Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er Rael-ismi realismi?

Vitræn hönnun guðleysingja eða vitfirring guðleysingja?

Sjá ég boða yður mikinn fögnuð. Frelsari mannkyns er ekki aðeins fæddur, heldur er hann sprækur og býður hverjum sem er að slást í hóp hans. Þessi frelsari kemur ekki til að boða, heldur til að fræða. Hann er arftaki Búdda, Móses, Jesú og Múhameðs. Allir fengu þessir spámenn víst boðskap frá (sömu) sköpurum mannkyns. Í Biblíunni eru þeir kallaðir Elohim (eintala: Eloha... Allah), þeir sem koma af himnum. Þessi síðasti spámaður heitir Rael og fæddist í Frakklandi 1946 (og túlkunin á orðinu Elohim er fengin frá honum).

Ég hafði aldrei heyrt á þennan merka mann minnst, svo furðulegt sem það má kallast nú á upplýsingaöld og í ljósi þess að hann er nágranni okkar. En boðskapur hans er sá að enginn guð sé til, aðeins mennskar verur á öðrum hnöttum. Þessar verur, geimverur, komust á sama stig og við erum að nálgast nú, fyrir löngu. Þeir fóru að gera tilraunir með sköpun lífs og lífvera og ákváðu að gera jörðina að tilraunastofu sinni.

Þetta stef er ekki nýtt. Í gegnum tíðina hafa menn alltaf litið til himna og varpað hugmyndum sínum um uppruna okkar þangað, til guðanna á himnum. Þegar geimöld gekk í garð leið ekki á löngu þar til menn sáu að auðvitað höfðu guðirnir komið hingað í geimförum. Þannig má líta á öll trúarbrögð mannsins sem farmkölt (cargo cults).

Menn geta skoðað heimasíðu Rael-hreyfingarinnar til að fræðast meira um þessi undur, en hún er nú starfandi um allan heim og meðlimir safnaðarins um 60.000 talsins.

Upphaf hreyfingarinnar má rekja til 13. desember 1973 þegar franskur blaðamaður ók einhverra hluta að gíg í miðju Frakklandi og þar birtist honum fljúgandi diskur. Út úr disknum steig lágvaxin mannvera og sagði blaðamanninum, sem síðan heitir Rael, að hann ætti að færa jarðarbúum boðskapinn og reisa sendiráð til að taka á móti sköpurum lífsins aftur til jarðar. Vera þessi sagði:

Við hönnuðum allt líf á jörðinni. Þið hélduð að við værum guðir. Rætur helstu trúarbragða ykkar liggja hjá okkur. Nú þegar þið eruð nógu þroskuð til að skilja þetta viljum við koma á fót formlegu sambandi við ykkur.

Rael hafnar algjörlega guði, sál og heilögum anda. Hann er guðleysingi sem trúir einarðlega á vitræna hönnun mannvera. Hann er skynsemishyggjumaður (og realisti?) sem trúir ekki bara á tilvist fljúgandi furðuhluta, geimskipa hér á jörðu, heldur hefur hann ferðast með einu slíku til annarra hnatta. Þegar maður les þetta hlýtur maður að spyrja hvort manninum sé alvara. Og spurnin verður enn stærri þegar maður sér að þessi Rael virðist hafa tekið Riff Raff í Rocky Horror Picture Show sér til fyrirmyndar í ímyndasmíð. En svarið er játandi.

En hver skapaði þá Elohim? Af hverju þurfa þeir sendiráð? Af hverju sýna þeir sig bara ekki til að styðja málstað Raels? Og af hverju ætti nokkur að trúa því sem Rael segir? Þessum spurningum er auðsvarað á FAQ-síðu samtakanna.

Boðskapur Raels eða Elohimanna er kunnuglegur. Við eigum að lifa í sátt og samlyndi, njóta lífsins og huga að andlegum verðmætum. Við getum tortímt okkur ef við viljum og fram heldur sem horfir en ef við snúum frá villu okkar vega er framtíðin glæst.

Ég ætla ekki að halda lengra í útlistunum á boðskap Raels en samtökin mega eiga að hægt er að nálgast fræðsluefnið, bækur Raels, ókeypis á netinu. Margt í boðskap hans virðist ágætt út af fyrir sig og gagnrýni hans á trúarbrögðin fellur vel að hugmyndum (annarra) guðleysingja um heiminn. Annað kemur manni afar furðulega fyrir sjónir, eins og að frumeindirnar séu ekki bara gerðar úr smærri eindum (kvörkum) heldur séu heilu alheimarnir (með stjörnuþokum, sólkerfum, plánetum og lífverum) í þessum eindum, og alheimur okkar aðeins agnarsmá eind í enn stærri alheimi.

Ef einhver frelsast til Rael-isma eftir að kynna sér þennan gúrú frekar væri gaman að fá að heyra meira um heimssýn hans og geimforeldra okkar. Bon voyage!

Reynir Harðarson 01.02.2009
Flokkað undir: ( Nýtrúarhreyfing )

Viðbrögð


Þundur Freyr - 01/02/09 14:19 #

Ekki gleyma aðal atriðinu! Fullt, fullt af frjálsu kynlífi


sigurlaugur - 13/02/09 21:30 #

Matti ég vissi að Rael dæmið sem ég var að henda út um allt myndi enda hér hjá þér...

http://www.jpost.com/servlet/Satellite?apage=2&cid=1233050207532&pagename=JPost%2FJPArticle%2FShowFull


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/02/09 06:10 #

Sigurlaugur, Matti er alsaklaus af þessari grein. Hún var skrifuð 16. janúar, áður en greinin birtist sem þú vísar í. Ég rakst á þetta án þess að nokkur hefði bent mér á það.

Ef þetta sýnir ekki og sannar mátt Elohim, veit ég ekki hvað :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.