Nú fer hver að verða síðastur að skrá sig úr ríkiskirkjunni. Fyrsti desember er nefnilega sá dagur sem miðað er við þegar ríkið ákvarðar hve margir eru skráðir í hvaða trúfélag á því ári. Af því tilefni er rétt að rifja aðeins upp hvernig þetta skráningarkerfi var hér áður fyrr, hvers vegna mikið af fólki gæti verið ranglega skráð í ríkiskirkjuna og hvernig guðfræðiprófessor varði þetta kerfi.
Árið 1966 var gefin út ansi sérstök reglugerð varðandi trúfélagsskráningu fólks. Samkvæmt henni þá var fólk sem var skráð í lútherskar fríkirkjur sjálfkrafa skráð í ríkiskirkjuna ef það flutti í “sveitarfélag utan starfssvæðis” kirkjunnar sinnar. Meðlimur Fríkirkjunnar í Reykjavík sem flutti frá Reykjavík til Garðabæjar var þannig sjálfkrafa skráður í ríkiskirkjuna.
Ef sami aðili flutti til baka á starfssvæði fríkirkjunnar sinnar, þá var hann hins vegar ekki skráður aftur í kirkjuna sína, heldur var hann áfram skráður í ríkiskirkjuna.
Afleiðing þessarar reglugerðar er líklega sú að hundruðir, ef ekki þúsundir manns voru skráðir án vitundar sinnar eða samþykkis í ríkiskirkjuna. Sama gildir svo auðvitað um afkomendur þessa fólks. Hugsanlega ert þú í þessum hópi.
Það er ekki ljóst hve mikið ríkiskirkjan græddi á þessari auglýsingu, en upphæðin gæti verið talin hundruðum milljóna eða milljörðum króna.
Árið 1992 kvartaði formaður Fríkirkjunnar í Reykjavík kvartaði undan afleiðingum þessarar reglugerðar. Pétur Pétursson, prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands, steig fram og varði þetta ótrúlega brot á fríkirkjunum, í Morgunblaðinu 13. maí 1992:
Ekki er óeðlilegt að ætla að þeir sem flytja í aðra landshluta eigi erfitt með að njóta þjónustu fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík og þá var eðlilegt að vísa því fólki til safnaðar á staðnum sömu kirkjudeildar. Því hefði formaður Fríkirkjusafnaðarins átt að fagna að svo miklu leyti sem hann telur sig til sömu kirkjudeildar og þjóðkirkjan. Að fólk var áfram skráð í þjóðkirkjunni með gæsalöppum þegar það fluttist aftur (úr útlegðinni!) inn á svæðið er að vísu handvömm, og ég tek undir það, en ef safnaðarvitundin er svo öfiug sem formaðurinn segir þá hefði verið lítið mál að kippa því í lag í stað þess að ala sína hjörð upp í safnaðarvitund er formaðurinn með skæting út í sóknaskiptingu þjóðkirkjunnar og talar í þessu sambandi um „hömlur á trúfrelsi manna og trúfélagafrelsi almennt", sem auðvitað er allt annar handleggur. Greinarhöfundur lætur eins og hann viti ekki af því að þessi sóknaskipting er fyrst og fremst hagræðingaratriði, spurning um aðgengi en hvorki kvöð né band. Ég bendi á að lög um leysingu sóknarbands, þ.e.a.s. þeirrar kvaðar gagnvart sóknarfólki að sækja aðeins prestþjónustu til eins ákveðins prests, voru sett af Alþingi árið 1880. Fríkirkjufólki ætti að vera það fagnaðarefni þegar Hagstofan telur það sjálfsagt mál að þjóðkirkjupresturinn á Höfn í Hornafirði veiti fríkirkjumanni á Höfn í Hornafírði prestlega þjónustu á meðan fríkirkjumaðurinn er búsettur þar. Mér finnst þetta fyrirkomulag í anda víðsýni, frjálslyndis og hagræðis en ekki bera vott um skort á trúfrelsi. Hagstofan var sem sagt með sína trúfræði á hreinu í þessu dæmi.
Við hvetjum ykkur til að sýna sanna “safnaðarvitund” og skrá ykkur úr ríkiskirkjunni.
Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.
Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.