Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hemant Mehta seldi sál sína á eBay

Hemant Mehta, I Sold My Soul on eBay – Viewing Faith Through an Atheist’s Eyes

isoldmysoul.jpg

Hemant Mehta er ungur Bandaríkjamaður af suður-asísku bergi brotinn. Hann er uppalinn í trú þeirri sem jainismi nefnist (leitið eftir frekari fróðleik á Wikipedia.org) og gerðist ungur trúlaus. Eftir margra ára líf sem trúleysingi, fyrst í grunnskóla, svo menntaskóla og loks í háskóla, stofnaði hann samtökin SWORD – Students WithOut Religious Dogma. Hann kom til Íslands í fyrra og flutti fyrirlestur á ráðstefnunni „Jákvæðar raddir trúleysis“ sem Siðmennt, Vantrú og Skeptíkus héldu.

Hemant sagði okkur frá því þegar hann varð frægur, því sem næst á einni nóttu.

Uppruna síns vegna fannst honum hann nefnilega vanta upp á þekkingu á kristindómi. Þannig að hvað gerði hann? Jú, hann bauð sál sína upp á uppboðsvefnum eBay, og hlaut athygli fyrir um gervöll Bandaríkin. Í uppboðinu fólst að sá sem ynni, mætti ráðstafa tíma hans: Fyrir hverja tíu dali mundi Mehta vera við guðsþjónustu að vali kaupandans, í klukkustund eða lengur. Afraksturinn mundi renna óskiptur til samtaka trúleysingja. Geysimargir fylgdust með af athygli, en vinningin hafði Jim nokkur Henderson, með 504 dollara fyrir sálina. Hann er prestur í frjálslyndri kirkju. Í stað þess að kalla Mehta í sína eigin kirkju í heilt ár, sem Henderson hefði getað gert, sagði hann honum að taka fyrir 15 kirkjur að eigin vali, vera við guðsþjónustu þar og skrifa svo um guðsþjónusturnar á heimasíðu safnaðar síns.

Árangurinn má lesa um í bókinni.

Stíll Hemants Mehta ber þess glöggan vott, að hann er vanur netinu, bloggar og hefur tamið sér léttan ritstíl, ekki óskyldan bloggi. Fyrir vikið að málfarið létt og bókin frekar fljótlesin (hún er 210 tölusettar síður). Stíllinn ber líka merki um að Mehta er vanur ræðumaður og kann vel að skrifa, þannig að uppbyggingin er skipuleg og markviss. Hvort tveggja passar vel við bók af þessu tagi, bók um reynsluna af fimmtán mismunandi messum í jafnmörgum mismunandi kirkjum, og um hvernig það er að vera trúleysingi. Honum fer þetta semsé vel úr hendi.

Ég veit ekki hvort rétt er að telja það galla, eða hvort það var einfaldlega umfjöllunarsvið bókarinnar, en hann skrifar ekki ýkja mikið um guðfræðilegt innihald í messunum. Hann imprar á afstöðu predikara til samkynhneigðra og frelsis fóstureyðinga þegar hún er afturhaldssöm, og eins ræðir hann stundum túlkun þeirra á ritningunni í samhengi við félagslegar aðstæður samtímans. Hvort tveggja segir sitt, og mér finnst vera vöntun á dýpri umfjöllun, sem mundi segja meira um viðkomandi kirkjur eða kirkjudeildir. En sem ég segi, kannski var það einfaldlega ekki það sem hann lagði upp með að fjalla um.

Tiltæki Hemants var auðvitað ekki fyllilega frjálst; hann var jú bundinn af samningi við prestinn Jim Henderson. Hann leggur því upp með nálgun sem mér, fyrir mitt leyti, finnst öðrum þræði hlýleg og öðrum þræði, tja, allt að því ógnvekjandi. Það hlýlega er að hann kemur fram sem sá vingjarnlegi trúleysingi sem hann vissulega er – þægilegur í viðmóti, vel að sér og vill náunganum vel. Það „ógnvekjandi“ er að í messurýni sinni er hann strangheiðarlegur í viðleitni sinni til þess að segja kirkjunni hvað virkar og hvað virkar ekki. Það er að segja, hvað gæti fengið ungan, vel menntaðan og ritfæran trúleysingja, sem auk þess er leiðandi í félagsstarfi, til þess að gangast kristinni trú á hönd. Í stuttu máli, þá finnst honum það virka vel þegar predikarinn er góður ræðumaður, þegar umgjörðin er látlaus og þegar viðkomandi kirkja lætur gott af sér leiða í samfélaginu í kring um sig.

Tekið skal fram að þegar ég segi „ógnvekjandi“, þá meina ég að mér sem trúleysingja finnst það ógnvekjandi að gefa kirkjunni góð ráð (sem aftur viðurkennist, að ég hef sjálfur gert (1, 2, 3), en aftur á móti finnst mér, sem félagshyggjumanni, sýn hans vera viturleg – semsagt að kirkjan eigi að vera gagnleg og skemmtileg, án þess að vera tilgerðarleg eða spillt.

Eins og eðlilegt er í bók af þessu tagi, fjallar Mehta ítarlega um sín eigin lífsviðhorf, trúleysið. Lýsing sú er fróðleg, líka fyrir þá sem aðhyllast trúleysi sjálfir. Kemur það m.a. til af því að uppruni hans er annar en flestra lesenda.

Það segir sitt um samhengi bókarinnar, að það er kristilega forlagið WaterBrook Press sem gefur hana út. Það breytir auðvitað engu um bókina sem slíka, og ég leyfi mér að hvetja áhugasama til að kaupa sér þessa bók.

Heimasíða Hemants Mehta

Vésteinn Valgarðsson 03.01.2008
Flokkað undir: ( Bókaskápur efahyggjunnar )