Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þögnin

Stundum segja ósögð orð meira en mörg orð. Í sögunni „Silver Blaze“ eftir Arthur Conan Doyle er Sherlock Holmes fenginn til að rannsaka hvarf á veðhlaupahesti og hugsanlegt morð á þjálfara hans. Í sögunni eiga sér stað þessi orðaskipti:

Gregory (rannsóknarlögregluþjónn): "Viltu benda mér á eitthvað annað?"

Holmes: "Á undarlega hegðun hundsins um nóttina."

Gregory: "Hundurinn gerði ekki neitt um nóttina."

Holmes: "Það er svo undarlegt."

Lykill gátunnar felst í þögn hundsins, ekki gelti hans.

Í Sandkorni DV 26. júní sl. segir:

Lítið hefur heyrst í prestum eftir útgáfu skýrslu sannleiksnefndar um viðbrögð kirkjunnar við kynferðisbrotum Ólafs Skúlasonar biskups. Þetta hefur orðið Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur og öðrum fórnarlömbum biskups mikil vonbrigði. Sigrún Pálína hefur fengið útrás með ljóðaskrifum:

Þögnin er köld og kæfandi. Þögnin er löng, þung og þrúgandi. Þögnin læðist og er allt um kring, angistin eykst og fer rísandi. Sorg mín er yfirgnæfandi. Þögnin er þegjandi en sigrihrósandi. Hvar eru raddirnar sem hrópa hátt? Það er ekki nóg að læðast og hvísla hljótt. Þögnin er svo meiðandi, hvar ertu sálusorgari. Ég spyr hvað er svona ljótt?

Sigrún Pálína bendir á undarlega hegðun ríkiskirkjunnar. Hún gerir ekki neitt.

Hví er svo hljótt? Hvað er svona ljótt? Kannski er svarið í hatrömmum málflutningi hættulegs ofstækismanns sem hugdjarfur barðist gegn prestum og prelátum:

Öll sín verk gjöra þeir til að sýnast fyrir mönnum, þeir breikka minnisborða sína og stækka skúfana.

Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum, láta heilsa sér á torgum og kallast meistarar af mönnum.

Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér etið upp heimili ekkna og flytjið langar bænir að yfirskini. Þér munuð fá því þyngri dóm.

Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér farið um láð og lög til að snúa einum til yðar trúar, og þegar það tekst, gjörið þér hann hálfu verra vítisbarn en þér sjálfir eruð.

Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti.

Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hreinsið bikarinn og diskinn utan, en innan eru þeir fullir yfirgangs og óhófs.

Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra.

Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis.

Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm? Mt. 23

Tengd grein: Dusilmenni

Ritstjórn 29.06.2011
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Arnar - 29/06/11 12:13 #

Plan B frá biskupsstofu: Bíða og láta fara lítið fyrir sér og vona að allir gleymi þessu vesen

?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 29/06/11 13:10 #

Þögn og þöggun hefur verið Plan-A frá upphafi og virðist í fullu gildi.

En það er ástæða til að vekja athygli á bloggi Carlosar Ferrer, sem er "vígður þjónn kirkjunnar" þó hann starfi ekki sem slíkur. Hann virðist hafa ríka réttlætiskennd í þessu máli og sparar faríseum ríkiskirkjunnar ekki kveðjurnar í ávarpi sínu til þeirra:

Annað hvort takið þið þátt í útför kirkjunnar sem kirkju eða þið hysjið upp um ykkur hempurnar, safnið liði og setjið ekki bara biskupi stólinn fyrir dyrnar heldur öllu helvítis apparatinu! Því helvítis apparat er það og helvítis skal það heita. #


Carlos - 29/06/11 14:06 #

Dálítið gaman að sjá vitnað í grein mína hér ... samt þarf ég að biðja þig að athuga, Reynir, að ég ávarpa þá kollega mína sem enn vilja hlusta á mig. Þeir eru ekki farisear. Ég vona að þeir taki á "apparati helvítis" og siðbæti það.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 29/06/11 14:24 #

Carlos, það er sérlega ánægjulegt að geta bent á mann með heilbrigða siðferðisvitund sem er jafnframt "vígður þjónn", en allt of sjaldgæft. Ég efast ekki um að farísearnir í ríkiskirkjunni vilja (flestir) hlusta en heyra kannski ekki. Hlusta en skilja ekki, hlusta en þora ekki.

Eins og bent er á í þessari grein sparaði Jesús hræsnurunum ekki kveðjurnar eða uppnefnin og ég tek nú sem fyrr heilshugar undir gagnrýni hans og þína. Merkilegt hvað þeir sem kenna sig við Jesú, Lúther o.fl. andófsmenn og mótmælendur virðast gjörsneiddir skilningi á grundvallarhugmyndum þeirra.


Carlos - 29/06/11 14:37 #

Þegar maður klifrar upp eftir virðingastiga sem auðvelt er að rífa undan þér, þá er erfitt að horfast í augu við hið augljósa og gera það sem þarf. Auðvelt fyrir mig að gefa upp fasta og snúna bolta.


Carlos - 29/06/11 14:42 #

En já, sneypuferðir Sigrúnar Pálínu til kirkju og þögn kollegana eftir hvítasunnu er blæðandi sár á þjóðkirkjunni. Greinin hittir beint í mark og fyndið þegar kristileg hugvekja Vantrúar hljómar betur en fum, japl og fuður kirkjuþings og biskups.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 29/06/11 14:47 #

Carlos, ekki geri ég lítið úr afstöðu þinni og hugrekki. Hins vegar er ljóst að þessi "virðingarstigi" ætti frekar að kallast "skammarstigi". Betra er að standa föstum fótum á jörðinni en skjálfa með eigin snöru um háls hátt uppi í kalkaðri gröf.


Carlos - 29/06/11 15:35 #

Takk fyrir það Reynir, þetta er ekkert hugrekki sem þarf, eða eins og segir í þýsku orðtaki:

Ist der Ruf erst ruiniert, lebt es sich ganz ungeniert.

Hitt er rétt, handan við metorðastigan eða fæðupýramídann er gott líf. Maður þarf bara að kunna að takast á við það sem maður hefur og sætta sig við það.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 29/06/11 20:03 #

Bæði Pressan og DV hafa vakið athygli á bloggi Carlosar.

Á DV lýsa margir yfir ánægju sinni með pistilinn en strax er farið að klína hatri á Carlos:

Þetta heitir að misnota Biblíuna til að berja á fólki . . . hvað með versin um bjálkann og flísina . . . kominn tími til að hætta þessu haturs ógeði . . .

Og vanþekkingu á Biblíunni:

Hvaða Biblíu lásu þessir þjónar kirkjunnar, bæði þeir sem eru brotlegir og ekki síður þeir sem krefjast hefndar í stað fyrirgefningar.


Carlos - 29/06/11 20:49 #

Við erum klofin kirkja. Stjórnendur okkar hafa deilt okkur og drottna. Á tímum Ólafs urðu til fylkingarnar svartstakkar og hinir og á tímum Karls bættust frjálslyndir í hópinn. Hvor hópurinn um sig e.t.v. 10 - 15% og í miðjunni sitja valdamenn öruggir um að fylkingarnar muni eyða sér.

Þannig er líka þjóðin. Klofin af fáránlegu brölti samfélagsins í kringum gullkálf. Við svona er að búast.


Jóhann - 29/06/11 21:34 #

Það mætti ætla að hin rétta heimsmynd snúist um klerka og vantrúarmenn. Annað hvort eða.

Það er þvættingur, og löngu ljóst að kirkjan grefur sér sjálf sína hvítkölkuðu gröf.

Það sem blasir við, er að alheimur virðist öðru fremur til marks um líf og vitund.

Hvort sú framvinda er tilfallandi eða nauðsynleg staðsetur þann grunn sem ætti að vera álitamálið.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.