Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fíkn og þráhyggja

Mynd af valmúa

Ástæða þess að ég er trúleysingi er helst sú að ég vil vita hvað er satt og hvað er rangt. Ég leyfi mér ekki að aðhyllast skoðun án þess að á bak við hana séu einhver rök, rök sem ég tek gild þar til annað kemur í ljós. Vel má vera að ég hafi rangt fyrir mér með ýmislegt sem snertir trú og trúarlíf og ég bíð átekta eftir þeim rökum sem koma mér ofan af núverandi skoðun minni.

Þannig getur verið að trú og trúarlíf geri manninum gott og skaðsemin sé svo lítil sem af slíku vafstri hlýst að ekki taki að eyða á það orðum. Sé það rétt get ég vel skilið að horft sé til mín sem öfga- og ofstækismanns, þegar ég reyni sem ég get að benda á skaðsemi þessara órökstuddu hugmynda sem trúarskoðanir eru. En eftir tíu ár af skrifum í vefrit þar sem opið er fyrir athugasemdakerfi hefur ekkert komið fram sem kollavarpað getur skoðun minni. Mér finnst það næstum skítt, en um leið sannfærir það mig um að skoðanir mínar séu á traustu bjargi byggðar.

Mér finnst óheiðarlegt þegar fólk hefur þá afstöðu í lífinu að skoðanir sem engin rök styðja séu grundvöllur viðhorfa þess, sér í lagi ef það er svo ekki tilbúið til að verja þær málefnalega, en kallar þess í stað eftir því að þær séu verndaðar og heilagar. Hvar værum við stödd ef allur annar þekkingargrunnur hefði verið varinn með slíkum hætti gegn nýjum hugmyndum? Já, enn á miðöldum, rétt svar.

Ég hef stundum velt því fyrir mér af hverju trúmönnum þykir svona vænt um skoðanir sínar, svo vænt um þær að þeir verja þær grimmilega með úthrópunum og aðdróttunum í garð þeirra sem þær gagnrýna. Ég hef helst hallast að þeirri niðurstöðu að trúarskoðanir manna séu í senn fíkn og þráhyggja.

Það myndi útskýra viðkvæmnina fyrir rökræðunni, gagnrýninni og nánast tilvist þeirra sem draga hugmyndir þessa fólks í efa. Með því að láta börn ástunda bænalestur og trúarjátningar frá unga aldri er heilastarfið sveigt í þá átt að þörf skapast fyrir slíkt hugarstarf. Alla ævi eru menn síðan háðir haldreipinu sem þetta veitir og lítið annað en hugræn atferlismeðferð fær virkað á allt það rótgróna heilastarf.

Þráhyggjunni fylgir svo áráttuhegðun, hegðun sem við sjáum allt í kringum okkur í fari trúmanna. Þeir signa sig, fara á hnén og setja hendurnar í biðjandi stellingu, hafa yfir tuggur í sífellu, tuggur á borð við faðirvorið eða upphrópanir eins og "dýrð sé guði", "amen" og þar fram eftir götum. Hvert nýtt tilvik slíkrar ástundunar greypir þörfina fyrir hana dýpra í hugastarfið og það að hætta þessu getur reynst mönnum jafnerfitt og að snúa frá hverju öðru dópi.

Það sem er svo verst við þetta er að fólk með slíkt hugarfar telur sig í fullum rétti til að halda þessum skoðunum á lofti án rökstuðnings og innræta ófullveðja börnum sama hugsunar- og hegðunarmynstur. Og þegar hugsunin hljóðar svo upp á skaðleg viðhorf í garð annarra er þetta ekki lengur neitt grín.

Það er í raun undarleg mótsögn að einmitt þeir sem telja sig fylgja besta boðskap af öllum, boðun um fullkomið umburðarlyndi og mannkærleik í ætt við meintar skoðanir frelsara síns, skuli vera manna reiðubúnastir að úthrópa heilu hópana, ráðast að þeim og útiloka frá fullum mannréttindum. Auðvitað eru þó undantekningar á því, t.a.m. er hópur Þjóðkirkjupresta sem heldur fast í þá skoðun að boðskapur Jesú sé kærleiksboðskapur sem eigi við um alla menn og útiloki engan. Þessi hópur hefur t.d. um langa tíð talað fyrir mannréttindum samkynhneigðra sem meðlimir í kirkju sem í aldaraðir fordæmdi og útilokaði slíkt fólk.

En þetta er nýlunda, fyrir níunda áratug síðustu aldar var varla nokkur, innan kirkju eða utan, sem barðist fyrir réttindum samkynhneigðra aðrir en þeir sjálfir. Hvernig má það vera, þegar því er haldið fram að kristnin útiloki engan eða fordæmi? Frjálslyndu prestarnir eru í fullkominni andstöðu við allar þær kynslóðir kristinna sem á undan komu. Þeir hafa aðrar skoðanir, en byggja þær á kórréttri kristni, eða eru þær tilkomnar þrátt fyrir kristnina? Er þetta fólk kannski réttlátara en guðinn þeirra?

Það getur verið áhugavert að fylgjast með þessum frjálslyndu guðfræðingum réttlæta skoðun sína með alls kyns fullyrðingum um hvað Jesús á að hafa hugsað, sagt og gert. Í stað þess að segja einfaldlega skilið við hugmyndakerfið sem plagað hefur mannkynið í aldaraðir, kjósa menn að túlka það allt upp á nýtt til að þurfa ekki að sleppa höndum af fíkn sinni og þráhyggju.

Það að aðhyllast þróunarkenninguna eða kenninguna um Miklahvell er mér ekki fíkn eða þráhyggja. Ég er tilbúinn að falla frá þessum skoðunum um leið og sannfærandi rök eða rannsóknaniðurstöður benda til annars en nú er talið. Ég vildi óska þess að trúmenn gætu nálgast sína heimsmynd með sama hætti, en ég held að vandinn sé einfaldlega sá að afstaða þeirra er ekki bara skoðun, heldur einmitt fíkn og þráhyggja.


Mynd fengin hjá Christian Lang

Birgir Baldursson 06.12.2013
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Pétur - 06/12/13 09:59 #

Í þessum pistli þínum gerir þú grein fyrir afstöðu þinni og hvað skoðun þín sé vel upplýst og í raun sú "rétta" út frá þinni afstöðu. Sem í sjálfu sér er gott mál.

En þú ert líka að benda á að fólk sem sé trúað sé m.a. óheiðarlegt, séu fíklar og með þráhyggju. Þú leggur líka mikla áherslu á að þú sért ekki haldin sömu fíkn og þráhyggju og þeir sem eru trúaðir. Enda ert þú tilbúin að breyta um skoðun ef hún stenst ekki vísindalega skoðun. Þú bendir líka á að það sé slæmt að láta börn ástunda bænalestur og trúarjátningar.

Hvað er það sem þú ert að berjast fyrir og hvernig hjálpar það þínum málaflutning að upphefja sjálfan þig á kostnað skoðanna sem þú virðist ekki skilja. Hér á ég við afstöðu trúarmanna til trúar sinnar. Það gæti vel verið að þú sért vel að þér í þekkingu tengt trú og ég er ekki að reyna að gera lítið úr henni.

Er alveg ómögulegt fyrir þig að sjá að þeir sem aðhyllast trú geri það vegna þess að þeim líði vel með þessa skoðun sína. Að þau vilji sýna öðrum að skoðun sín sé þess virði að kynnast og fylgja. Þess vegna eins og þú reyna þau að bera hana á torg.

Aðferðin við það má og á að gagnrýna en þú ert ekki að leggja áherslu á það í þessum pistli. þú virðist leggja upp með það að gera lítið úr skoðun annarra til þess að þér líði vel með þína skoðun.

Ég tel að orðaræða sem felur í sér svona úthrópanir eins og þú setur fram í pistli þínum gagnist fáum ef einhverjum.

En ég er enga síður forvitin eftir að hafa lesið þennan pistil. Sú forvitni mín fellst í því hvernig einstaklingur eins og þú sem ert með þá skoðun að vísindaleg nálgun sé það sem þarf til þess að geta staðið á málaflutning sínum.

Hvaðan færð þú þínar sannanir um þær alhæfingar sem þú leggur fram í pistli þínum um að afstaða trúmanna leiði til þess að þeir séu óheiðarlegir, fíklar og haldnir þráhyggju. Þú notar orðin "finnst" og "held" "Mér finnst óheiðarlegt..." og síðan "ég held...".

Svo að ekki sé misskilningur á þessari síðustu málsgrein, þá er þetta kaldhæðni.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/12/13 13:57 #

Ég er aðallega að reyna að varpa ljósi á málin, út frá því hvernig ég sé og hugsa hlutina. Ef afstaða mín og sýn nær að varpa nýju ljósi og vekja til umhugsunar nægir það mér.

Hvað er það sem þú ert að berjast fyrir og hvernig hjálpar það þínum málaflutning að upphefja sjálfan þig á kostnað skoðanna sem þú virðist ekki skilja.

Endilega bentu mér á hvað ég er ekki að skilja.

Er alveg ómögulegt fyrir þig að sjá að þeir sem aðhyllast trú geri það vegna þess að þeim líði vel með þessa skoðun sína.

Ef það er eina ástæðan og viðhorfin valda á sama tíma skaða í samfélaginu, þá hlýt ég að gagnrýna svo eigingjarna afstöðu sem menn taka við trúarstökkið.

Aðferðin við það má og á að gagnrýna en þú ert ekki að leggja áherslu á það í þessum pistli. þú virðist leggja upp með það að gera lítið úr skoðun annarra til þess að þér líði vel með þína skoðun.

Rangt, sbr. fyrstu efnisgrein í þessari athugasemd.

Ég tel að orðaræða sem felur í sér svona úthrópanir eins og þú setur fram í pistli þínum gagnist fáum ef einhverjum.

Ég reyni að færa rök fyrir skoðun minni. Fór þar fram hjá þér? Og ef það er gert, eru þetta þá úthrópanir? Ert þú þá ekki líka að úthrópa skoðun mína? Af hverju mátt þú en ekki ég?

Hvaðan færð þú þínar sannanir um þær alhæfingar sem þú leggur fram í pistli þínum um að afstaða trúmanna leiði til þess að þeir séu óheiðarlegir, fíklar og haldnir þráhyggju. Þú notar orðin "finnst" og "held" "Mér finnst óheiðarlegt..." og síðan "ég held...".

Þegar ég nota orðasambönd á borð við "mér finnst" og "ég held" er ég einfaldlega að lýsa skoðun minni, eftir að hafa fært fyrir henni röksemdir. Öðrum er síðan velkomið að taka skoðun mína og hrekja hana.


Pétur - 06/12/13 14:29 #

Þér finnst þú hafa fært rök fyrir því sem þú heldur og þér finnst vera rétt. Ef þessi rök þín eru nóg til þess að þú getir alhæft um að afstaða trúarfólks geri þau óheiðarleg, séu fíklar og haldnir þráhyggju.

Er þá eitthvað rangt að segja að mér finnst að Guð sé til eða ég held að Guð sé til. Ég gæti útskýrt það svona almennt út frá svipuðum pistli sem þú hendir fram hérna. Síðan ef ég er beðin um að færa rök eða sannanir fyrir svona upphrópunum, þá vísa ég bara í að þetta sé skoðun mín.

Það er í lagi mín vegna ef þetta er skoðun þín á hvernig eigi að færa rök og sannanir fyrir sínum málflutningi.

Ég á ekki von á að fara dýpra í þessa umræðu, enda er alveg óþarft að gera það, þú telur að þú sért búin að útskýra hvernig þú kemst að niðurstöðu og það sé fullnægjandi. Út frá þeirri nálgun, þá mun ég aldrei "sigra" þessa rökræðu og því gefst ég upp og lýsi þig sigurvegara.

Kannski seinna þegar við höfum báðir nálgast hvorn annan í hugsun og hvernig við beitum rökhyggju, þá getum við átt lengri og dýpri samræður. Ég held einfaldlega að ég sé of grunhygginn til þess að geta gert það núna.

Þangað til næst.

Með vinsemd og virðingu


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/12/13 15:12 #

ég sagði:

Mér finnst óheiðarlegt þegar fólk hefur þá afstöðu í lífinu að skoðanir sem engin rök styðja séu grundvöllur viðhorfa þess

Þér er velkomið að benda mér á hvað er rangt við þessa skoðun.

Þetta með þráhyggjuna er heldur ekki alveg úr lausu loft gripið. T.d. hefur þráhyggjuhegðun trúarðra, sér í lagi þeirra sem búa til áráttukennd ritúöl, verið tengd við schizotypal personality. Maður sér slíka hegðun mjög mikið stundaða í kirkjum og á öðrum trúarathöfnum. T.d. er þessi hegðun hér dæmigerð. Fyrir því fólki sem þetta stundar hefur hegðunin mikla og djúpa merkingu, merkingu sem því hefur verið talin trú um að þurfi að framkvæma.

Sennilega voru það schizotypal einstaklingar sem byrjuðu á þessu, en fólk án slíkra einkenna tekið hegðunina upp á arma sína af því að því hefur verið talin trú um að mikið sé í húfi, sálarheill og jafnvel velferð í eilífðinni. Þannig má segja að heilbrigt fólk hafi tekið að sér að ganga með sjúkdómseinkenni þeirra sem ekki ganga alveg heilir til skógar.

Endilega ræðum þennan sjónarhól, hann er alveg þess virði og gæti sem best opnað augu okkar. Ekki bara fyllast heilagri vandlætingu yfir "vonda" trúleysingjanum sem ekkert gott getur séð í friði.


Pétur - 06/12/13 15:49 #

Ég gefst upp. Ég viðurkenni út frá þessum rökum þínum að ég sé óheiðarlegur, haldin fíkn og þráhyggju.

Nú hefur þú rétt fyrir þér, hvert er þá næsta skref. Hvað á ég að gera, ég vil endirlega að við getum lifað í sátt og samlyndi. Þú með þína skoðun og ég með minn sjúkdóm.

Ertu með lausn sem felur í sér að þú sért sáttur við mig og þá sem eru haldnir þessum sjúkdóm.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/12/13 15:58 #

Ekki hæðast að mér. Kannaðu frekar eigin hug, hvort ákvörðun þín um að trúa sé vitsmunalega heiðarleg út frá því sem við vitum um veruleikann. Og ef þú hefur þörf fyrir trúarleg ritúöl geturðu spurt þig hvaðan það sé komið og hvort það þjóni nokkrum tilgangi að viðhalda þeirri hegðun, öðrum en þeim að friða þráhyggju/áráttuhegðun.

Prófaðu að horfa á eigin afstöðu og hegðun með mínum augum. Kannski þú komir auga á einhvern kjarna í því sem ég er að segja. Ef ekki, þá ættirðu að geta sýnt mér fram á rangindi skoðana minna með einföldum hætti.

við getum vel lifað í sátt og samlyndi, reynt að skilja hvor annan og skiptst á skoðunum í bróðerni. En það þarf þá að vera vilji fyrir því á báða vegu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/12/13 16:02 #

Líklegra er þó að þú hafir einungis tekið að þér að framkvæma þessa þráhyggjukenndu hegðun í tíma og ótíma því þér var innrætt að það sé mikilvægt. Kannski er ég, með því að ýta við þér, að frelsa þig undan þeirri óþörfu byrði.


Pétur - 06/12/13 16:11 #

Ég er ekki að hæðast að þér, mér er alvara.

Skilgreining þín á óheiðarleika, fíkn og þráhyggju er ekki sama skilgreining og mín. Því geri ég ráð fyrir að við séum að misskilja hvorn annan og því gefst ég upp og gef boltann á þig og spyr þig hvað þú vilt að ég geri til þess að við getum lifað í sátt og sammlyndi.

Þetta er ekki háð á neinn hátt og ég biðst velvirðingar ef þú upplifir það þannig.

Það er til fólk sem er mín megin við borðið og þín megin við borðið sem vill átök en ég er ekki einn af þeim. Ég ver að sjálfsögðu mína skoðun eins og þú.

En ef við gerum það báðir án þess að gefa eftir, þá náum við aldrei að eiga samræður sem gætu mögulega leyst málin.

Kannski með því að gefast upp getum við fellt varnarmúra okkar og rætt af heilum hug saman um hvað þarf að gera til að við getum lifað í sátt og samlyndi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.