Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Niðurstaða skýrslu starfshóps um samstarf kirkju og skóla

Forsíða skýrslu

Það er samdóma álit starfshópsins að mikilvægt sé að móta starfsreglur um samstarf leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa. Skólastarf byggir á lögum og námskrám fyrir leik- og grunnskóla og á sama hátt byggir kirkjustarf sem og starfsemi annarra trúar og lífskoðunarhópa á þeim lögum sem þeim eru sett.

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir að allir eigi rétt til að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins og að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Í Mannréttindasáttmála SÞ segir að allir menn skuli frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar. Einnig segir að hver maður er frjáls skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Menntun skal beina í þá átt að þroska persónuleika einstaklinga og innræta þeim virðingu fyrir mannréttindum og mannhelgi. Hún skal miða að því að efla skilning umburðarlyndi og vináttu meðal allra þjóða, kynþátta og trúarflokka. Þar segir einnig að foreldrar skulu fremur öðrum ráða hverrar menntunar börn þeirra njóta og í Barnasáttmála SÞ segir að aðildarríki skuli virða rétt og skyldur foreldra og lögráðamanna, eftir því sem við á, til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum á þann hátt, sem samræmist vaxandi þroska þess. Í Barnasáttmála SÞ segir einnig að aðildarríki skuli tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum, sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. Skal virða rétt barns til frjálsar hugsunar, sannfæringar og trúar.

Íslenskt samfélag hefur á undanförnum árum verið að breytast úr einsleitu samfélagi í fjölmenningarlegt samfélag. Þó að langflestir Íslendingar tilheyri þjóðkirkjunni, fer þeim fjölgandi sem játa önnur trúarbrögð og aðhyllast aðrar lífskoðanir. Skólar, eins og aðrar stofnanir í íslensku þjóðfélagi, verða að mæta þessum breytingum og telur hópurinn því réttara að tala um samstarf leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa fremur en samstarf kirkju og skóla.

Til þess að fyrirbyggja misskilning eða árekstra í skólastarfi er mikilvægt að yfirvöld skólamála í sátt við trúar- og lífsskoðunarhópa og foreldra, seti fram skýr markmið með samvinnu, sem eru öllum kunn, og tilgangurinn með samstarfinu ljós. Foreldrar skulu fremur öðrum ráða hverrar menntunar börn þeirra njóta (Mannréttindasáttmáli SÞ) og virða skal rétt þeirra til að veita barni leiðsögn (Barnasáttmáli SÞ).

Leikskólar starfa samkvæmt lögum 78/1994 og aðalnámskrá leikskóla frá 1999.

Grunnskólar starfa samkvæmt lögum nr. 66/1995 og aðalnámskrá grunnskóla frá 1999.

Hópurinn setur fram eftirfarandi tillögur að stefnu um samstarf leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa.

Tillögur að stefnumótun

Samskipti leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa
Samskipti leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa einkennist af skilningi og virðingu fyrir hlutverki hvors annars. Stofnanir eru meðvitaðar um ólíkar forsendur fyrir starfi hvors annars og virða þau lög, reglur og samþykktir sem í gildi eru fyrir þessar stofnanir og samfélagið í heild.

Hlutverk leik- og grunnskóla varðandi trúarbragðafræðslu
Innan leik- og grunnskóla bera kennarar ábyrgð á kennslu og fræðslu barna um trúarbrögð, lífsskoðanir og kristilegt siðgæði. Lögð er áhersla á að í skólum fer fram fræðsla um mismunandi lífsskoðanir og trúarbrögð en þar er ekki stunduð boðun trúar. Í engum tilfellum er skólastarfi og starfi trúar- og lífsskoðunarhópa blandað saman.

Leik- og grunnskólar hafa því mikilvæga hlutverki að gegna að gera fjölbreytileikann sýnilegan á jákvæðan hátt og rækta með börnum og unglingum umburðarlyndi og skilning. Þess vegna er lögð áhersla á mikilvægi þess að stuðla að samræðu og fræðslu um trúarbrögð almennt í þeim tilgangi að tryggja rétt allra, bæði meiri- og minnihluta, og ala börn og nemendur upp við að virða almenn mannréttindi.

Börnum og unglingum skal ekki mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar
Í leik- og grunnskóla skal börnum ekki mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar þeirra eða foreldra þeirra. Forðast skal aðstæður þar sem börn eru tekin út úr hópnum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samræmast trúar- eða lífsskoðunum þeirra.

Samstarf skóla og trúar- og lífsskoðunarhópa er alltaf á forsendum skólans
Samstarf leik- og grunnskóla við trúar og lífsskoðunarhópa skal vera á forsendum leik- eða grunnskólans og samkvæmt þeim reglum sem skólastjórnendur setja í samræmi við lög og námskrár.

Komi upp ágreiningur um túlkun reglnanna skal beina þeim til Leikskóla- eða Menntasviðs og verða þær meðhöndlaðar skv. verklagsreglu um meðhöndlun kvartana og ábendinga.

Nánari upplýsingar má finna í skýrslu starfshóps um samstarf kirkju og skóla.(.pdf)

Starfshópinn skipuðu:
Kolbrún Vigfúsdóttir, leikskólaskrifstofu Menntasviðs sem var formaður starfshópsins,
Gerður Sif Hauksdóttir, fyrir hönd leikskólastjóra,
Vilborg Runólfsdóttir, fyrir hönd grunnskólastjóra,
Halldór Reynisson, frá Biskupsstofu,
Konný Hákonardóttir, fyrir hönd leikskólakennara,
Guðrún Edda Bentsdóttir, grunnskólaskrifstofu Menntasviðs,
Gerður Gestsdóttir og Sólveig Jónasdóttir (frá 22.01.07), Alþjóðahúsi og
Þórdís Þórisdóttir leikskólaskrifstofu sem var ritari hópsins.


Sjá einnig:
Bókun mannréttindaráðs @ Egill Helgason

Ritstjórn 26.10.2010
Flokkað undir: ( Vísun )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.