Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Bræðralag múslima

Muslim BrotherhoodÍ vor fór ég á Sjöttu Cairo-ráðstefnuna um lýðræði og frið í Mið-Austurlöndum. Hún var um margt athyglisverð. Þar leiddu þeir hópar saman hesta sína, sem eru áfram um lýðræði og frið – eða, öllu heldur, þeir hópar sem mest andæfa þeim sem ógna lýðræði og friði í heimshlutanum. Ógnirnar koma fyrst og fremst frá vestrænni heimsvaldastefnu og austrænum ríkisstjórnum og andófið gegn þeim kemur einkum frá arabískum þjóðernissinnum, sósíalistum og íslamistum. Það voru s.s. þær þrjár fylkingar sem mest bar á á þessari ráðstefnu. Að sönnu athyglisverð blanda.

Ég halla ekki á neinn þótt ég segi að Bræðralag múslima hafi verið mest áberandi á þessari ráðstefnu. Ég hef verið gagnrýndur fyrir að sitja ráðstefnu með helfararafneitandi íslamistum, eins og það geri mig að einum þeirra, þannig að mér er bæði ljúft og skylt að deila því með lesendum Vantrúar, hvernig Bræðralag múslima kom mér fyrir sjónir frá fyrstu hendi.

Sá sem tekur ekki mark á öðru en vestrænum fjölmiðlum fær þá hugmynd um Bræðralagið, að það sé bannað vegna þess að það sé mjög róttækt, herskátt og hættulegt. Það má alveg segja að það sé frekar róttækt, a.m.k. miðað við stærstu trúarhreyfingar í Evrópu. Það er hins vegar ekki sérlega herskátt. Hins vegar er það líklega hættulegt, en tæpast í þeim skilningi sem maður fær af lestri vestrænna fjölmiðla.

Byrjum á banninu. Pólitískt er Bræðralagið vissulega andófsafl og vinnur gegn ríkisstjórninni, og er þess vegna bannað. Í Egyptalandi þýðir bann við starfsemi stjórnmálaflokks hins vegar ekki að hann verði að hafast við neðanjarðar eða þykjast ekki vera til. Til dæmis er Kommúnistaflokkurinn líka bannaður, en rekur samt skrifstofur og gefur út blöð og annað efni, án þess að amast sé við. Sama gerir Bræðralagið. Bannaðir flokkar geta m.ö.o. starfað fyrir opnum tjöldum og bannið þýðir ekki annað en að þeir mega ekki bjóða sig fram til þings sem flokkar – bara sem „óháðir“ frambjóðendur. Ritskoðun í Egyptalandi er heldur ekki svo ströng: Umfjöllun um herinn er stranglega ritskoðuð, en annað er meira og minna hægt að prenta athugasemdalaust.

Róttækni Bræðralagsins birtist í því að vilja koma á íslamskri samfélagsskipan í stað þess tiltölulega borgaralega skipulags sem ríkir í Egyptalandi. Eftir því að dæma, sem þeir sögðu mér sjálfir, þá vilja þeir ekki gera þetta með því að ræna völdum og neyða alla til að taka upp sína hætti, heldur með því að sýna gott fordæmi og sannfæra fólk þannig um að vegur spámannsins sé sá eini rétti. M.ö.o. ekki neyða fólk, heldur laða það til þeirrar breytni sem þeir telja rétta. Þetta er það sama og Hamas-samtökin (sem eru skyld Bræðralaginu) segjast vilja í Palestínu. Nú verður hver og einn að meta fyrir sig hvort hann trúir orðum þeirra eða ekki, en fyrir mitt leyti þá held ég að þeir segi satt um þetta (án þess að ég sé algerlega sannfærður um það). Þá dreymir um endurreist, sam-múslimskt kalífadæmi þar sem lög Kóransins eru ríkjandi. Ég átta mig ekki á hversu stranga eða frjálslega túlkun þeir leggja í þau – hvort tveggja er til og rúmast ágætlega innan íslamskrar lögspeki. Kannski eru þeir ekki með fastmótaða línu í þeim efnum; ég veit það ekki.

Til að fyrirbyggja vísvitaða mistúlkun, þá tek ég það fram til öryggis að mér býður að sjálfsögðu við þessum hugmyndum. Þeir ímynda sér að ef þjóðfélagið sé byggt á íslam, þá muni ranglæti og ójöfnuður hverfa og allir verða sáttir og saddir og sælir. Í stuttu máli sagt þá trúi ég því ekki. Einn ungur Egypti reyndi að sannfæra mig um þetta og ég mótmælti og við rökræddum allt frá auðvaldsskipulagi, díalektískri efnishyggju og trú vs. trúleysi til pólitískrar hagfræði, heimsvaldastefnu, stjórnlistar og aðferðafræði. Það var meira en klukkustundar rökræða og fór fram á þýsku. Mig skorti ýmislegt í orðaforðann og hann í málfræði og framburð, svo þetta var dálítið skondið. Honum fannst ég vera skýjaglópur og mér fannst hann vera skýjaglópur, en eftir þessa rökræðu finnst mér ég átta mig aðeins betur á því hvers vegna vegn ég er ekki hrifinn af íslamisma.

Þessi þýskumælandi piltur var síður en svo sá eini sem ég ræddi við um íslamisma. Bræðralaginu var greinilega mikið í mun að kynna málstað sinn, og þeir voru bæði margir og vel skipulagðir. Talsmenn þeirra skiptu tugum, snyrtilega klæddir, flestir mæltir á þokkalega ensku og með möppur með kynningarefni til að dreifa til viðmælenda sinna. Svo ég taki ekki dýpra í árinni, þá voru þeir einum of uppáþrengjandi fyrir minn smekk, en minntu mig meira á Votta Jehóva eða slíkar pirrandi týpur heldur en þá óðu vitfirringa sem fjölmiðlar segja okkur að þeir séu.

Efst á kransakökunni trónir eftirminnileg fígúra: Mohammed Mahdi Akef, formaður Bræðralagsins, ávarpaði ráðstefnuna. Tveir menn studdu hann, hruman roskinn karl, upp í ræðustólinn, en þegar þangað var komið var eins og hann umbreyttist og hélt einhverja flottustu ræðu sem ég hef heyrt. Eða réttara sagt, þá sagði hann í aðalatriðum það sama og fleiri ræðumenn höfðu gert, en það var ræðustíllinn sem var eftirminnilegastur. Hvernig hann þrumaði, notaði nákvæmlega mátulega miklar handahreyfingar, dró seiminn á réttum stöðum og greip til góðra líkinga. Hér hlýtur það að freista einhverra að hugsa til Hitlers. Sú samlíking er ágæt að því leyti að ræðumennska beggja er eftirminnileg, en nær nú ekki lengra en það.

Tal um hættu af völdum Bræðralags múslima er á misskilningi byggt. Þeir eru hættulegir, en ekki á þann hátt sem ég hélt einu sinni. Fyrir það fyrsta eru þeir ekki hryðjuverkasamtök, og það er ekki þeim að kenna þótt einhverjar hryðjuverkaárásir hafi verið gerðar af mönnum sem aðhyllast íslamisma. Þeir styðja vopnaða andspyrnu í Írak og Palestínu og annars staðar þar sem heimsvaldastefnu er veitt viðnám, en það er engin synd. Það er nú einu sinni réttur hersetinnar þjóðar að veita viðnám, hvort sem það er með vopnum eða án, og gerir menn ekki herskáa að kannast við þann rétt.

Hættan er í stuttu máli sú að þeir eru glórulaust og gagnbyltingarsinnað afturhald. Þeir eru fjöldahreyfing og hafa komið að skipulagi gríðarstórra fjöldafund og mótmæla, gjarnan í samfloti við aðrar hreyfingar t.d. óháðra verkalýðsfélaga eða sósíalista. Þeir hafa tekið fullan þátt, farið mikinn og rifið kjaft, en um leið og lítur út fyrir að slái í brýnu við lögregluna, þá eru þeir á bak og burt og skilja hina eftir. Með öðrum orðum, þá eru þeir hæpnir bandamenn og etja samherjum sínum út í ógöngur og skilja þá þar eftir. Þetta hefur gerst aftur og aftur í mótmælum og kröfugöngum í Egyptalandi. Tilfellið er nefnilega að Bræðralagið sækist ekki eftir að gera byltingu og vill fyrir enga muni að einhverjir kommar geri það. Þeir vilja, þvert á móti, hasla sér völl sem stjórnmálaafl í Egyptalandi og fá viðurkenningu valdastéttarinnar á erindi sínu og hlutverki. Þeir vilja, m.ö.o., umbætur í íslamska átt. Til að það megi verða þurfa þeir vitanlega fyrst að vinna sér pólitískan höfuðstól og bakland og afla sér nægilegra óformlegra valda til þess að yfirvöld vilji frekar semja við þá en berjast gegn þeim. Þannig er þeim í mun að sýna að það sé hægt að semja við þá og klípa broddinn af annars góðum mótmælum aftur og aftur af tækifærisstefnu. Það er sá fiskur sem liggur undir steini hjá Bræðralaginu.

Ef það yrði uppreisn – eða bylting – í Egyptalandi (og miðað við þróun þjóðfélagsins og stjórnmálaástandsins þar undanfarna áratugi er það alls ekki ólíklegt), þá gætu þeir ef til vill orðið skeinuhættir sem fimmta herdeild í herbúðum uppreisnarmanna. Í því samhengi má minnast byltingarinnar í Íran, þar sem róttækir íslamistar hrifsuðu til sín völdin, brutu framfaraöflin á bak aftur og þvinguðu sínum skipulagi upp á þjóðina. Ég spurði marga egypska byltingarsinna út í hvað þeir héldu um þetta, og þeim fannst öllum að þessi atburðarás væri ósennileg. Ég ætla ekki að þykjast vita betur en heimamenn um þetta, en grunurinn víkur samt ekki frá mér og ég vona innilega að egypsk alþýða beri gæfu til að halda öruggri fjarlægð.

Að þessu öllu sögðu get ég ekki sleppt því að nefna Bræðralag múslima og afstöðuna til gyðinga. Ég varð ekki var við beint gyðingahatur hjá þeim. Hins vegar eru þeir mjög miklir andstæðingar zíonismans og holdtekju hans, Ísraelsríkis. Það er háttur zíonista að segja að andstæðingar zíonískrar kynþátta/trúrembu/júðernishyggju séu ekki annað en óþvegnir gyðingahatarar. Þá dellu nenni ég ekki að fjölyrða um. Hinu er auðvitað ekki hægt að neita, að allir hugmyndafræðilegir straumar eiga sína bjána, rudda og ómerkinga sem andstæðingarnir benda á sem dæmigerða fyrir stefnuna sem slíka. Í meðförum slíkra tekur baráttan fyrir réttindum Palestínumanna því miður stundum á sig óviðkunnalega mynd. Nefnt hefur verið að Bræðralag múslima afneiti til dæmis helförinni. Ekki varð ég sérstaklega var við það á ráðstefnunni, en það getur vel verið. Til að gæta sanngirni ber reyndar að nefna að það er líka háttur zíonista að kalla þá helfararafneitara sem hafa gagnrýnt eða vakið athygli á því hvernig zíonistar sjálfir hafa haft helförina að peningalegri og pólitískri féþúfu á ógeðfelldan hátt.

Hvað sem helfararafneitun líður, þá getur óvönduð gagnrýni á ranglæti zíonismans svo sannarlega verið vandræðaleg. Þannig héngu t.d. uppi ósmekklegar skopmyndir sem voru fyrir neðan virðingu eðlilegrar andófsbaráttu, þar sem auðvelt var að rugla saman þjóðinni og þjóðrembunni. Ekki voru þessar myndir allar á vegum Bræðralagsins, og þeir gættu þess alltaf að taka fram að þeir hefðu ekkert á móti gyðingum sem slíkum heldur væri það stjórnmálastefnan zíonismi sem þeir væru á móti. Ég veit því ekki alveg hvað skal segja um ásakanir um gyðingahatur, annað en að mér sýndist þær ásakanir ekki vera alveg úr lausu lofti gripnar, þótt þær hafi samt virst vera ýktar. Það er heldur ekki skrítið að subbuleg atriði séu gripin á lofti og vakin sérstök athygli á þeim þegar samtök eins og Bræðralag múslima eru annars vegar.

Ég þykist ekki vera einhver sérfræðingur í Bræðralagi múslima. Það sem hefur komið fram hér að ofan er að mestu leyti frásögn af því hvernig þeir komu mér fyrir sjónir. Þeir voru ekki ógnandi en þeir voru pirrandi. Mér skildist að þeir væru séu hættulegir í skilningi Morgunblaðsins, en séu það hins vegar á annan hátt. Stefna þeirra á eitt og annað sameiginlegt með öðru andófi gegn ríkjandi öflum, en hún er að miklu eða mestu leyti afturhaldssöm og ósniðug að binda trúss sitt við. Ég er feginn því að hafa verið með þeim á ráðstefnu, séð þá með eigin augum og fengið aðeins upplýstari hugmynd um hvernig þeir eru í alvörunni. Þeir hafa fengið slæma pressu í vestrænum fjölmiðlum, en hún hefur ekki verið slæm af réttum ástæðum.


Birtist upphaflega á Egginni þann 3. september sl.

Vésteinn Valgarðsson 17.09.2008
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú , Íslam )

Viðbrögð


gimbi - 17/09/08 20:39 #

Þetta var stórkostlega hressileg lesning. Það er alltaf gaman af svona sjónarhornum.

Ekki vissi ég að bræðralagsmál í Egyptalandi væru svona málum blandin. Hvern hefði grunað það!?

...en, hver var punkturinn?

Eru þetta bara góðir gaurar?


Svanur Sigurbjörnsson - 18/09/08 12:16 #

Takk fyrir þessa frásögn Vésteinn. Það er mjög virðingarvert og hugrakkt af þér að fara og kynna þér málin þar sem þau krauma. Mér sýnist þú reyna talsvert að gefa Bræðralagi múslima allt gott álit sem þú mögulega getur og er það fínt en ég er ekki viss um að þú sjáir nógu djúpt undir yfirborðið. Pólitísk stefna sem er í eðli sínu kúgunarstefna (sharia lög) þó að hún segi ekki opinberlega að hún muni beita ofbeldi, er mjög skammt frá því að munda sverðin eða taka yfir með þvingunum. Ég er ekki sammála túlkun þinni á rétti hersetinna þjóða til að verja sig með hernaði. Það er langt í frá að stríðið í Írak sé eingöngu stríð við USA. Hersetin þjóð getur kosið að leysa vandamál sín friðsamlega og gera það besta úr stöðunni, en þess í stað velur hún í tilviki Írak að fara í rætna valdabaráttu innbyrðis. Innrásin í Írak var klárlega mistök því þjóð sem þekkir ekki lýðræði og hefur engar undirstöður til þess, verður ekki lýðræðisríki með hernaði. Vandamálin bara stækka. Þetta vissi Thomas Jefferson en viska hans er því miður gleymd að mestu í USA. Takk annars fyrir fróðlega frásögn.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 18/09/08 22:34 #

Ég átta mig ekki alveg á því hvernig þið sjáið jákvæða lýsingu út úr skrifum mínum. Ég hef ekki jákvæða mynd af Bræðralaginu, þótt ég vilji að þeir njóti sannmælis.

Það þarf ekki að útskýra fyrir mér að sharía-lög séu varasöm. Ég tók meira að segja fram í greininni að mér "byði við slíkum hugmyndum".

Það er ekki "túlkun mín" að hersetnar þjóðir hafi rétt á að veita vopnað viðnám. Sá réttur er skýr í alþjóðalögum. Það vill svo til að ég er sammála alþjóðalögum í þeim efnum, eins og ýmsu öðru. Það er aftur taktísk spurning hvort vopnuð andspyrna er réttur leikur í stöðunni hverju sinni eða ekki. Ég álít að hún sé mjög vandmeðfarin.

Að síðustu vil ég segja að auðvitað "færir" enginn neinum lýðræði utanfrá með vopnavaldi. Lýðræði kemur neðan frá, frá fólkinu sjálfu. Innrás Bandaríkjanna í Írak hafði ekki neitt með lýðræði að gera.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.