Skeptíkus sýnir heimildarþáttinn Secrets of the Psychics fimmtudaginn 7. apríl klukkan 20:00 í stofu 132 í Öskju (náttúrufræðihús Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni).
Í Secrets of the Psychics fylgjumst við með sjónhverfingamanninum James Randi fjalla um miðla, stjörnuspeki, kraftaverkalækningar og ísraelska skeiðabeygjarann Uri Geller. Eru brögð í tafli? Hvort sem þú trúir á yfirnáttúrulega hæfileika miðla eður ei þá mun þátturinn skemmta þér og fræða.
Randi fer víða í þættinum. Hann reynir að svara því hvers vegna stjörnuspár geta verið ótrúlega nákvæmar. Randi kannar fullyrðingar rússneskra vísindamanna sem höfðu meðal annars rannsakað hugsanalestur á tímum Sovétríkjanna. Einnig rannsakar Randi hvernig kraftaverkapredikari gat vitað ótrúlegustu hluti um þá sem leituðu lækninga hjá honum. Þar að auki framkvæmir hann skurðaðgerð með berum höndum (eins og sást í myndinni Man on the Moon). Síðast en ekki síst þá sjáum við brot úr frægri heimsókn Uri Geller í þátt Johnny Carson.
Það má með sanni segja að þessi sýning sé hápunkturinn á starfi Skeptíkusar í vetur. Við hvetjum sem flesta til að mæta enda er aðgangur ókeypis og öllum heimill. Við vonumst líka eftir líflegum umræðum eftir sýninguna. Þátturinn er á ensku og því miður fylgir enginn texti. Þátturinn er um 60 mínútur að lengd.
Ekki láta þessa sýningu framhjá þér fara.
Skeptíkus - hreyfing ótrúaðra stúdenta
Askja er nýbyggt (eða frekar nýlega) náttúrufræðihús Háskóla Íslands. Er hliðiná Norræna húsinu.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Benni - 05/04/05 13:34 #
Takk fyrir þetta. Fyrir óupplýstan pöpulinn, getur þú frætt okkur nánar um staðsetningu? Ég geri ráð fyrir að þetta sé ekki í eldstöðinni Öskju?
Benni