Víst er að einhverjir fá hland fyrir hjartað þegar þeir sjá heiti þessa pistils en það er óþarfi því hér er bara um litla grein að ræða til að útskýra nýtt hugtak í íslenskri tungu, hlandspeki. En byrjum á dæmisögu.
Í sögu H.C. Andersens um nýju fötin keisarans benti pjakkur einn á að keisarinn var nakinn. Í ævintýrinu brast stífla við þessa ábendingu og allt fólkið fór að hlæja og gera gys að nekt keisarans, hégóma- og trúgirni hans. Ævintýri eru fyrir börn og enda alltaf vel.
Í raun voru viðbrögð bæjarbúa allt önnur en í ævintýrinu. Fullorðna fólkið hastaði á strákinn og lofaði auðvitað dýrð klæða keisarans. Barnaskólakennari einn vildi koma sér í mjúkinn hjá keisaranum og ákvað að gera sitt til að koma í veg fyrir að yngri börnin færu líka að tala illa um yfirvaldið því hann óttaðist m.a. að þá gæti hann misst vinnuna. Í stað þess að beina augum nemenda sinna að því sem pjakkurinn hafði sagt ákvað kennarinn að beina sjónum nemenda sinna einungis að því hvað pjakkurinn væri mikill dóni og hvert það gæti leitt ef menn kæmust upp með að smána keisarann, upphaf og endi allrar fegurðar, visku og velsældar í samfélaginu.
Kennarinn benti nemendum sínum á að pjakkurinn hefði tekið sér orð í munn eins og "allsber" og "berrassaður", jafnvel sagt vinum sínum að keisarinn væri "kjáni". Svo sagði hann nemendum sínum líka að pörupiltur einn, sem þekkti pjakkinn, hefði meira að segja teiknað skopmynd af keisaranum! Nemendum sínum sagði að hann að slíkt væri klár ávísun á mannréttindabrot og ofsóknir á hendur minnihlutahópum.
En fyrir tilviljun komst pjakkurinn að því hvað kennarinn hafði verið að segja nemendum sínum og bað skólanefndina að taka afstöðu til þess hvort þetta væri í lagi, og það sem verra var, hann sagði hverjum sem heyra vildi hvernig kennarinn hefði talað um hann og að pjakkurinn kynni kennaranum litlar þakkir fyrir baktalið. Formaður nefndarinnar vonaðist hins vegar til að hægt væri að fá þetta mál út úr heiminum og spurði kennarann hvort hann gæti ekki bara viðurkennt að hafa farið yfir strikið, þá væri málið úr sögunni og þarfnaðist ekki afgreiðslu skólanefndar.
En þegar kennarinn heyrði það brást hann ókvæða við, sagði að formaðurinn og skólanefndin hefðu dæmt sig sekan. Eldri starfsbróðir hans sagði að þessi hugmynd formannsins væri ekki aðeins ósiðleg heldur líka aulaleg og heimskuleg. Formaður skólanefndar sá þá sitt óvænna og sagði sig frá málinu og skólastjórinn skipaði nýjan formann í hans stað.
Allt þetta fannst kennaranum auðvitað ákaflega ósanngjarnt og illa gert gagnvart sér svo hann fór á stúfana til að þefa uppi öll þau stóryrði eða lastmæli sem strákurinn, vinir hans og kunningjar hefðu sagt um keisarann eða hirð hans. Þetta lagði hann svo hróðugur fyrir skólanefndina. Svo réði hann sér lögfræðing og sagði gamla og nýja formanninn vera vondan við sig og klárlega á móti sér, sem og skólanefndina alla og því væri hún vanhæf til að fjalla um málið.
En kennaranum þótti ekki nóg að gert. Í skjóli nætur laumaðist hann inn á heimili pjakksins og tók þaðan öll bréf stráksa til vina sinna og frá þeim um hann og kennsluna. Þá þóttist hann heldur betur hafa komist í feitt því með því að semja sína eigin útgáfu á innihaldi bréfanna, ásamt því að tína til einstaka orð og setningar úr bréfunum og leggja fyrir skólanefnd þóttist hann geta sýnt fram á að hann væri fórnarlamb ofsókna stráksins.
Hann fór því þess á leit við nefndina, sem hann sagði vanhæfa, að hún hunsaði "ákærur" pjakksins á grundvelli þess að um hræðilegt einelti gegn sér væri að ræða. Nokkrir samkennarar hans tóku undir þetta harmakvein kennarans, skömmuðu skólastjórann og skólanefnd fyrir mannvonsku og vöruðu við því að pjakkar úti í bæ færu að stjórna kennslu við skólann.
Glöggir lesendur sjá vonandi að í þessu máli reynir kennarinn að forðast málefnið en beinir sjónum sínum að málflytjanda um leið og hann reynir að sverta hann. Þetta kallast ad-hominem-rökvillan og brunnmiga. En þegar menn stunda brunnmigu grimmt verður það að teljast nokkuð langt til seilst að túlka viðbrögð og varnir gegn henni sem ofsóknir á hendur sér.
Sú iðja að fylgjast smásmugulega með viðbrögðum eiganda brunnsins við brunnmigunni, skrásetja aðeins þau hörðustu og túlka á versta veg sem karaktereinkenni brunneigandans kallast hlandspeki. Brunnmiga er ævaforn íþrótt en hlandspeki er tiltölulega ný fræðigrein. Í þessari dæmisögu er sá sem brunnmiguna og hlandspekina stundar einn og sami maðurinn, enda um ævintýri að ræða. Og þar sem hlandspekingurinn í sögunni er bæði einfeldningur og kennari, en óheiðarlegur í þokkabót er líklega réttara að flokka söguna sem lygisögu.
Lygisögu þarf enginn að taka nærri sér en til að fyrirbyggja allan misskilning skal skýrt tekið fram að allar persónur og atburðir í sögunni eru skáldskapur. Telji menn sig sjá einhver líkindi með þeim og raunverulegum persónum, lífs eða liðnum, eða atburðum, orðnum og óorðnum, eru þau tilviljun ein.
Gleggstu lesendurnir sjá að sögulokin vantar. Þar sem það hefur tekið rúmt ár að semja það sem komið er af sögunni ættu menn ekki að búast við sögulokum í bráð.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Kristinn - 08/02/11 11:22 #
Frábær grein.
Sumir hafa smekk fyrir sannleikanum, en ekki í sama mæli fyrir íhaldsseminni, kreddunum og eftirlætinu við ríkjandi bábilju. Til allrar hamingju gæti einhver sagt.
Auðvitað er það hluti af myndinni að við erum ósköp viðkvæm kvikindi sem þurfa á allskyns andlegum hjálpartækjum að halda, en að leyfa sér að halda því fram að vandinn sé sá að strákurinn segi sannleikann er argasta heimska.