Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hinn magnaði herra Zwinge

Í ágúst árið 1950 birtust fréttir í Toronto Evening Star um ungan mann sem virtist hafa yfirnáttúrulega hæfileika. Hann hélt þessu líka fram. Hann sagðist vera forspár og einnig gæti hann lesið hugsanir. Þessi 22 ára Kanadamaður var Randall Zwinge.

Viku áður en hafnaboltaleiktíðin hófst veturinn 1949-50 voru spár herra Zwinge innsiglaðar í umslagi. Umslagið var síðan geymt í peningaskáp á lögmannsskrifstofu þar til daginn eftir að síðasti leikurinn í keppninni hafði farið fram. Þegar umslagið var opnað komu í ljós lokaúrslit síðasta leiksins og þar með hverjir hefðu sigrað keppnina. Til þess að leggja áherslu á hve stórkostlegur árangur þetta var hjá Randall Zwinge skal það tekið fram að hann var ekki viðstaddur þegar umslagið var opnað. Næsta bragð herra Zwinge var að spá rétt fyrir um það hve margir myndu mæta á sýningu sem var haldin í Toronto.

Það var ekki bara forspáin sem heillaði blaðamanninn. Randall Zwinge sýndi að hann gæti lesið hugsanir. Hann lagði þrjár sígarettur á borðið fyrir blaðamanninn og sagði honum að velja eina. Þegar blaðamaðurinn hafði valið þá fékk hann að sjá blað þar sem réttilega var spáð fyrir um hvaða sígarettu hann hefði valið. Herra Zwinge bað blaðamanninn að velja sér orð úr dagblaði. Blaðamaðurinn valdi orð og eftir smá umstang þá var honum sagt hvaða orð hann hefði valið. Næst var blaðamanninum sagt að hugsa sér tölu og var strax sagt að hann væri að hugsa um töluna 12, það var rétt.

En herra Zwinge var ekki skyggn, hann gat ekki lesið hugsanir, hann var ekki forspár, hann var bragðarefur. Hvernig vitum við það fyrir víst? Af því að hann játaði það. Eftir stuttan feril sem miðill ákvað herra Zwinge að snúa við blaðinu og gerast "heiðarlegur svikahrappur". Hann hafði ekki geð í sér að blekkja fólk og gerðist töframaður. Herra Zwinge tók upp sviðsnafnið James "The Amazing" Randi og ætti að vera lesendum okkar góðkunnur. Ef Randall Zwinge hefði kosið að feta áfram sömu braut þá hefði hann getað orðið frægari en einfaldan töframann gæti dreymt um, en hann hafði það bara ekki í sér. Þegar James Randi fletti ofan af Uri Geller í bókinni The Truth About Uri Geller þá lét hann úrklippurnar úr Toronto Evening Star fylgja með í viðaukanum til áhersluauka.

Fjöldinn allur af töframönnum geta framkvæmt brögðin sem félagarnir Uri Geller og Sai Baba hafa notað til að ná hylli almennings. Þetta er bara spurning um að skilja hver siðferðilegi munurinn er á að leika ofurmenni á sviði og að þykjast vera ofurmenni í raunveruleikanum.

Óli Gneisti Sóleyjarson 06.10.2005
Flokkað undir: ()

Viðbrögð


Finnur - 06/10/05 14:28 #

Ég veit nú ekki hvaða skilning þú leggur í það að Randi hafi flett ofanaf Uri Geller, samkvæmt wikpediu þá náði Randi og Uri Geller samkomulagi utan réttar eftir að hafa safnað upp óheyrilegum fjárhæðum í lögmannakostnað vegna deilna þeirra. Hefurðu aðrar upplýsingar um þessa afhjúpun en þessa bók sem olli þessum deilum?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 06/10/05 14:44 #

Ég mun skrifa grein um bókina sjálfa bráðum og þar með deilur Randi og Gellar (og því kannski fínt að bíða með fleiri komment um Geller þar til þá).

Geller hefur ítrekað notað þá taktík að fara í mál við fólk til þess að koma í veg fyrir að það bendi á brögðin hans. Það var gert gegn CSICOP og Randi. Málaferlin kosta svo gríðarlega fjármuni að það getur sett fólk á hausinn. Samkomulag Randi og Gellers hefur ekki verið gert opinbert og enginn veit hvor bakkaði. Það er hins vegar ljóst að Randi er ennþá óhræddur við að benda á brellurnar hans Uri sem gefur til kynna að hann sé ekki hræddur við hann.

[Breytti eigin athugasemd því fyrsta útgáfa hennar var kolvitlaus].


Finnur - 07/10/05 00:37 #

Það er allavega umdeilanlegt hvort Randi hafi tekist að fletta ofan af Uri Geller, í þeim skilningi að hafa sýnt fram á að hann sé svikahrappur.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 07/10/05 00:43 #

Það er óumdeilt að Geller hefur ítrekað notað venjuleg töfrabrögð og það er þar að auki óumdeilt að töframenn geta leikið eftir allt sem Geller hefur gert. En eins og ég segi þá mæli ég með því að bíða með Geller umræðuna þar til ég skrifa um hann, það verður væntanlega í næstu viku.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 07/10/05 19:50 #

Það sjá allir að Uri Geller er bara að nota töfrabrögð. Eða vonandi allir, Finnur, ekki trúir þú því virkilega að Uri hafi einhverja krafta?


Ólafur S - 09/10/05 22:03 #

Ég þekki ekki mikið til Randi en hér er slóð á video þar sem hann segir m.a. frá Uri Geller:

http://true.wxcs.com/multimedia/video/James.Randi.debunking.on.Tonight.Show.wmv


Finnur - 11/10/05 07:20 #

Ég hef nú ekki myndað mér neina skoðun um Uri Geller aðra en þá að hann er snjall í sínu fagi. Ég var rétt að benda á ekki er uppúr kveðið í deilum hans og Randi.
En svona til fróðleiks þá uppgötvaði ég að einn af þeim sérfræðingum sem hafa rannsakað Sai Baba er Prófessor Erlendur Haraldsson.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/10/05 08:00 #

Finnur, þetta vitum við öll.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 11/10/05 11:09 #

Bókin á náttborðinu mínu, ein af mörgum reyndar, er Modern Miracles eftir Erlend Haraldsson. Ég sé ekki betur en að Erlendur sé afskaplega naívur í mati sínu á Sai Baba. Sai Baba neitaði líka ítrekað að vera rannsakaður í stjórnuðu umhverfi og Erlendur lét hann komast upp með það. Það eru til afar skemmtilegar upptökur af Sai Baba þar sem hann er greinilega að nota afar jarðneskar aðferðir við að "töfra" fram armband.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.