Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

2003: Snjóboltinn á prestapóstlistanum

Mynd af snjóbolta

Árið 2003 birti Hjörtur Magni fríkirkjuprestur póst sem þáverandi formaður Prestafélags Íslands hafði sent á lokaðan póstlista presta. Efni póstsins var trúfélagaskráning fermingarbarna.

Baráttukveðjan

Í Morgunblaðinu var vitnað orðrétt í tölvupóstinn:

“Það hlýtur að vera eðlilegt að börn sem fermast í þjóðkirkjusöfnuði séu í þjóðkirkjunni". Síðan útskýrir hann hvaða leiðir prestar geta farið til að ná því markmiði sínu. Þá segir formaður prestafélagsins orðrétt: “Og síðan er eðlilegt að við bendum foreldrum viðkomandi fermingarbarns eða barna á þetta og sejum að eðlilegt sé að þau séu í söfnuðinum. Við eigum viðkomandi eyðublöð um skráningu í trúfélag.

Við þurfum að vera vakandi yfir þessu atriði" - heldur formaður presta þjóðkirkjunnar áfram og segir síðan - “og getum þannig án efa fjölgað enn hraðar í þjóðkirkjunni sem er mikilvægt í alla staði - við fáum fyrr fleiri presta til starfa og fleiri bera byrðarnar með okkur þegar fram í sækir. Börn þessara barna verða síðan skráð eftir trúfélagi þeirra … þetta er snjóbolti sem er fljótur að hlaða utan á sig. Baráttukveðjur.”

Það er merkilegt að þarna skuli háttsettur ríkiskirkjuprestur segja að prestar eigi að þrýsta á fermingarbörn og foreldra þeirra að skrá sig í ríkiskirkjuna, því að samkvæmt áróðri ríkiskirkjufólks þá er aldrei spurt um trúfélagsaðild þegar fólk sækir um þjónustu frá ríkiskirkjunni.

Ástæðan fyrir ásókn prestsins í fleiri meðlimi er svo klárlega ekki “andleg velferð" fólksins, heldur fjárhagslegur ávinningur kirkjunnar. Þar sem að ríkið borgar meira til kirkjunnar fyrir fleiri meðlimi. Presturinn áttar sig líka klárlega á þeim ávinningi sem kirkjan hefur af sjálfkrafa skráningu óvita í trúfélög.

Hjörtur Magni var svo rekinn af prestapóstlistanum fyrir að hafa birt póstinn.


Mynd fengin hjá redjar

Ritstjórn 28.03.2014
Flokkað undir: ( Baksýnisspegillinn )

Viðbrögð


Þröstur - 28/03/14 10:46 #

Ríkispresturinn segir:

"Og síðan er eðlilegt að við bendum foreldrum viðkomandi fermingarbarns eða barna á þetta og sejum að eðlilegt sé að þau séu í söfnuðinum. Við eigum viðkomandi eyðublöð um skráningu í trúfélag."

Mér finnst ekkert athugavert við þetta og finnst líka ýkjur að segja að þarna sé verið að "þrýsta á fermingarbörnin og foreldra".


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 28/03/14 18:48 #

Þröstur, sumir prestar gengu svo langt að neita að ferma þá sem voru ekki skráðir í ríkiskirkjuna.

Mér finnst ekki "ýkjur" að tala um að það sé þrýstingur ef prestur bendir fólki á að það sé "eðlilegt" að börnin séu skráð í Þjóðkirkjuna.


Ingimar - 01/04/14 13:58 #

Persónulega finst mér ekkert að því að viljir þú láta ferma þig í kirkju og staðfesta þar með trú þína að það sé farið fram á að þú sért skráð/ur í viðkomandi söfnuð. En viljir þú aðeins fermast til að fá "manndómsvígsluna" og/eða ekki af trúarlegum ástæðum þá er siðment og borgaraleg ferming ákjósanlegri.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.