. Ætti Reykholtssókn ekki að eiga lögvarinn rétt á þessum stolnu sóknargjöldum?

Ef Geir vill ekki fara dómstólaleiðina, þá er hægt að leysa þetta ósætti með því að breyta sóknargjöldum í skatt sem utantrúfélagsfólk borgar ekki. Hingað til hefur Þjóðkirkjan hins vegar barist gegn því af ótta við fjöldaúrsagnir.


Birtist upphaflega í Morgunblaðinu

Hjalti Rúnar Ómarsson 03.05.2017
Flokkað undir: ( Sóknargjöld )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?