Nýlega þurftu prestar að predika út frá einni af dæmisögum Jesú. Það virðist hafa verið afar freistandi fyrir suma þeirra að draga upp fallega mynd af guðinum þeirra út frá henni, en því miður fyrir þá er þessi dæmisaga til í fleiri en einni útgáfu í Nýja testamentinu, og þær eru ekki allar jafn fallegar.
Dæmisagan um veisluna er í 14. kafla Lúkasarguðspjall.
Í stuttu máli er hún á þá leið að maður nokkur sendir þjóna sína til að bjóða ákveðnu fólki í veislu. Það fólk neitar hins vegar boðinu og kemur með ýmsar ástæður (til dæmis segist einn þurfa að skoða nýkeyptan akur og annar segir að hann sé nýgiftur). Þegar maðurinn sem heldur veisluna heyrði þetta sagði hann þjónum sínum að fara á götur borgarinnar og bjóða inn fátækum, örkumla, blindum og höltum. Eftir það eru enn laus pláss í veisluna og maðurinn lætur þjóna sína fara um brautir og gerði og þrýsta á fólk á að koma inn, svo að húsið hans fyllist. Svo segir hann að enginn þeirra sem fengu fyrsta boðið mun “smakka kvöldmáltíð mína".
Í predikun sinni fjallar presturinn Þorgeir Arason um dæmisöguna:
Og Guð hefur sjálfur gengið alla leið í þeirri elsku. Jesús Kristur hefur sannarlega dáið á krossinum fyrir okkar syndir og risið upp frá dauðum. Hann hefur unnið það verk fyrir okkur sem við getum aldrei endurgoldið. Svo býður hann okkur í veisluna á himnum og hefur lagt ALLT í sölurnar til að geta boðið okkur. En hann veit líka að margir munu ekki þiggja boðið. Margir munu vera of uppteknir í ræktinni eða í símanum eða í vinnunni til að þiggja boðið. Margir verða of sannfærðir um eigin þekkingu og takmarkalausan mátt vísindanna til að þiggja það. Margir munu hæðast að þessu boði í veislu Krists, smána hann og niðurlægja fyrir að dirfast að bjóða sér inn í kærleikssamfélagið við Guð.
En hann elskar samt. Og hann deyr samt á krossinum og rís upp fyrir þau öll og fyrir okkur öll og heldur bara áfram að bjóða og bjóða og bjóða í veisluna sína – án þess að vænta neins í staðinn. Og hann getur ekki annað, því að Guð er kærleikur.
Það er eflaust rétt athugað hjá honum að veislan sé einhvers konar tákn fyrir himnaríkisvist.
En áherslan hjá prestinum er klárlega sú að guðinn hans sé alger krúttguð: Guðinn hans er kærleikur og gerir hvað sem er til að bjóða fólki í “kærleikssamfélagið við Guð" og heldur áfram að bjóða og bjóða og bjóða í veisluna. Guðinn hans virðist bara þrá ekkert annað meir en að fólk mæti í veisluna.
Því miður fyrir þessa hugmynd þá er þessi dæmisaga líka í Matteusarguðspjalli.
Þessi útgáfa er frábrugðin að ýmsu leyti: hér er maðurinn sem heldur veisluna konungur og veislan er sögð vera brúðkaupsveisla sonar hans. Fólkið sem afþakkar boðið er heldur betur óþakklátt og drepur þjóna konungsins. Konungurinn bregst við með því að “reiðast, senda út her sinn og láta tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra".
En eins og í Lúkasarguðspjalli þá sendir veisluhaldarinn þjóna sína út á göturnar og lætur “bjóða í brúðkaupið hverjum sem þér finnið" þar sem “hinir boðnu voru ekki verðugir".
Ef við horfum fram hjá hefndarþorsta veisluhaldarans, þá virðist þetta enn sem komið er vera svipað og í Lúkasarguðspjalli. Hann vill klárlega fá fólk í veisluna.
En í sögunni sér veisluhaldarinn “mann, sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum" [1]. Maðurinn gat ekki útskýrt hvers vegna hann var ekki í brúðkaupsklæðum og því segir veisluhaldarinn við þjóna sína: “Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.”
Þarna segir Jesús að guðinn hans muni reka fólk burt úr “veislunni á himnum" eða “kærleikssamfélaginu við Guð" (svo að maður noti orðfæri Þorgeirs). Greyið veislugesturinn er bundinn og svo hent í ystu myrkur þar sem verður grátur og gnístran tanna, sem er klárlega andstaðan við “veisluna á himnum": þjáningarnar í helvíti.
Veisluhaldari sem hótar fólki sem mætir ekki eða þá mætir í vitlausum klæðnaði með helvítisvist er ekkert sérstaklega kærleiksríkur. Og þess vegna munt þú afskaplega sjaldan heyra minnst á þessi lokaorð dæmisögunnar í predikunum presta Þjóðkirkjunnar. Þessar dæmisögur Jesú passa engan veginn við trúarhugmyndir þeirra og þær eru einfaldlega vandræðalegar fyrir þá.
[1] Það er ekki ljóst hvað skortur á brúðkaupsklæðum á að tákna (ein uppástunga er “réttlætisverk", byggt á Op 19:8)
Athugasemd Andra lenti því miður í spamsýjunni sem var eitthvað mótfallin biblegateway vefslóðinni!
Þarna er verið að lýsa mönnum eins og þér, sem þykjast vera trúlausir en virðast einbeita sér að því að grafa undan kristni, eingöngu. Menn eins og þú hafa opnað fyrir allskonar fals guðum. Lenin trúði á Lúsifer. Hann kom í veisluna sem trúleysingi. Hundruðir miljóna lyggja í valnum. Hann kallaði þína líka, "useful idiots".
Benni þú skrifaðir "en virðast einbeita sér að því að grafa undan kristni, eingöngu"
Hvað finnst þér t.d. um þessa grein hér: https://www.vantru.is/2018/10/29/14.00/
Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.
Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.
Andri - 03/09/18 20:55 #
Held það gæti líka verið að tala um það sama og hérna: https://www.biblegateway.com/passage/?search=Matthew+7%3A21-23&version=ICELAND þ.e. þá sem líta út fyrir að vera í rétta liðinu og taka þátt í veislunni. En svo þegar betur er skoðað þá er eitthvað rugl í gangi.
En þetta er náttúrulega óheppilegt, hvort sem það er í veislu eða í lífinu, að maður klikki á þessu og fái að fara í ysta myrkur fyrir vikið. :)