Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Síðustu forvöð að breyta trúfélagaskráningu

Þann 1. desember næstkomandi munu tölvur Þjóðskrár fara yfir trúfélagaskráningu allra Íslendinga. Niðurstaðan verður notuð til að ákveða hvernig sóknargjöldum landans verður úthlutað á næsta ári.

Ef þú eða einhver þér nákominn hefur íhugað að leiðrétta skráninguna eru einungis fjórir dagar til stefnu. Eftir mánaðarmótin er heilt ár þar til breyting á skráningu skilar sér gegnum kerfið.

Vantrú hvetur fólk til að leiðrétta skráningu sína fyrir mánaðarmót. Eins viljum við benda fólki á að staðfesta að skráning þess sé rétt, því eins og nýleg dæmi sína er fullt af fólki skráð í Þjóðkirkjuna án þess að hafa hugmynd um það.

Það er lítið mál að breyta skráningunni. Einungis þarf að fylla út eyðublað sem hægt er að sækja á heimasíðu Þjóðskrár og senda til þeirra með faxi. Meira um það hér

Af þessu tilefni mun Vantrú bjóða upp á heimsendingarþjónustu á höfuðborgarsvæðinu næstu þrjá daga. Við getum komið með eyðublað, aðstoðað við að fylla það út og skilað blaðinu til Þjóðskrár fyrir mánaðarmót. Vinsamlegast sendið okkur tölvupóst á póstfangið vantru@vantru.is þar sem fram kemur heimilisfang, símanúmer og sú tímasetning sem hentar ykkur. Athugið að uppgefið póstfang verður að vera auðkennandi og munum við senda staðfestingarpóst um leið og beiðni berst. Ef þið búið á landsbyggðinni, sendið okkur póst og við munum láta ykkur vita ef við getum hjálpað.

Ekki er nauðsynlegt að skrá sig úr Þjóðkirkjunni til að njóta aðstoðar Vantrúar. Markmið okkar er að trúfélagaskráning gefi rétta mynd af lífsskoðunum þjóðarinnar og við munum því einnig aðstoða fólk sem vill skrá sig í annað trúfélag, jafnvel Þjóðkirkjuna.

Ritstjórn 27.11.2006
Flokkað undir: ()

Viðbrögð


Dvergurinn - 27/11/06 15:33 #

Er víst að þið getið skilað þessu inn fyrir fólk?

Ég var í það minnsta beðinn um skilríki þegar ég trítlaði niður eftir um daginn með mitt eyðublað.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/11/06 15:35 #

Já. Ég var einnig beðinn um skilríki síðast þegar ég fór - en þegar ég útskýrði að ég væri ekki að skila fyrir mig var tekið við bunkanum.

Enda spyr enginn um skilríki þegar þú sendir eyðublaðið með faxi :-)


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 27/11/06 15:44 #

En heimskulegt og tilgangslaust.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 27/11/06 15:56 #

Ásgeir, ertu þá að tala um greinina eða um þitt eigið komment? :-/


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 27/11/06 15:58 #

Hvorugt. Ég var reyndar að tala um þetta:

Já. Ég var einnig beðinn um skilríki síðast þegar ég fór - en þegar ég útskýrði að ég væri ekki að skila fyrir mig var tekið við bunkanum.


Dvergurinn - 27/11/06 16:37 #

Já, það má heita furðulegt að þurfa að sýna skilríki þegar eins er hægt senda þetta með faxi. Ef þetta er gert til að koma í veg fyrir að fólk sé skráð í og úr trúfélögum að þeim forspurðum gerir þetta í það minnsta lítið gagn.

Annars er þetta lofsvert framtak hjá ykkur Vantrúarseggjum.


Guðmundur Jónsson - 27/11/06 22:47 #

Ég efast um að fax, bréf eða tölvupóstur sé tekið gilt. Það væri gagnlegt að þið kynntuð ykkur hvernig reglurnar eru nákvæmlega og kæmuð því á framfæri hér.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/11/06 22:52 #

Fax og bréf eru tekin gild Guðmundur, það er sérstaklega tekið fram á eyðublaðasíðu Þjóðskrár. Að sjálfsögðu erum við búin að kynna okkur reglurnar.


Japaninn - 28/11/06 17:52 #

Já, þetta er fínt tiltæki hjá ykkur strákar. Þetta er lofsvert upplýsingarframtak.


Svanur Sigurbjörnsson - 29/11/06 13:41 #

Fimm manneskjur sem ég þekki vel hafa skráð sig úr Þjóðkirkjunni á undanförnum dögum. Það kæmi mér ekki mikið á óvart ef prósenta Þjóðkirkjunnar væri komin niður í 80% við næstu talningu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.