Samband kristni og þjóðar er þúsund ára eins og talsmenn kristni benda okkur oft á. Hvernig var sambandið? Hér er skemmtilegt dæmi úr Húsagatilskipun frá 1746 sem voru kristileg tilmæli frá yfirvöldum til bænda um að berja heimilisfólkið ef það varð uppvíst að ókristilegu athæfi. Undir það flokkaðist; sögur um sjálft sig, sóðakjaftur, skop, rímur, klámvísur og annað “ósæmilegt tal.” Beinlínis allt sem fólki fannst fyndið og skemmtilegt. Ef bændur fóru ekki eftir þessu, þá voru þeir barðir sjálfir.
„7. Sérhvör húsbóndi skal kostgæfilega áminna sín börn og hjú, so vel að uppbyrja þeirra erfiði og útréttingar með bænum til Guðs sem og í erfiðinu staðfastlega sjálf að upplyfta þeirra hjörtum til hans, sem er brunnur og uppspretta allrar blessunar, og innbyrðis að tala sín á milli um guðrækilega og uppbyggilega hluti eður annað, það sem ærlegt er og rétt-kristnum manni sæmilegt, hvar á mót þau alvarlega eiga að áminnast undir straff að vakta sig fyrir ósæmilegu tali og gamni, eiðum og blóti, hégómlegum historium eða so kölluðum sögum og amors-vísum eða rímum, sem kristnum sómir ekki um hönd að hafa og heilagur andi angrast við, á hvört jafnvel og so hjú og börn eiga eftir skyldu þeirra kristindóms í kærleika að áminna hvört annað.
So og eiga foreldrar, húsbændur og matmæður sjálf hér í að ganga á undan þeirra börnum og heimilis-fólki með góðu og kristilegu eftirdæmi og að taka sér vara fyrir öllu því, sem kann af sér að gefa nokkurt heimuglegt eður opinber hneyxli.
En verði þeir annaðhvört sjálfir fundnir í áður-téðum syndum og löstum samt öðrum ótérlegheitum og óguðlegleik eður að líða sínu fólki slíkt án þess að gefa það til kynna, þá álítist þeir með gapastokknum eftir undangengna aðvörun, og gagni það ekki, þá með hærra og harðara straffi, sérdeilis með kirkjunnar disciplin eftir sakarinnar kringumstæðum.“
Í sem stystu máli; ef þú varst ekki nógu kristinn þurfti að refsa þér.
Íslandssagan er stútfull af álíka kristilegu ofbeldi. Staða ríkiskirkjunnar í dag byggir á þessum grunni.
Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.
Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.