Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um "Heilagt stríð" og "einelti" Vantrúar

Þann 5. desember birtist grein um erindi siðanefndar Háskóla Íslands no. 1/2010 í sunnudagshefti Morgunblaðsins undir fyrirsögninni "Heilagt stríð" Vantrúar. Þó greinin hafi átt að fjalla um siðanefndarmálið var nær ekkert fjallað um erindi Vantrúar til siðanefndar Háskóla Íslands sem varðaði kennslugögn stundakennara. Meira var gert úr meintu einelti sem kennarinn upplifði af hálfu Vantrúar. Fyrstu greininni var fylgt eftir með greininni Einelti vantrúarfélaga í sunnudagsblaðinu þann 12. desember.

Vantrú fékk vilyrði fyrir því frá blaðamanninum að félagið fengi birta grein þar sem ásökunum yrði svarað og rangfærslur leiðréttar. Svar Vantrúar átti að birtast í sunnudagsblaði Morgunblaðsins þann 18. desember. Ritstjórn Morgunblaðsins hefur neitað að birta greinina og þess í stað boðið félaginu að senda inn lesendabréf og birta það undir liðnum umræðan. Við sögðum pass og birtum greinina því hér á Vantrú.


Glæra1

Inngangur

Snemma árs 2010 sendi félagið Vantrú erindi til siðanefndar Háskóla Íslands. Erindið sneri að kennslu í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar, sem kennt var haustið 2009 af Bjarna Randveri Sigurvinssyni við guðfræði- og trúarbragðafræðideild háskólans. Í námskeiðinu var m.a. fjallað um Vantrú, og var það mat Vantrúarfélaga að kennsla um félagið hafi verið ófagleg og einhliða.

Töldu félagar kennsluna hafa brotið í bága við siðareglur Háskóla Íslands og ákváðu því að senda erindi til siðanefndar Háskólans, eins og siðareglur Háskólans gera ráð fyrir.

Félagsmenn í Vantrú voru alltaf fúsir til sátta svo lengi sem skilningur væri sýndur á umkvörtunarefninu og lögðu sig alla fram við að ljúka málinu þannig að það yrði öllum málsaðilum og Háskólanum til sóma. Í þessari umfjöllun verður leitast við að varpa skýru ljósi á málið, eins og það horfir við Vantrúarfélögum.

Upphaf málsins – glærur um Vantrú

Haustið 2009 setti Vantrúarfélagi skilaboð inn á spjallborð Vantrúar þess efnis að vinur hans hefði skráð sig í námskeiðið Nýtrúarhreyfingar. Á meðal efnistaka í því námskeiði voru trúleysishreyfingar og m.a. átti að fjalla um félagið Vantrú.

Stolt Vantrúarmeðlima yfir því að félagið væri til umfjöllunar í Háskóla Íslands breyttist fljótt eftir að vinur Vantrúarfélagans lét honum í té glærur úr námskeiðinu. Vantrúarfélagar voru ekki mótfallnir því að fjallað væri um félagið sem trúfélag, en eftir að hafa skoðað umfjöllun Bjarna Randvers á glærunum, sem Vantrúarsinnar höfðu talið að myndi fjalla á faglegan hátt um félagið, kom í ljós að þær snerust nær eingöngu um það hve orðljótir og dónalegir félagar Vantrúar væru.

Þar voru meðal annars orð manna tekin gróflega úr samhengi. Langur orðalisti var birtur sem átti að sýna orðbragðið sem Vantrúarfélagar hafa notað um nafngreint fólk, en í raun var listinn ekki nema að hluta til frá Vantrúarfólki og sum orðanna voru ekki einu sinni notuð um nafngreinda einstaklinga. Í lok glærusýningarinnar var gefið í skyn að málflutningur Vantrúarfélaga væri „vatn á myllu haturshreyfinga sem grafi undan allsherjarreglu samfélagins og almennu siðferði“.

Þegar þetta kom í ljós þótti mörgum Vantrúarfélögum illa vegið að sér og félaginu. Allir sem þekkja til Vantrúar, ættu að vita að félagar í Vantrú hafa aldrei farið fram á að farið sé með silkihönskum um félagið og málflutning þess, enda hafa þeir ekki boðið öðrum upp á slíka meðferð.

Raunar myndu félagar hafa ánægju af því að takast á við gagnrýna og sanngjarna umfjöllun um félagið, og hafa oft kallað eftir henni sjálfir. Að sama skapi frábiðja félagsmenn sér þó þá ósanngjörnu og meiðandi umfjöllun, sem jafnvel mætti kalla skrumskælingu á málflutningi félaga, sem birtist í glærum Bjarna Randvers. Margir félagar lýstu því einnig yfir á spjallborði Vantrúar að svona vinnubrögð ættu alls ekki heima innan veggja æðstu menntastofnunar landsins. Virtur fræðimaður sagði nýlega að sá sem afvegaleiðir lesendur með því að velja einungis þær heimildir sem gefa eina mynd af viðfangsefninu stundi jafnvel verri vinnubrögð en sá sem gerist sekur um ritstuld.

Erindi sent til siðanefndar

Í framhaldi af því urðu meðlimir ásáttir um að þetta þyrfti að tilkynna háskólayfirvöldum og væri líklegast best að senda erindi með athugasemdum til siðanefndar Háskólans. Ákveðið var þó að gera ekkert í málinu fyrr en önninni væri lokið og einkunnir gefnar út.

Hófst þá töluverð vinna við að fara í gegnum allar glærurnar, finna upprunalegu tilvitnanirnar, sem sumar eru raunar horfnar af netinu, og setja saman erindi. Erindið var afhent í þremur tiltölulega samhljóða bréfum til rektors, guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og siðanefndar þann 4. febrúar 2010.

Í kjölfarið var fjallað um málið og glærurnar sjálfar á vefsíðu félagsins undir liðnum Háskólinn. Í umfjölluninni var meðal annars farið í gegnum allar tilvitnanir og sýnt hvernig margar höfðu verið teknar gróflega úr samhengi. Enn fremur voru glærurnar birtar í heild sinni svo lesendur gætu lagt sjálfstætt mat á þær og umkvörtunarefni Vantrúar.

Þann 10. mars fengu Vantrúarfélagar póst frá Pétri Péturssyni, þáverandi forseta Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, en í honum stóð:

„Tekið verður mið af athugasemdum félagsins Vantrúar við einstaka glærur og kynningu á því [sic] ef námskeiðið verður kennt aftur. Um þetta erum við Bjarni Randver sammála.“

Formaður siðanefndar var ekki á landinu þegar erindið var lagt fram og tók siðanefnd því ekki við erindinu fyrr en 25. mars 2010. Hófust þá sáttatilraunir hennar. Pétur Pétursson sendi siðanefnd undirritað bréf, þar sem hann sagðist hafa átt fund með Bjarna Randveri Sigurvinssyni og tveimur öðrum prófessorum guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, og að þeir hafi orðið ásáttir um að hann hefði orð fyrir þeim gagnvart siðanefnd, með það fyrir augum að ná sáttum í málinu. Í framhaldi af því átti formaður siðanefndar fundi með annars vegar Pétri og hins vegar formanni Vantrúar, Reyni Harðarsyni, þar sem reynt var að ná sáttum. Tókst það að því er virtist og höfðu báðir aðilar samþykkt sáttatillögu formanns siðanefndar, þegar henni var skyndilega hafnað á kennarafundi guðfræði- og trúarbragðafræðideildar.

Öllum sáttum hafnað

Eftir að stungið hafði verið upp á óháðum sáttamiðlara utan siðanefndar, sem Vantrú tók vel í en Bjarni Randver hafnaði, reyndi Vantrú að ná lausn á málinu án aðkomu Bjarna Randvers. Í samvinnu við Hjalta Hugason varð til hugmynd um að Háskóli Íslands stæði að útgáfu rits um trúleysi á Íslandi svo nemendur hefðu aðgang að óbjöguðum upplýsingum um það efni.

Þessi hugmynd var borin undir nýjan forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, rektor skólans og kennslustjóra. Ef útgáfan hefði hlotið brautargengi ætlaði Vantrú að draga erindi sitt til siðanefndar til baka án nokkurra eftirmála fyrir Bjarna Randver. Þannig hefði mátt ljúka málinu með sóma fyrir alla aðila, ekki síst Háskóla Íslands. Af einhverjum orsökum settu Bjarni Randver og stuðningsmenn hans sig alfarið upp á móti þessari lausn.

Þegar stefndi í að nýr formaður siðanefndar ætlaði að segja sig frá málinu var ljóst að í algjört óefni var komið og dró Vantrú erindi sitt til baka gegn loforði um að allur ferill málsins og framganga hóps háskólamanna yrði rannsökuð.

Það hefur ekki dregið úr ákafa stuðningsmanna Bjarna Randvers. Þeir stofnuðu til undirskriftasöfnunar meðal íslenskra háskólamanna, gegn siðanefnd Háskóla Íslands, og birtist hún í fjölmiðlum þann 13. desember síðastliðinn. Sama dag sendi Vantrú frá sér yfirlýsingu þar sem yfirlýsing háskólafólksins var hörmuð. Ómögulegt er að segja hvert málið stefnir.

Af eineltistilburðum Vantrúarfélaga

Í umræðunni hefur komið fram sú ásökun að Vantrú hafi lagt viðkomandi kennara í einelti. Sú hugmynd virðist eiga rætur að rekja til þess að á lokaða spjallvettvangi Vantrúar var gert grín að því að ýmsir trúmenn virtust túlka alla gagnrýni sem einelti. Þegar litið er til þess sem Vantrú gerði í raun og veru þá er erfitt að sjá hvert hið meinta einelti var. Ekki er það „einelti“ að senda erindi til siðanefndar. Eftir standa skrif meðlima Vantrúar um málið á opnum vefsíðum.

Bjarni Randver hefur tekið saman lista yfir þetta meinta einelti eftir að málið fór af stað og í Morgunblaðinu fyrir viku var fullyrt að rúmlega hundrað dæmi væru um skrif gegn Bjarna á síðum vantrúarfélaga. Þannig verður umfjöllun Vantrúar um málið í upphafi að einelti gegn honum, en sá greinarflokkur birtist í 11 hlutum og auk þess allar vísanir félagsmanna á umfjöllunina af vefsíðum sínum.

Þegar eineltislistinn er skoðaður finnast nokkuð mörg dæmi þar sem alls ekki er verið að fjalla um Bjarna Randver eða erindið til siðanefndar. Til dæmis eru harðorð skrif um þáverandi stjóra Liverpool, Roy Hodgson, talin upp í listanum yfir skrif gegn kennaranum. Það er ljóst að við samantekt listans hefur Bjarni farið offari. Jafnvel bloggskrif sem vantrúarmenn birta eftir harðar ásakanir Morgunblaðsins þar sem þeir reyna að bera hönd fyrir höfuð sér flokkar Bjarni Randver sem einelti. Ásakanir Bjarna Randvers um einelti eiga alls ekki við rök að styðjast.

Trúnaðargögnum stolið

Í september 2010 fékk Bjarni Randver í hendurnar trúnaðarsamtöl milli félagsmanna Vantrúar sem tekin voru ófrjálsri hendi af lokuðu spjallsvæði Vantrúar. Bjarni Randver notaði þessi trúnaðargögn sem gögn fyrir siðanefnd. Þeim var svo dreift í heimildarleysi til fjölmiðla og annarra sem hafa nákvæmlega ekkert með málið að gera.

Innan Vantrúar eru félagsmenn sem vilja ekki að það komi opinberlega fram að þeir eru í Vantrú, t.d. vegna vinnu sinnar eða stöðu í samfélaginu. Það hefur komið fyrir að fólk innan Vantrúar hefur misst af verkefnum og vinnu eftir að hafa opinberað trúleysi sitt. Í einu tilfelli hefur verið reynt að fá starfsmann rekinn úr vinnu vegna tengsla við Vantrú. Margir koma því aldrei fram í nafni Vantrúar nema undir dulefni.

Þetta er orðið að lögreglumáli sem á eftir að fara sína leið í kerfinu. Vantrú leggur mikla áherslu á að þetta verði upplýst þar sem trúnaður á innri vef skiptir félagið miklu máli.

Um Vantrú og starfsemi félagsins

Í Vantrú eru um 130 félagar. Þar eru trúleysingjar á öllum aldri með hvers konar skoðanir á þjóðfélagsmálum. Baráttumál félagsins eru ekki öfgafull, t.d. aðskilnaður ríkis og kirkju og afnám trúboðs í leik- og grunnskólum, svo fátt eitt sé nefnt. Félagsmenn eiga það sameiginlegt að trúmál og trúfrelsi skiptir töluverðu máli. Vantrú var upphaflega stofnað sem félagsskapur trúlausra netverja, sem vildu sjá alvöru breytingar á trúmálaumræðunni og landslagi íslenskra trúmála.

Vegna þess að félagið er stofnað á netinu hefur starfsemin meira og minna farið fram þar og spjallborð Vantrúar hefur gegnt lykilhlutverki í störfum félagsins. Segja má að hjá Vantrú sé fundur í gangi allan sólarhringinn, alla daga ársins.

Félagið hefur alltaf stundað að skrifa beittar og stundum harðorðar greinar um trú og önnur hindurvitni, en þær koma vissulega við kaunin á mörgum. Þrátt fyrir það hefur félagið alltaf lagt sig fram um að vera heiðarlegt.

Niðurlag

Fólk getur haft mismunandi skoðanir á kvörtun Vantrúar. Við teljum eðlilegt að benda á að kennslan hafi verið einhliða og gefið villandi mynd af félaginu. Til þess að fá niðurstöðu í þetta mál, hefði siðanefnd þurft að hafa vinnufrið.

Á endanum snýst þetta mál ekki um að hefta akademískt frelsi, eins og haldið er fram í sífellu, heldur um það sem kalla mætti „akademíska ábyrgð“, enda fylgir öllu frelsi ábyrgð. Glærur Bjarna Randvers eru nánast hættar að skipta nokkru máli í umfjölluninni, en þær voru þó upphafleg ástæða þess að Vantrú sendi erindi inn til siðanefndar. Hópur háskólafólks hefur þyrlað upp miklu moldviðri í kringum þetta mál, ráðist að Vantrú og siðanefnd, svo aldrei hefur í raun tekist að fjalla um sjálft umkvörtunarefnið. Ef ekkert er að glærunum, af hverju fékk siðanefnd ekki að kafa ofan í saumana á málinu?

Fjallað verður nánar um málið hér á Vantrú eftir áramót.

Ritstjórn 29.12.2011
Flokkað undir: ( Háskólinn , Vantrú )

Viðbrögð


Halldór L - 29/12/11 18:10 #

Ég held að þetta sé samsæri [ríkiskirkjunnar?] um að draga allan vind úr greinahöfundum með því að láta þá þurfa í sífellu að leiðrétta hringavitleysu annarra í jafn fáránlega leiðinlegu máli.

Hvernig hafiði nennu í að endurtaka ykkur í sífellu? Ekki að ég sé mótfallin því, mér finnst þetta bara ótrúleg þrautseigja, sérstaklega miðað við að höfuðpaur hinnar hliðarinnar er vænissjúkur með vini í öllum fjölmiðlum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/12/11 18:21 #

Það eru í raun takmörk fyrir því hvað við munum nenna að eltast við smjörklípur. En við gætum þó aldrei með góðri samvisku gert minna en við þó höfum gert til að verja æru okkar gagnvart þessum geltandi hundum, þótt tannlausir séu.

Bjarni Randver, ég kallaði nafngreinda menn hunda. Í möppuna með það!


Sigurgeir Örn - 29/12/11 19:44 #

Mig langar til að hrósa ykkur fyrir þá þrautsegju og langlundargeð sem þið hafið sýnt. :) Þið standið ykkur vel, endilega haldið þessu uppi.


Ingó - 29/12/11 20:09 #

Kæru Vantrúarfélagar mér þykir ömurlegt að heyra að meðlimir ykkar hafi þjáðst vegna þessa að vera félagir í Vantrú. Mín skoðun er sú að fólk á að hafa frelsi til þess að hafa skoðanir og fólk á að geta unnið saman þrátt fyrir það að hafa mismunandi skoðanir. Ein af mínum grundvallar skoðunum er sú að alltaf að vera kurteis við fólk en það þýðir ekki að ég hafi rétt á því að vera ósammála skoðunum annarra. ég hef fylgst með þessu máli eins og margir, það eina sem mér fannst óviðeigandi á glærunum hjá Bjarna vöru dæmi hans um hvaða orð sumir félaga ykkar höfðu notað á aðra, orð eins og bjáni og svo framvegis.


Arnold - 29/12/11 21:47 #

Ég held að það sé alveg kristal tært að Bjarni hefur eitthvað að fela. Það er bara orðið alveg öruggt. Það sjá allir sem leggjast yfir þetta mál.

Svo er örugglega með í myndinni að kirkjuliðið sé að nota þetta til að höggva í Vantrú. Ég verð að segja að á tímabili hélt ég að það væri endanlega búið að jarða Vantrú. Þegar það kom ekkert nema hin hliðiðn í fjölmiðlum og meira og minna lýgi.

Ég ætla að éta það ofan í mig. Ég held að Vantrú eigi eftir að koma sterkari út úr þessu þegar fram líða stundir. Þetta fólk þ.e. Bjarni Randver og fylgismenn er algjörlega sneytt allri dómgreind. Ég held líka að PR deild kirkjunnar (sem er mjög sennilega ráðgefandi í þessu) sé saman sett af einhverjum mestu klaufum á því sviði sem þekkist hér á landi. Svo er þetta lið óheiðarlegt með eindæmum.


Kristján S - 29/12/11 23:48 #

Takk fyrir góða grein.

Er þetta ekki mergur málsins, sbr. hvernig greinin endar:

Ef ekkert er að glærunum, af hverju fékk siðanefnd ekki að kafa ofan í saumana á málinu?

Hvet fólk til að kynna sér þessa skýrslu hér: http://www.hi.is/files/skjol/stjornsysla/haskolarad/SkyrslaummalsidanefndarHInr12010.pdf

Áhugavert það sem kemur fram á bls. 33. Pétur Pétursson segir í bréfi til formanns siðanefndar hafa átt fund með Bjarna Randveri, Hjalta Hugasyni og Einar Sigurbjörnssyni og að þeir urðu ásáttir um að það heyri helst upp á Pétur að ræða við siðanefndina um þetta mál.

Þessu neitar Bjarni Randver í greinargerð sem sendi (bls. 34 í skýrslunni).

Fer Pétur með rangt mál? Fer Bjarni með rangt mál? Er einhver stór misskilningur í gangi?

Ætli spyrill Kastljóss hafi kynnt sér þessa skýrslu þegar Bjarni Randver var þar í viðtali? Hefði ekki mátt spyrja út í þetta?

Veit einhver hvort og þá hvar hægt sé að nálgast greinargerð Bjarna á netinu?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/12/11 16:27 #

Greinargerð Bjarna, "Svar við kæru Vantrúar", er trúnaðarmál á vinnslustigi og hana má hvorki birta að hluta eða í heild þar til hún verður gefin út með leiðréttingum og viðbótum.


Einar - 31/12/11 11:32 #

Bjarni vissi vel af þessu máli frá upphafi. Það að hann og Pétur hafi ákveðið á fundi að Pétur sjái um samskiptin við siðanefnd fyrir hans hönd er ekkert óeðlilegt í sjálfu sér. Hinsvegar er mjög óeðlilegt að Bjarni noti sér þetta og komi með eftiráskýringar að hann hafi ekkert fengið að vita af málinu og að siðanefnd hafi ekkert talað við hann, en það eru ósannindi.

Bjarni veit uppá sig skömmina að þessar glærur standast enga skoðun.

Sem betur fer eru margir farnir að sjá í gegnum þetta.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.