Ég hef nokkuð oft undanfarið heyrt fólk spyrja hvernig það skaði börn að hitta presta. Þetta fólk neitar að skilja að málið snýst ekki um þetta. Ég sem foreldri vil einfaldlega hafa frelsi til að velja hvernig trúaruppeldi barnsins míns er háttað. Þetta er alveg nákvæmlega eins og ég myndi ekki vilja að fulltrúar stjórnmálaflokka myndu koma og tala við óhörðnuð börn um kosti sinnar pólitíkur. En eitt dæmi um mögulega skaðsemi prestaheimsókna á börn hefur komið nokkuð ítrekað í höfuðið á mér undanfarið.
Þegar ég var í Gagnfræðiskóla Akureyrar sáu prestar um kristinfræðikennslu fermingarárgangsins. Á þessum tíma var ég reyna að sannfæra sjálfan mig um að ég hefði nú einhverja trú en væri ekki bara að fermast til að falla í hópinn (sem var raunin). Kennarinn í mínum bekk var séra Þórhallur Höskuldsson (faðir Höskulds fyrrverandi Framsóknarformanns) og mér líkaði ágætlega við hann. Vissulega var séra Birgir vinalegri en ég var uppáhaldsnemandi Þórhalls og fékk alltaf tíu á prófum enda hafði ég þá lesið Nýja testamentið nokkrum árum áður og misst við það trúnna (skaðsemi Gídeon þar á ferð). Ég vissi líka hvernig átti að svara klisjuspurningunni "hvaða annan guð dýrka Íslendingar oft í dag?" rétt.
Það er eitt atvik úr þessum kennslustundum sem ég man betur enn önnur. Umræðan fór að snúast um dómsdag. Séra Þórhallur fór þá að tala um að kristnir menn óttuðust ekki dómsdag heldur hlökkuðu til hans. Hann bætti síðan við að hann hefði mjög sterkt á tilfinningunni að dómsdagur yrði meðan hann lifði. Séra Þórhallur var á þessum tíma rétt um fimmtugt og hefur líklega vonast eftir því að lifa í einhverja áratugi í viðbót en hann lést raunar um 2-3 árum eftir þetta.
Nú man ég ekki eftir því að nokkur bekkjarfélagi minn hafi tekið þetta alvarlega en það gæti þó verið. Þarna var hópi þrettán ára barna sagt af manni sem átti að vera sérfræðingur í þessu málum að heimsendir væri í nánd. Er svo fráleitt að ætla að svonalagað gæti valdið allavega andvökunóttum og jafnvel kvíðaköstum eða þunglyndi hjá óhörnuðum unglingum? Ég held ekki.
Ég skrifa þessa grein einungis til þess að nefna þennan möguleika. Trúboðsfrír skóli er spurning um mannréttindi - trúfrelsi - og sá málstaður stendur ekki og fellur með svona sögum. Hins vegar er ágætt að hafa í huga að prestar eiga það til að segja ótrúlegustu hluti ("Heimsendir í nánd!" "Guð hatar homma!" Jólasveininn er ekki til!) þegar þeir komast í návígi við börn og því verður slíkt alltaf að vera á ábyrgð og með samþykki foreldra.
Mér skilst að núverandi prestur á Neskaupstað hafi notað tækifærið í fermingarfræðslunni til að lýsa yfir viðurstyggð á hommum.
Það kemur kannski engum á óvart að fordómar, ofbeldi og einelti gagnvart hommum er algengt á Norðfirði.
Alveg rétt ályktað hjá þér Óli. Það er reyndar fullt af fólk sem er mjög hrætt við heimsenda 2012 út af tímatali Maya og ýmissa bíómynda og bóka sem byggja á því efni. Svo hrætt að það skemmir margt fyrir þeim (getur ekki unnið, sofið og fleira). Þannig að ef fullorðið fólk getur orðið svo hrætt við heimsenda get ég ekki séð annað en að börn geti verið alveg jafn hrædd.
Það á greinilega að gera allt til að koma í veg fyrir þessar þörfu breytingar.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/10/28/afram_samstarf_kirkju_og_skola/
dapurlegt.
Ég get verið sammála þessu hæpóþetical sitsjúeisjóni... það var reyndar í 6-7 bekk sem ég var hreinlega skjálfandi taugahrúga út af mögulegum heimsendi (það var 98-99 og því kannski skiljanlegt) og ég hefði líklega tapað glórunni af hræðslu ef fullorðin manneskja, prestur eður ei, hefði staðfest þetta (var erlendis í 8. bekk og því ófermd).
gös: "Mér skilst að núverandi prestur á Neskaupstað hafi notað tækifærið í fermingarfræðslunni til að lýsa yfir viðurstyggð á hommum.
Það kemur kannski engum á óvart að fordómar, ofbeldi og einelti gagnvart hommum er algengt á Norðfirði."
Rétt er það að presturinn á Neskaupstað hafi lýst yfir andúð eða hatri gegn samkynhneigðum og það oftar en einu sinni.
En vinsamlegast ekki vera með lygar um að ofbeldi og einelti gagnvart hommum sé algengt á Neskaupstað, því þá ertu ekkert skárri en trúarbrögðin. Eina fólkið sem ég hef verið var um með hatur á hommum á Neskaupstað er einmitt einungis það fólk sem er djúpt sokkið í trúarfíknina
@Róbert
Ég veit um tvö dæmi um samkynhneigða Norðfirðinga sem geta ekki hugsað sér að buá þar sökum fordóma.
Afsakið að ég skuli hafa dregið víðari ályktanir af þessu og hegðun prestsins.
Það er rétt að enginn Norðfirðingur sem ég þekki persónulega er fordómafullur í garð samkynhneigðra svo ég viti.
"Trúboðsfrír skóli er spurning um mannréttindi - trúfrelsi..."
Ýmsir prestar hafa mótmælt þessu harðlega og segja að trúfrelsi megi alls ekki túlka sem frelsi frá trú. M.ö.o. hefur hugtakið trúfrelsi þá merkingu í þeirra huga að þeir hafi rétt til að boða sína trú hvar sem er og hvenær sem. Þessi afstaða þýðir í reynd að bannað sé að vera trúlaus! Þetta er auðvitað afskræming á trúfrelsishugtakinu og vitnisburður um þær ranghugmyndir sem margt trúað fólk hefur um ágæti eigin lífsskoðana.
Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.
Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.
Valtýr Kári Finnsson - 28/10/10 14:52 #
Ókey, nú er ég forvitinn. Hvernig svarar maður spurningunni "hvaða annan guð dýrka Íslendingar oft í dag?" rétt?
Er það Mammon?