Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vilhallur

Mynd af Tojo

Það er jafnan háttur trúvarnarmanna að óska eftir því sem þeir kalla umræðu um trú sína og yfirburði hennar umfram veraldlegri skoðanir og heimssýn. Af nýlegri grein Halls Hallssonar í Mbl. (10/3/15) dreg ég þá ályktun að hann óski eftir slíkum skoðanaskiptum, þótt óljóst sé af ummælum hans hvort hann væntir svars, enda greinin öll hin undarlegasta og lítt til skynsamlegrar umræðu fallin.

Hallur sækir sér þau þrautreyndu vopn í herbúðir trúvarnarinnar að afflytja málstað trúlausra og skrumskæla staðreyndir. Í hans meðförum verða helstu þjóðarmorð og voðaverk nýliðinnar aldar bein afleiðing trúleysis og telur hann upp alþekkta harðstjóra og morðingja máli sínu til stuðnings og hnýtir við hversu margar milljónir mannslífa hver og einn hafi á samviskunni. Í tilraun sinni að tengja saman í hugum lesenda trúleysi og mannvonsku þegir Hallur yfir því að nazisminn var langt því frá guðlaus stefna, Hideki Tojo var shintoisti og Pol Pot búddisti. Það skiptir hins vegar ekki máli hvort þessir brjálæðingar voru trúaðir eða trúlausir. Það réð ekki gerðum þeirra heldur hitt að þeir sáust ekki fyrir í hömlulausi valdafíkn, þjóðernisrembingi og hugsjónablindu sem engu eirði. Að kenna trúleysi um Gúlagið eða helförina er heimskulegt svo það sé nú bara sagt hreint út.

Með rökum Halls get ég staðhæft að kristnin sé ábyrg fyrir einhverri helstu ógnarstjórn sem þrífst á vorum dögum. Á forsetastóli bandaríkja Norður-Ameríku hafa setið óslitið frá stofnun þeirra kristnir forsetar og á þingi sömu þjóðar sitja engir trúleysingjar. Engin stjórn fangelsar fleiri þegna eigin lands, dæmir börn í fangelsi, heldur föngum án dóms og laga, á í stríði út um allan heim þar sem milljónir láta lífið, virðir alþjóðasamninga að vettugi eða neitar að undirrita þá og neitar að takast á við rasima, fátækt, mismunun og kúgun heimafyrir. Þetta ríki hefur trúaryfirlýsingu á gjaldmiðlinum, meiri hluti þjóðarinnar játar kristna trú og undantekningalaust lýkur forsetinn ræðum sínum með ósk um guðsblessun ríki sínu til handa. G.W. Bush forseti, næstur á undan þeim sem nú vermir forsetastólinn, sagði að guð hefði skipað sér að ráðast inn í Afganistan og Íran til að frelsa þegna þeirra landa undan harðstjórn innlendra yfirvalda. Er þetta ekki borðleggjandi?

Hallur streðar sem mest hann má að klína ómennsku og afbrigðilegheitum á trúlausa og reynir blygðunarlaust að skapa með lesendum þau hugrenningartengsl að án skilyrðislausar undirgefni við kristinn átrúnað fari þjóðfélög og siðferði lóðbeint til helvítis. Hvernig hann rembist við að tengja fámennan félagsskap Íslenskra trúleysingja við helstu ómenni mannkynssögunnar er viðurstyggilegt og órar hans um yfirburði eigin átrúnaðar eru efni í viðamikla rannsókn. Trúaðir jafnt og trúlausir eru eins misjafnir og þeir eru margir. Trú á yfirnáttúru er ekki nauðsynleg til að gera fólk gott og miskunnsamt, en kauðaleg trúvörn Halls gerir fátt annað en að færa réttsýnu fólki heim sanninn um hversu hættulegt það er þegar trúin yfirbugar skynsemina.

Guðmundur Guðmundsson 19.03.2015
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.