Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Helvíti í Kóraninum

Mynd af miðaldamálverki sem sýnir Múhameð skoða helvíti

Varla er mögulegt að finna bók sem fleira fólk hefur í hávegum en Kóraninn og líklega er ekkert trúarrit í heiminum sem fleira fólk trúir bókstaflega á en hann. Í hinum íslamska heimi kemur fólk saman í þúsunda vís og hlustar á upplestur úr Kóraninum, og vandfundin er bók sem er víðlesnari á heimsvísu. Auk þess hefur Kóraninn áhrif á löggjöf og menningu fjölda margra landa. Eins og titill greinarinnar gefur til kynna er hér fjallað um helvíti eins og því er lýst í Kóraninum, hverjir fara þangað og hvaða ályktanir megi draga af tilvist helvítis varðandi innræti og eðli þess Guðs sem Kóraninn boðar.

Kóraninn

Kóraninn er ákveðin þungamiðja í íslam. Í Kóraninum stendur að hann sé hafinn yfir allan vafa og sé óskeikul leiðsögn hinna réttlátu (2:2). Guð opinberaði Kóraninn sjálfur[1] og einungis hinir vantrúðu hafna versum hans (sjá t.d. 29:47). Samkvæmt Kóraninum myndi enginn geta skrifað annað eins meistaraverk og Kóraninn er, jafnvel þó að allir menn og allir englar reyndu og hjálpuðust að (17:88). Aðeins Guð hefði getað skrifað Kóraninn (10:37). Í Kóraninum eru engar villur (18:1) og hann er móðir allra bóka (13:39 o.fl.). Snúum okkar nú að því sem Kóraninn segir um helvíti.

Helvíti

Það sem Guð ætlar að gera við hina vantrúuðu í helvíti um alla eilífð lýsir engu öðru en mannhatri. Engin stjórnvöld í veröldinni myndu sýna af sér viðlíka grimmd. Allir mannréttindasáttmálar í heimi myndu fordæma þá meðferð sem Guð myndi veita þeim vantrúuðu, væru frásagnir Kóransins sannar. Hér koma dæmi:

  • Þeim vantrúuðu verður refsað með grimmilegri angist bæði í þessum heimi og hinum komandi (3:56).
  • Þeir sem ekki trúa opinberunum Kóransins munu brenndir í eldi. Í hvert sinn sem skinn þeirra mun bráðna af, munu þeir fá nýtt og ferskt skinn svo þeir geti bragðað þjáninguna sem hlýst af því að skinnið bráðni af á nýjan leik (4:56).
  • Þeir munu drekka ofurheitt sjóðandi vatn, í sársaukafullum dómi, vegna þess að þeir trúðu ekki (6:70).
  • Á upprisudegi verður þeim sem Guð hefur afvegaleitt[2] staflað saman, blindum, sjóndöprum og heyrnarlausum til helvítis, og eldurinn verður aukinn í hvert sinn sem hann dofnar og það sagt afleiðingar þess að þeir trúðu ekki opinberun Kóransins (17:97-98).
  • Fyrir illgjörðarmenn er útbúinn eldur og helt verður yfir þá bráðnuðu blýi sem brennir andlit þeirra (18:29).
  • Sniðin verða klæði úr eldi fyrir hina vantrúuðu og brennandi ofurheitum vökva verður helt yfir höfuð þeirra, sem mun bræða allt sem er í maga þeirra og skinnið. Þeim verður refsað með járnkylfum, og í hvert sinn sem þeir vilja flýja verða þeir hraktir aftur í pyndingarnar og þeim sagt að bragða hinn brennandi dóm (22:19-22).
  • Utan um háls þeirra sem hafna Kóraninum og boðskap spámannsins verður settur járnkragi og þeir bundnir í keðjur. Því næst verða þeir dregnir í gegnum ofurheitt brennandi vatn og að lokum verður þeim hent í eld (40:70-72).
  • Syndurum verður gefið tiltekið tré að borða sem verður sem bráðinn málmur í maga þeirra (44:43-48) og þeir munu dvelja ódauðlegir í eldinum að eilífu og fá að drekka sjóðandi vatn sem tærir innyfli þeirra (47:15).
  • Englarnir munu lemja þá í andlitið og bakið (47:27).

Svona væri hægt að halda áfram talsvert lengur, og er vísað í fleiri vers í þessum dúr í neðanmálsgrein, en sá listi er óra langt frá því að vera tæmandi.[3]

Mannhatur

Helvítið sem fjallað er um hér að framan bíður hinna vantrúuðu – þ.e. þeirra sem trúa ekki á hinn eina Guð, heldur marga guði (9:17 o.fl.) eða auðvitað engan, og einnig þeirra sem Kóraninn kallar illgjörðarmenn. Kóraninn segir t.d. berum orðum að meðal þeirra sem fara til helvítis séu þeir sem segja að Guð sé kristur og sé sonur Maríu Meyjar (5:72), þ.e. þeir sem trúa á þrenningarkenningu kristindómsins. Það er vegna þess að með því er Guði spyrt saman við aðra (guði), en fjölgyðistrú er í sérstökum sérflokki í Kóraninum. Sú synd heitir shirk á arabísku. Guð getur mögulega fyrirgefið látnum manni hvaða synd sem er, jafnvel þó að viðkomandi hafi ekki verið búinn að gera iðrun fyrir andlátið, nema þennan tiltekna stórglæp, shirk. (4:48).[4]

Sá sem lýsir slíkum eilífum pyndingum og telur þær réttlát örlög einhvers fólks er einfaldlega mannhatari. Við það bætist að pyndingar fyrir skoðanaglæpi, eins og að tilbiðja Jesú Krist ranglega sem Guð, eða trúa ekki á opinberanir Kóransins, eru fáránlegar. Raunar eru svona refsingar með öllu óásættanlegar fyrir hvaða illgjörðarmenn sem er. Það er harla ólíklegt að heimurinn hafi verið skapaður af mannhatandi skrímsli eins og Guði Kóransins.


[1] (39:1-2 o.fl. t.d. 3:7; 41:2–3; 12:1–2; 20:113; 25:6; 2:2–4; 43:43–44; 6:19; 39:41)
[2] وَمَن يُضْلِلْ
[3] Fleiri vers í þessum dúr: 2:24, 5:37, 7:50, 8:50, 9:17, 9:35, 14:16-17, 14:49-50, 18:53, 21:29, 21:97, 23:104, 25:11-13, 25:26-27, 40:49-50, og 44:43-48
[4] Kamoonpuri, S: "Basic Beliefs of Islam" pages 42–58. Tanzania Printers Limited, 2001.

Sindri G. 15.04.2015
Flokkað undir: ( Íslam )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.