Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

1996: Trúlausi forsetaframbjóðandinn

Mynd af skjaldamerki forseta Íslands

Árið 1996 fóru fram fyrstu forsetakosningarnar eftir setu Vigdísar Finnbogadóttur. Miklar umræður sköpuðust um það hvort einn frambjóðandinn gæti orðið forseti, og þar með að vissu leyti æðsti maður Þjóðkirkjunnar. Þessi frambjóðandi trúði nefnilega ekki á tilvist guðs.

Trúlausi komminn

Frambjóðandinn heitir Ólafur Ragnar Grímsson. Þetta hafði hann sagt í blaðaviðtali mörgum árum áður:

Ég tilheyri þjóðkirkjunni eins og flestir, en þrátt fyrir það er ég nokkuð sannfærður um að Guð sé ekki til. #

Samkvæmt auglýsingu frá “Óháðum áhugamönnum um forsetakjör 1996” hafði Ólafur svo tjáð svipaða skoðun nokkrum mánuðum fyrir forsetakosningarnar:

Í október sl. var rætt við Ólaf Ragnar Grímsson í þættinum Þriðja manninum á Rás 2. Rifjað var upp að hann hefði sagt í viðtali í Helgarpóstinum 15 árum áður að hann væri „nokkuð sannfærður um að guð væri ekki til." Síðan var Ólafur spurður: „Ertu enn þeirrar skoðunar?" Svar Ólafs: ,Já ég er það nú eiginlega." í framhaldi af þessu svari ræddi Ólafur um kynni sín af trúarbrögðum framandi þjóða sem trúa á marga guði og einnig á stokka og steina og sagði síðan að eftir þessi kynni „er voðalega erfitt að sannfæra mig um að einhver einn af þessum guðum sé hinn eini rétti þ.e.a.s. sá sem ríkir í kirkjunum hér heima."

Síðan var Ólafur spurður beinni spurningu: „Á hvað trúir þú?"

Svar Ólafs: „Ég veit það eiginlega ekki. Ég held að þrátt fyrir allt að þá trúi ég svona einna helst á manninn."

Sumum leist ekkert á það að við myndum hugsanlega fá trúlausan forseta.

Hvað má forsetinn?

Í umræðunni um þetta var meðal annars Gunnar G. Schram, lagaprófessor og sérfræðingur á sviði stjórnskipunar, spurður út í það hvort það gæti nokkuð gengið að hafa trúlausan forseta. Þetta var svar Gunnars:

Það er raunverulega ekki hægt að krefjast annars af forsetanum en að hann gangi ekki gegn hagsmunum þjóðkirkjunnar. Honum ber samkvæmt 62. grein stjórnarskrárinnar að styðja og vernda þjóðkirkjuna. Þetta eru skyldur sem þjóðhöfðinginn hefur af því að hann er hluti af ríkisvaldinu. Ég tel að það gengi ekki að hann tæki virkan þátt í öðrum trúarsöfnuðum eða mælti gegn þjóðkirkjunni. Þá væri hann farinn að brjóta embættisskyldur sínar.”

Gunnar var einnig spurður að því hvort forseti sem segði frá því að hann trúði ekki á guð væri með því að “vinna gegn þjóðkirkjunni”:

Þetta er matsatriði. Honum ber samkvæmt þessu atriði að styðja og vernda þjóðkirkjuna. Ef hann segist vera trúlaus jaðrar við að hann sé að lýsa vanþóknun sinni á þjóðkirkjunni og þar með jaðrar við að hann sé farinn að brjóta þetta ákvæði og þar með vanrækja embættisskyldu sína. Það er hins vegar ekki beinlínis hægt að banna honum að gefa yfirlýsingar um trúleysi vegna þess að við höfum í stjórnarskránni ákvæði um trúfrelsi. Það er að sjálfsögðu munur á hvort forsetinn heldur trúleysi sínu fyrir sig og segir engum frá því eða hvort hann lýsir yfir trúleysi í ræðu og riti. Ég tel því að yfirlýsingar forsetans um trúleysi myndu ganga gegn þessu ákvæði.

Samkæmt þessum sérfræðingi þýðir ríkiskirkjuákvæði stjórnarskrárinnar að forseti getur einungis verið trúleysingi ef hann heldur kjafti um trúleysi sitt. Trúleysingjar eru því annars flokks borgarar þegar kemur að forsetakosningum.

Svo heppilega vildi til fyrir trúlausa forsetaframbjóðandann að hann tók trú fyrir kosningar og vann kosningarnar.

Ritstjórn 23.01.2014
Flokkað undir: ( Baksýnisspegillinn )

Viðbrögð


Gummi - 23/01/14 16:40 #

Skorðast trúfrelsi og málfrelsi embættismanna við það að ekki megi varpa neikvæðu ljósi á kirkjuna á neinn hátt?

Ef embættismaður vill aðskilnað ríkis og kirkju má færa rök fyrir því að það þjóni ekki hagsmunum kirkjunnar og því væri sá vilji stjórnarskrárbrot.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.