Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

SoS: Af hverju leyfið þið ekki öllum að tjá sig hérna?

Af hverju ættum við yfir höfuð að leyfa nokkrum að tjá sig hérna?

Vantrú er nánast eina vefritið á íslensku sem leyfir athugasemdir við greinarnar sem birtast. Við höfum þennan hátt á sökum þess eins að við viljum láta leiðrétta rangfærslur okkar. Við seggirnir erum ekkert alvitrir frekar en annað fólk og skoðanir okkar geta að sjálfsögðu verið litaðar af ranghugmyndum, þekkingarleysi og fordómum. Það er miklu betra að slíkt sé leiðrétt og við sjálfir getum skipt um skoðun, frekar en að vefsetrið endi sem ruslahaugur af fordómafullu bulli.

Eina krafan sem við gerum er sú að þeir sem geri athugasemdir framvísi gildum netföngum og haldi sig við efni greinanna. Þeir sem vilja tjá sig um þessa ritstjórnarstefnu ellegar fordóma og almennt villuráf greinahöfunda mega gera það á spjallborðinu okkar.

Við höfum tekið eftir því að ýmsir þeir sem taka til máls eru duglegir að væna okkur um fordóma, ofbeldisfull skrif og annan dónaskap, án þess að geta síðan bent á nein dæmi. Það virðist helst sem menn geri okkur upp reiða og ofstopafulla rödd þegar þeir lesa greinarnar okkar og túlki því allt sem skrifað er sem einhvern skæting. Þessu fólki er hér með bent á að prófa að lesa greinarnar yfir aftur, en nú með yfirvegaðri rödd einhvers útvarpsþular Ríkisútvarpsins eða jafnvel uppáhalds-prestsins síns eins og hann hljómar í ræðustólnum. Því þótt sumum þyki það kannski ótrúlegt, þá eru langflestar greinarnar hér skrifaðar af yfirvegun og hvatinn á bak við þær einföld samfélagsrýni.

Það er bara svo sjaldgæft í seinni tíð að beinskeytt umræða hafi heyrst um trúmál að auðvelt er að reka í rogastans yfir afdráttarleysinu hér. En í raun eru þessi greinaskrif ekkert öðruvísi en gagnrýnin pólitísk skrif, þar sem þær skoðanir eru harkalega gagnrýndar sem menn telja óheillavænlegar.

Hver sá sem virðir reglurnar sem hér gilda fær að tjá sig undir einstökum greinum. Þannig bjóðum við betur en önnur vefrit sem birta beinskeyttar skoðanir á málefnum samfélagsins. Og jafnvel þeir sem bannaðir hafa verið um lengri eða skemmri tíma, eftir að hafa ítrekað brotið þessar reglur, fá lesendabréf eftir sig birt og fullan aðgang að spjallborðinu eftir sem áður.

Það fá semsagt allir að tjá sig hér, með einum eða öðrum hætti.


Þeir sem vilja tjá sig um efni greinarinnar og ritstjórnarstefnu Vantrúar yfirleitt, vinsamlegast geri það á spjallborðinu..

Birgir Baldursson 07.10.2005
Flokkað undir: ( Spurt og svarað )