Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Múhammeð, Aisha og guðlastslög nútímans

Mannréttindadómstóll Evrópu

Tilefni þessarar greinar um Múhammeð og Aishu er nýgenginn dómur Mannréttindadómstóls Evrópu. Í dómnum var það ekki talið varið með tjáningarfrelsinu að segja að Múhammeð hafi verið barnaníðingur.

Aisha var ein af eiginkonum Múhammeðs. Miðað við hadíðurnar, sem eru helgirit í Íslam sem standa skör fyrir neðan Kóraninn, var Aisha 6 ára þegar hún kvæntist Múhammeð. Hún var hjá foreldrum sínum til 9 eða 10 ára aldurs þar til hún flutti til Medína til Múhammeðs sem átti þá samræði við hana. Hann var 53 ára.

Þessi aldur hefur verið almennt viðurkenndur í gegnum aldirnar meðal múslima. Það hafa verið einhverjir tilraunir uppi til að hnika honum til, sem hófust fyrst við lok 19. aldar eða byrjun 20. aldar. Engu að síður er það ennþá meirihlutaskoðun múslima, leikra sem lærðra, að Aisha hafi verið 6-7 ára þegar hún giftist Múhammeð og 9-10 ára þegar hún flutti til hans og hann átti við hana samræði.

Helstu heimildirnar fyrir aldri Aishu þegar hún giftist Múhammeð eru úr hadíðum Sahih al-Bukhari (5:58:234, 5:58:236, 7:62:64, 7:62:65, 7:62:88) , sem er ein af 6 aðal hadíðum súnní Íslam (Kutub al-Sittah). Meðal margra eru hadíður Sahih al-Bukhari taldar áreiðanlegustu hadíðurnar. Efnislega samhljóða eru einnig hadíður Shahih Muslim (8:3309, 8:3310, 8:3311, 41:4915) og Sunan Abu Dawood (41:917). Eini hópur múslima sem hafnar þessu alfarið eru ahmadiya múslimar.

Hvort að Múhammeð hafi í alvöru gifst Aishu þegar hann var 50 ára og hún 6 ára, og átt mök við hana 53 ára og hún 9 ára er eitthvað sem ég veit ekkert um (þrátt fyrir hadíðurnar, sem ég legg ekki trúnað á, frekar en Biblíuna eða Kóraninn). Það sem skiptir máli er að milljónir múslima trúa því að svo sé. Það hefur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér í baráttunni við barnagiftingar víða um heim. Þær eru afskaplega oft réttlættar með því að það hljóti að vera í lagi að giftast börnum, því Múhammeð gerði það.

Kona var dæmd fyrir hatursorðræðu í Austurríki fyrir það að segja meðal annars að Múhammeð hafi verið barnaníðingur. Hún kærði Austurríki fyrir það til Mannréttindadómstóls Evrópu á grundvelli þess að tjáningarfrelsið ætti verja hana. Austurríki hélt því fram í málsvörn sinni að tjáningarfrelsi mætti skerða til að verja allsherjarreglu (verja trúarlegan frið (protecting religious peace)) og verja rétt annarra til að særast ekki. Mannréttindadómstóll Evrópu taldi að skerða mætti tjáningarfrelsi meðal annars á þeim forsendum að trúfrelsið, sem kveðið er á um í 9. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, feli í sér rétt trúaðra til að þurfa ekki að móðgast alvarlega (right not to be seriously offended) og kvað upp dóm Austurríki í vil.

Þessi dómur er algjört reiðarslag. Það ber að hafa í huga að dómar Mannréttindadómstóls Evrópu hafa mikið vægi fyrir íslenskan rétt, en ákvæði laga á Íslandi, og stjórnarskrár, eru túlkuð með hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins.

Að lokum vil ég segja það að Múhammeð, eins og honum er lýst í hadíðunum, var barnaníðingur.

Sindri G. 29.10.2018
Flokkað undir: ( Íslam )

Viðbrögð


Sindri G. (meðlimur í Vantrú) - 30/10/18 12:02 #

Ég þarf að leiðrétta svolítið. Ég sagði að konan hafi verið dæmd fyrir hatursorðræðu. Það er ekki rétt. Hún var dæmd fyrir að móðga og tala niðrandi um “a person who … is an object of veneration of a religious community” .


Sindri G. (meðlimur í Vantrú) - 30/10/18 14:05 #

Ég vil síðan árétta að það sem mér þykir verst við dóminn er að trúfrelsið er túlkað svo að það feli í sér rétt til að móðgast ekki og að sá réttur sé yfirsterkari tjáningarfrelsinu.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.