Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Frelsarinn John Frum

Fimmtándi febrúar er haldinn hátíðlegur á eynni Tanna í Vanuatu (áður Nýju Suðureyjar eða New Hebrides) í S-Kyrrahafi og kenndur við frelsara eyjarskeggja John Frum. Söfnuðurinn er einn af mörgum farm-sértrúarsöfnuðum (cargo cults) sem spruttu upp á Kyrrahafseyjum og eiga sér merkilega en stutta sögu.

Mannfræðingar hafa skráð tvö tilvik í Nýju Kaledóníu, fjögur á Salómon-eyjum, fjögur á Fiji-eyjum, sjö í Nýju Suðureyjum og rúmlega fimmtíu í Nýju Gíneu. Flest eru þau alveg óháð og ótengd öðrum tilfellum. Í meirihluta þessara trúarbragða er því haldið fram að ákveðinn frelsari komi með farminn við lok veraldar.

Eyjaskeggjar urðu steini lostnir þegar þeir sáu dásemdir þær sem hvíti maðurinn hafði með sér. En hann sást aldrei búa til þá dýrlegu muni sem hann átti, eða lagfæra þá, heldur barst hann sem farmur í skipum og síðar með eða úr flugvélum. Hvítu mennirnir stunduðu hins vegar undarlega siði eins og að fletta blöðum við skrifborð.

Þeir reisa há möstur með áföstum vírum, svo sitja þeir og hlusta á litla kassa sem glóa í myrkrinu og gefa frá sér undarleg hljóð og kæfðar raddir. Þeir fá innfædda til að klæðast samskonar fötum og láta þá marsera fram og aftur – og varla er hægt að hugsa sér fánýtari iðju en það. Og þá áttar sá innfæddi sig á að hann hefur rambað á lausn ráðgátunnar. Þessar óskiljanlegu gerðir eru trúarathafnir hvíta mannsins sem ætlað er að fá guðina til að senda farminn. Ef innfæddir vilja farminn verða þeir að tileinka sér þetta.

Tanna-menn halda upp á dag Johns Frums og líkja eftir trúarathöfnum hvíta mannsins

Á Tanna er frelsari safnaðarins John Frum, en þótt átrúnaðar á hann sé getið í opinberum skjölum allt frá 1940 er ekki hægt að staðfesta að hann hafi verið til. Honum er lýst sem lágvöxnum manni með skræka rödd og aflitað hár, klæddum í frakka með skínandi hnappa. Hann sagði eyjarskeggjum að halda fast í siði sína og venjur og hunsa kristniboðana, sem voru mikil plága á þessum eyjum. Jafnframt spáði hann fyrir um heimsendi og sagði að þegar fjölling jöfnuðust við jörðu og dalirnir fylltust sneri hann aftur og þá með gnægð mikla af farmi öllum til handa.

Sú saga varð til að John Frum væri konungur Ameríku og um svipað leyti komu bandarískar hersveitir til Vanuatu. Á meðal þeirra voru svertingjar sem voru ekki jafnfátækir og eyjarskeggjar heldur

voru þeir jafnauðugir af farmi og hvítu hermennirnir. Mikil gleði braust út á Tanna. Heimsendir var í nánd. Svo virtist sem allir væru að búa sig undir komu Johns Frums. Einn leiðtoginn sagði að John Frum kæmi frá Ameríku með flugvél og hundruðir mann hófu að ryðja skóg á eyjunni miðri svo vélin gæti lent.

Innfæddir reistu flugturn úr bambusreir og komu eftirlíkingum af flugvélum fyrir á flugbrautinni til að lokka vél Johns Frums til jarðar. Í turninum voru flugumferðarstjórar með heyrnartól tálguð úr viði. Á Tanna bíða menn enn eftir frelsara sínum, konungnum, líkt og víðar. Hann kemur víst 15. febrúar, kannski í dag.

Farm-trúarbrögðin í skoplegu ljósi


Tilvitnanir eru úr bók Davids Attenboroughs um þessa söfnuði, Quest in Paradise
Myndband: Nýr spámaður er risinn upp gegn John, hann heitir Fred

Reynir Harðarson 15.02.2008
Flokkað undir: ( Nýtrúarhreyfing )

Viðbrögð


Svenni - 15/02/08 08:05 #

Fólk með afbakaðar hugmyndir úr fortíðinni að bíða eftir einhverju sem aldrei kemur.

Hljómar kunnuglega.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 15/02/08 21:32 #

Ég veit ekki hvort þessi John Frum söfnuður sé meira krúttlegur eða sorglegur.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/02/08 12:53 #

Ég sé nú að Jón Steinar Ragnarsson bloggaði ágætlega um þetta fyrirbæri í janúarlok og þar varð nokkur umræða í kjölfarið.

Nánar er fjallað um þetta í bókinni God delusion í kaflanum um Rætur trúarbragðanna (5. kafli).


Finnur - 18/02/08 06:18 #

Það er auðvelt að dæma eyjaskeggja sem fáfróða eða jafnvel sorglega, út frá þessari bráðfyndu sögu.

En hérna er skemmtileg staðreynd um Vanúatú. Þessi fátæki eyjaklasi er öfund okkar vesturlandabúa, þrátt fyrir allan okkar munað.

(Mátti til með að bæta þessu við þrátt fyrir að vera í banni)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.