Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Prestur bjargar hundi frá glötun

Eftir að gagnrýni Vantrúar á ofurlaunum ríkiskirkjuklerka birtist í fjölmiðlum nýverið stigu mennirnir heilögu fram og kváðu það alveg ótækt að gagnrýna ríkidæmi þeirra, þeir væru jú á vakt allan daginn, tilbúnir að koma fólki í vanda til hjálpar, á hvaða tíma sólarhringsins sem er.

Í fréttum miðvikudaginn 29. október var sagt frá tík einni sem varð fyrir því óláni að falla ofan í gjótu við Búrfell í Hafnarfirði. Eigandi tíkurinnar kallaði vitaskuld á einu viðeigandi hjálpina á þessum tíma; þá aðila þjóðfélagsins sem eru alltaf til taks, á hvaða tíma sólarhringsins sem er allt árið og vinna þar frábært starf í þágu þjóðarinnar, án þess að fá svo mikið sem krónu fyrir.

Hér er auðvitað strax hægt að útiloka ríkiskirkjuklerkana en hér er að sjálfsögðu átt við björgunarsveitirnar - menn sem raunverulega koma fólki til hjálpar ef þörf er á. Þá skiptir ekki máli hvort fólk er fast uppi á jökli, ofan í ískaldri á eða fast undir fargi snjóflóðs.

Samkvæmt upplýsingum úr ársskýrslu Slysavarnarfélagsins Landsbjargar nemur kostnaður við starf þessa frábæra félags næstum 770 milljónum króna á ári. Af þessari fjárhæð kemur aðeins 151 milljón frá skattgreiðendum. Afgangnum er að mestu aflað af félaginu sjálfu með sölu spila og flugelda. Á sama tíma kostar rekstur ríkiskirkjunnar skattgreiðendur um 5000 milljónir króna. Við það bætast svo greiðslur fyrir skírnir, fermingar og giftingar. Í mínum huga er fyrrnefndri fjárhæðinni umtalsvert betur varið.

Já, margur verður af aurum api.

Önnur stétt sem er alltaf á vakt, allan sólarhringinn allt árið, er slökkviliðsmenn. Ætli slökkviliðsmenn séu með 500.000 til 1.000.000 krónur á mánuði? Ég efa það stórlega.

Að lokum hvet ég lesendur til að kaupa tíu Neyðarkalla af Landsbjörg við fyrsta tækifæri, eða bara frjáls framlög, sem nemur andvirði sóknargjalds einstaklings og styðja þessar hetjur.

Sævar Helgi Bragason 03.11.2008
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Geimvera - 03/11/08 12:31 #

Sál heillar þjóðar er mikilvægari en rakki í gjótu.


Valtýr Kári - 03/11/08 14:13 #

Ég er þarna ósammála geimverunni. Ég tel að hundurinn sé miklu mikilvægari, enda er hann raunverulegur og jafnframt er ég mikill hundavinur (nema þegar um er að ræða þessa sígeltandi smáhunda kvikindi, ég þoli þá ekki).


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 03/11/08 19:14 #

Sál heillar þjóðar já. Það er ekkert annað!

Þú heldur þó ekki að ef það væri ekki fyrir einhverja presta að ´´sál þjóðarinnar´´ myndi gefa upp öndina??

Er ´´sænska þjóðarsálin´´ þá ekki til?? Eða er hún ill??

Svo má líka alveg nefna það að prestar meiga gera það sem þeir geta og vilja (svo lengi sem þeir fara ekki í skóla að boða trú og aðra svoleiðis siðleysu) til að halda ´´sál þjóðarinnar´´ við en þurfa þeir virkilega að fá svona mikla peninga fyrir það??? Eru laun þeirra hvort sem er ekki á himnum í ríki drottins??

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.