Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skeyti frá kaþólsku landi

Nú þegar kaþólsk vika stendur yfir hér á Vantrú fannst mér ekki annað verjandi en að setja eitthvað á blað (skjá?) þar sem ég er víst eini Vantrúarseggurinn sem búsettur er í kaþólsku landi. Ég bý semsagt núverið í Mexíkó og líkar vel þrátt fyrir að kaþólska kirkjan og aðrar skyldar stofnanir guðs séu hér afar fyrirferðarmiklar. Margt hér í landi kemur Íslendingi, sem alinn er upp í síðkristnu lúthersku samfélagi, sérkennilega fyrir sjónir.

Svo örfá dæmi séu nefnd þá er reglulega haldinn hér hátíðlegur dagur einhvers dýrlingsins. Þá má sjá margt fólk á götum úti rogast með stærðarinnar líkneski af þeim dýrling og allar kirkjur eru að sjálfsögðu yfirfullar á slíkum dögum. Þjóðardýrlingur Mexíkó er María mey frá Guadalupe og á hátíðisdegi hennar 12. desember á sér stað einhver sú fjölmennasta pílagrímsferð í hinum kristna heimi. Talið er að undanfarin ár hafi yfir fimm milljónir manna farið og sótt heim basilíku hennar hér í Mexíkóborg á þessum degi. Fyrir okkur trúlitla þýðir það einfaldlega umferðarteppu út í eitt, ég reyni að halda mig heima á þessum degi.

Síðan ég fluttist hingað hefur staða kirkjunnar hér í landi fyrr og nú verið mér umhugsunarefni. Þetta svæði er ríkt af fornum minjum horfinna samfélaga og hugurinn hvarflar oft ósjálfrátt aftur í tímann, til daga Aztekanna og veldi þeirra sem var lagt í rúst á skömmum tíma af spænskum landvinningamönnum á 16. öld. Aztekarnir höfðu sína eigin menningu og sín trúarbrögð sem voru upprætt með öllu og kaþólskunni var hér plantað í staðinn. Ekki verður hjá því komist að velta örlítið fyrir sér tengslunum á milli kúgunar yfirstéttanna hér áður fyrr og trúarbragða.

Aztekarnir beittu sínum trúarbrögðum óspart til að kúga granna sína. Þegnar ríkis þeirra voru hræddir til fylgislags við guðina af valdastéttunum því það fyrirkomulag hentaði þeim ágætlega. Prestarnir og aðalsfólkið voru svo í sérstöku sambandi við þessi æðri máttarvöld og því var nú eins gott að hlýða þeim.

Hernán Cortez hét maðurinn sem braut á bak aftur veldi Aztekanna og stofnaði Nýja-Spán á þessu svæði. Þegar hann mætti á svæðið 1519 var það forgangsverkefni hjá honum að eyða þessari heiðnu guðadýrkun og koma kaþólskunni inn í staðinn. Þannig var jú hægt að halda íbúum svæðisins í skefjum og koma þeim undir nýtt guðlegt vald, Spánarkonung. Aðferðirnar sem Cortez og félagar notuðu til þess voru vægast sagt róttækar.

Sem dæmi má nefna bæinn Cholula sem var einn helgistaða Aztekanna. Þar höfðu verið reistir 365 pýramídar, sá stærsti þeirra mun vera sá stærsti í heimi að rúmmáli. Cortez kom þar við á leið sinni til til höfuðborgar Aztekanna, Tenochtitlan, en Cholula er ekki þar langt frá. Skömmu eftir komuna þangað efndi hann til veislu þar sem yfirstéttinni og prestunum var sérstaklega boðið. Lítið varð þó úr þessum mannfögnuði þar sem Spánverjarnir sýndu af sér dæmalausa ókurteisi og gengu á milli bols og höfuðs á öllum gestum sínum. Síðar setti Cortez sér það markmið að byggja 365 kirkjur á þessum stað, kannski að hluta til vegna slæmrar samvisku sinnar. Ekki tókst það alveg en samt sem áður er ógrynnin öll af kirkjum á þessum stað í dag. Tölur eru misvísandi en líklega er fjöldi kirkja þar í kringum 70.

Eftir að sigur hafði verið unnin á Aztekunum og höfuðborg þeirra hertekin var umsvifalaust farið út í að brjóta niður musteri og pýramída fyrri tíma og spænskar byggingar og kirkjur risu í staðinn. Stundum voru kirkjur reistar úr efni sem fengið var úr hinum niðurrifnu pýramídum, því er hægt að segja að kristnin hafi bókstaflega risið úr rústum eldri trúarbragða hér í borg.

Þjóðardýrlingurinn Guadalupe er einmitt gott dæmi um endurvinnslu trúarbragðanna. Í eldri trú Aztekanna naut móðurgyðjan Tonantzin mikilla vinsælda meðal alþýðunnar. Eftir að hof hennar höfðu verið rifin niður vildi svo heppilega til að heil. Juan Diego Cuauhtlatoatzin, frumbyggi sem hafði verið snúið til kristinnar trúar, rakst á Guadalupe árið 1531 á stað sem kallast Tepeyac. Talið er að á þeim stað hafi Tonantzin átt sér hof og því hentaði það ágætlega að finna þarna nýja kristilega móðurgyðju fyrir alþýðuna að tilbiðja.

Oft heyrist sú skoðun að tilgangurinn helgaði meðalið hjá spænsku landnemunum, eldri trúarbrögð Aztekanna hafi verið grimmúðleg með mannfórnum og öðrum ófögnuði. Rétt er að hafa í huga varðandi þetta atriði að mikið af þekkingu okkar á þessum trúarbrögðum koma frá sigurvegurum landvinningastríðs. Er ekki sagan alltaf skrifuð af sigurvegurunum? Yfirtaka kristninnar kostaði einnig fjöldamörg mannslíf, Aztekarnir hefðu þurft að hafa sig alla við til að ná þvílíkum afköstum í mannfórnum.

Stundum heyrist úr horni kristinna trúvarnarmanna að þessir Spánverjar sem fóru svona illa að ráði sínu í Ameríku hafi ekki verið “sannkristnir”. Nú á dögum þegar leitast er við að meta hversu margir Íslendingar teljast kristnir er yfirleitt einfaldlega miðað við þá einföldu spurningu hvort viðkomandi telji sig vera þessarar trúar. Ég er sannfærður um ef þessi spurning hefði verið borin upp við þá menn sem lögðu undir sig þennan heimshluta þá teldu þeir eflaust vera grófa móðgun við sig að spyrja svona. Ekkert kom til greina á þessum árum nema að vera kaþólskur stríðsmaður guðs og kóngs.

Nú á dögum virðist sem að kaþólsk trú, sem og önnur trúarbrögð, séu á hægu undanhaldi hér í Mexíkó, samfara aukinni menntun og batnandi velmegun. Líkt og svo oft þá eru það aðallega eldri kynslóðir sem halda fast í sína barnatrú, yngri kynslóðin er minna fyrir gamlar kreddur. Framtíðin virðist því vera björt og upplýst hér í landi sem og reyndar víðar í heiminum.

Lárus Viðar 14.03.2008
Flokkað undir: ( Kaþólskan )

Viðbrögð


Örninn - 14/03/08 12:52 #

Veit samt ekki betur en menntamálaráðherra okkar Íslendinga segist vera stoltur af því að tilheyra þessum söfnuði. Því er ég efins að framtíðin sé ekki eins björt og menn óska.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 14/03/08 22:23 #

Gaman að lesa þetta og fá innsýn í kaþólska menningu. En ég er bjartsýnn eins og Lárus Viðar, skynsemin sigrar að lokum!


Anna Benkovic Mikaelsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 15/03/08 00:48 #

sorry Binni minn, elskulegi, en kaþólskan, eins og ég hef verið alin upp, berst á móti skynsemi!


Anna Benkovic Mikaelsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 15/03/08 00:52 #

Vil endilega bæta við...vegna þess að það tók mig 3 ár í heimspekinámi í HÍ að átta mig á fáránleika kaþólskunnar (og aumkunarverðum draugi hennar...Lutherskunnar)...þá hef ég alltaf talið og tel enn kaþólskuna til betri trúarblekkingar (vegna listaverlkanna) heldur en staurgeld Lútherslan.!...og held að menntamálaráðherra telji svo einnig?...hún er og gáfuð til að trúa á súperman!!


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 15/03/08 03:46 #

Er það vottur um gáfur?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.