Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gjaldið kirkjunni það, sem keisarans er.

Nýlega hefur verið fjallað svolítið í fjölmiðlum um bréf Eiríks Sigurbjörnssonar, sjónvarpsstjóra Omega, þar sem hann virðist lofa ansi miklu ef fólk styrkir stöðina. Ég hef ekki séð þetta bréf og get ekki rætt um það, hins vegar sá ég viðbrögð Hjálmars Jónssonar, þjóðkirkjuprests, á baksíðu DV frá 19. júní.

„[Hjálmar] sagði þetta ákaflega dapurlegt og sýna í hnotskurn af hverju fólk vilji þjóðkirkju. Hér á landi og á hinum Norðurlöndunum þar sem eru þjóðkirkjur, séu þær fjármagnaðar með öðrum hætti og því lítið um fjármögnun sem þessa á meðan slíkt sé mjög umfangsmikið í Bandaríkjunum til dæmis“

Nú er þetta ekki bein tilvitnun í Hjálmar, þannig að ef til vill er þetta ekki nákvæm lýsing á því sem hann sagði í raun og veru.

Það er beinlínis rangt að „fólk vilji þjóðkirkju“, kannanir Gallups síðustu fimmtán árin hafa sýnt að tveir þriðju hluta Íslendinga vilja aðskilnað ríkis og kirkju .

En er lausnin á peningasugum eins og sjónvarpsstöðinni Omega að setja hana á fjárlög, eins og með Þjóðkirkjuna? Ef Omega fengi 5 milljarða á ári eins og eitt trúfélag þá er ég nokkuð viss um að þær væru ekki að senda út ansi ógeðfelld bréf [1].

Ég held að lausnin væri sú að gera fólk ónæmt fyrir svona boðskapi með því einfaldlega að hjálpa því að átta sig á því að guð muni ekki hjálpa þeim ef þau gefa Omega pening einfaldlega vegna þessa að guð er ekki til.

Það sorglegasta við þetta er líklega sú staðreynd að svona hálfgerðar hótanir [2] eins og finnast í málflutningi Omega-manna eru mjög biblíulegar. Í Postulasögunni er saga sem er líklega ekki mjög vinsæl í sunnudagaskólanum. Fyrir þá sem hafa gaman af myndrænni framsetningu er hægt að lesa söguna í Legó-biblíunni: „Accept Communism or Die“ annars er íslenski textinn þessi:

Eigi var heldur neinn þurfandi meðal þeirra, því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til. Jósef levíti, frá Kýpur, sem postularnir kölluðu Barnabas, það þýðir huggunar sonur, átti sáðland og seldi, kom með verðið og lagði fyrir fætur postulanna.En maður nokkur, Ananías að nafni, seldi ásamt Saffíru, konu sinni, eign og dró undan af verðinu með vitund konu sinnar, en kom með nokkuð af því og lagði fyrir fætur postulanna. En Pétur mælti: ,,Ananías, hví fyllti Satan hjarta þitt, svo að þú laugst að heilögum anda og dróst undan af verði lands þíns? Var landið ekki þitt, meðan þú áttir það, og var ekki andvirði þess á þínu valdi? Hvernig gastu þá látið þér hugkvæmast slíkt tiltæki? Ekki hefur þú logið að mönnum, heldur Guði." Þegar Ananías heyrði þetta, féll hann niður og gaf upp öndina, og miklum ótta sló á alla þá, sem heyrðu. En ungu mennirnir stóðu upp og bjuggu um hann, báru hann út og jörðuðu. Að liðnum svo sem þrem stundum kom kona hans inn og vissi ekki, hvað við hafði borið. Þá spurði Pétur hana: ,,Seg mér, selduð þið jörðina fyrir þetta verð?" En hún svaraði: ,,Já, fyrir þetta verð." Pétur mælti þá við hana: ,,Hvernig gátuð þið orðið samþykk um að freista anda Drottins? Þú heyrir við dyrnar fótatak þeirra, sem greftruðu mann þinn. Þeir munu bera þig út." Jafnskjótt féll hún niður við fætur hans og gaf upp öndina. Ungu mennirnir komu inn, fundu hana dauða, báru út og jörðuðu hjá manni hennar. Og miklum ótta sló á allan söfnuðinn og alla, sem heyrðu þetta. (Postulasagan (4:34-5:11))

Þessi saga er auðvitað ekki sönn. Guð drepur ekki fólk þegar það svíkur pening undan kirkjunni. En aðalatriðið er ekki það hvort þetta gerðist eða ekki, heldur hvaða hlutverki svona saga gegndi.

Það eru auðvitað fleiri svipaðar sögur, til dæmis er krökkum stundum sagt að stelpa eða strákur hafi einu sinni grett sig svo mikið að grettan festist. Boðskapurinn er auðvitað sá að gretta sig ekki.

Sagan af skötuhjúunum Ananías og Saffíru hefur auðvitað svipað hlutverk. Boðskapurinn er sá að þú eigir að selja eigur þínar og gefa kirkjunni peninginn og ef þú svíkur kirkjuna, þá drepur þig!

Á baksíðu DV kom fram að Hjálmar þjóðkirkjuprestur fannst bréf Eiríks vera „að minnsta kosti ósmekklegt“. Ég veit ekki til þess að Eiríkur hafi sagt að guð dræpi fólk sem gæfi Omega ekki pening. Þannig að ef Hjálmar ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér þá hlýtur honum að finnast Postulasagan vera virkilega ósmekkleg.


[1] sjá td fréttabréf Omega maí 2006, http://omegatv.is/frettir/frettabrefmai2006.htm og júní 2006 http://omegatv.is/frettir/frettabrefmai2006.htm [2] ibid.júní “ Okkur hafði aldrei órað fyrir því, hvað óhlýðni varðandi tíund getur hindrað mikla blessun. Við höfðum ekki áttað okkur á því, hversu heimskulegt það er að halda frá Drottni, því sem Hann á.“

Hjalti Rúnar Ómarsson 25.06.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 25/06/07 08:38 #

-Þjóðkirkjuliðið mun nú ekki eiga í neinum vandræðum með að túlka þessa sögu allegórískt og finna einhvern sálfræðilegan vinkil á sögunni sem "hver og einn getur tekið til sín".

Gott dæmi um þetta er viðureign Skúla úr KEF við Vantrúarfólk. Þar var "eldsofnin" hans Jesúsar ekki í rauninni eldsofn heldur tákn um syndir. Þetta er ferlega fyndin skýring sérstaklega í ljósi þess að sagan er samin fyrir fákunnandi áheyrendur frá bronsöld sem hafa örugglega ekki hugmyndaflug í djúpar sálfræðilegar / persónulegar túlkanir a la Ríkiskirkjan.

Ágætu lesendur. Lesiði Biblíuna! -það er besta leiðin til að verða trúleysingi...


Trúi á Jesu - 25/06/07 11:49 #

Sagan af skötuhjúunum Ananías og Saffíru gegnir hefur auðvitað svipað hlutverk. Boðskapurinn er sá að þú eigir að selja eigur þínar og gefa kirkjunni peninginn og ef þú svíkur kirkjuna, þá drepur þig! Þessi fullyrðing er auðvita raung og sýnir ykkar skilningsleisi á orði Guðs.Ekki við öðru að búast. Það sem sagan er að kenna mönnum er það sem þú ásetur þér i hjarta að gera , það skaltu gera.í fyrsta lagi var Ananías ekki neidur eða skuldbundin til að selja landið sitt.Hann gerði það til að vera samhuga í því verki sem var verið að vinna en þegar hann sér hvað hann fær mikinn pening út úr landi sínu tekur græðgin við og hann ákveður að stinga undan með fyrgreindum afleiðingum.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 25/06/07 12:17 #

HA! Kallast það græðgi að selja landið sitt - gefa kirkjunni meirihlutann af andvirðinu og halda síðan einhverju eftir sjálfur?!?

Þetta er svo mikill della - Gvuðinn þinn drap þau vegna þess að þau gáfu ekki ALLT en héldu einhverju fyrir sjálfan sig. Siðferðisboðskapur þessara sögu er fyrir neðan allar hellur og síðan kemur "Trui á Jesu" og reynir að halda uppi einhverjum vörnum fyrir svona kjaftæði.

Dæmir hver fyrir sig en hver manneskja sem er á hærra siðferðisplani en bronskarlarnir sem skrifuðu þetta sér hverskonar grimd og óréttlæti er um að ræða.


Kristján Hrannar Pálsson - 25/06/07 12:53 #

Við hvað á að miða réttan skilning?

Við getum lesið Grimmsævintýrin á óteljandi mismunandi hátt. Í Hans og Grétu get ég lesið athæfi föðursins, að skilja börnin eftir úti í skógi til að deyja sem svívirðilega synd, eða symbolískt tákn um vonleysi þess manns sem sér enga aðra leið úr ógöngum sínum (hvort það sé óhlýðni hans við einhvern Guð eður ei skal ósagt látið.)

Á sama hátt get ég snúið út úr öllum Biblíusögunum hvort sem það er kristninni til góðs eða ekki. Mér finnst alltaf eins og trúmenn reyni að sjá hið besta í þeim og geri nær hvað sem er til að verja hinar og þessar sögur, í stað þess að viðurkenna fáránleikann í þeim.


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 25/06/07 16:25 #

-Sammála Kristjáni. Skoða ber einnig, eins og ég benti á í fyrra innleggi mínu, að þessar sögur eru ritaðar fyrir fávíst bronsaldarfólk. Trúmenn segja sjáfsagt á móti að "sögurnar tali inn í samtíma sinn", hver sem hann kann að vera...

Sem er fínt í sjálfu sér. Mér er fullkomnlega sama hvað fólk leggur trúnað við. það má vera Kóranin, Biblían, gamalt gúmmídekk eða Sinclair Spectrum tölva. -Mér er hjartanlega sama! Alveg ofboðslega sama satt best að segja.

Það er hinsvegar óþolandi þegar þetta ríkskirkjufólk er að troða sínum hindurvitnaboðskap inn á börnin mín! Hvernig dettur þessu fólki þetta í hug! Vitnar það kannski í texta í biblíunni? Texta sem það túlkar EKKI.

Sumt er túlkað, annað ekki! Hvernig skyldi standa á því? Það er eins og túlkunarslykjan fari bara á "óþægilegu ritningarstaðina"! hvernig má það vera?


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 25/06/07 16:50 #

-Finnst ykkur þetta ekki vera ógeðfelt?


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 25/06/07 18:23 #

Hafið þið einhvern tímann pælt í því hvernig allir þessir trúarsöfnuðir lifa sníkjulífi á meðlimum sínum? Sama mynstrið má finna hjá þeim öllum. Ákveðin forréttindastétt í söfnuðunum, sem er yfirleitt sérstaklega blessuð af yfirnáttúrulegum öflum, hvetur hjörð sína í sífellu til að gefa söfnuðinum (lesist sér) peninga til að njóta blessunar.

Þjóðkirkjan er ekkert skárri en aðrir söfnuðir að þessu leiti. Þeir sníkja og snapa sér peninga hvar sem því verður við komið, ásamt því að hamra sífellt á sérstöðu sinni og mikilvægi þess að ríkið haldi úti þessu trúfélagi og haldi áfram að ausa milljörðum árlega í þessa botnlausu hít.

Allt til að halda úti einhvers konar forréttindastétt sem lifir á því að ljúga að fólki. Þetta eru mestu og langlífustu fjársvik sögunnar og ekkert virðist geta stoppað þennan ófögnuð.

Ég bið hina trúuðu að hugsa um þetta. Hvað í ósköpunum á guð að gera við peninga? Hann getur skapað peninga ef hann þarf á þeim að halda, ekki satt? Þessi tíundarregla var gerð til skapa prestunum tekjur svo að þeir geti lifað í vellystingum á trúgirni fátækra.

Jú, Khomeni þetta er ógeðfellt, siðlaust og í alla staði viðbjóðslegt.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 25/06/07 18:32 #

Ég ætlaði að bæta því við að þessar trúarreglur skapa engin verðmæti eða neitt sem getur réttlætt fjáraustrið. Þeir koma sér undan öllu slíku með því að þykjast koma fólki inn í gott framhaldslíf. Held að mestu fjársvikarar gætu ekki haft svo gott hugmyndaflug, að lofa fólki öllu fögru eftir að það er dautt.

Fullkomin svikamylla, ef hægt er fá fólk til að trúa á vitleysuna sem þessir hrappar boða.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 25/06/07 23:28 #

Trúi á Jesu

Það sem sagan er að kenna mönnum er það sem þú ásetur þér i hjarta að gera , það skaltu gera. í fyrsta lagi var Ananías ekki neidur eða skuldbundin til að selja landið sitt.Hann gerði það til að vera samhuga í því verki sem var verið að vinna en þegar hann sér hvað hann fær mikinn pening út úr landi sínu tekur græðgin við og hann ákveður að stinga undan með fyrgreindum afleiðingum.

Eins og Jón Magnús bendir réttilega á þá er einn gallinn á þessari túlkun þinni sá að hjónin voru alls ekki gráðug. En ímyndum okkkur að Eiríkur hefði sett svona sögu í bréfið sitt:

Um daginn sagðist maður ætla að selja húsið sitt og gefa Omega allan peninginn. Honum tókst fljótlega að selja það og gaf Omega 30 milljónir. En þar sem ég þekki fasteignasalann sem sá um söluna komst ég að því að hann hafði í raun grætt 40 milljónir. Ég hringdi því í hann og spurði hvort hann hafi gefið okkur allan peninginn. Hann endurtók lygina. Þá sagði ég honum að með því að svíkja Omega hefði hann í raun verið að svíkja guð. Ég heyrði ekkert svar. Ég frétti síðan af því að hann hefði fundist látinn við símann.

Myndi einhver halda því fram að boðskapurinn væri sá að maður ætti að gera það sem maður ásetur sér eða þá að maður eigi ekki að vera gráðugur? Auðvitað ekki, en eins og Kristján Hrannar bendir réttilega á, þá er hægt að mistúlka allt ef viljinn er fyrir hendi. En við hljótum að geta séð að sumar túlkanir eru réttari en aðrar.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 26/06/07 00:02 #

Fyrir það fyrsta þá finnst mér ummæli Hjálmars Jónssonar þjóðkirkjuprests afar undarleg þegar hann segir að það sýni í hnotskurn af hverju fólk vilji þjóðkirkju eftir að betlismál Eiríks hjá Omega komst í hámæli. Sé ekki tengslin. Myndi frekar ætla að fólk vildi bara engar kirkjur og væri orðið hundleitt á þessum kirkjurekstri og öllu röflinu þar yfir höfuð. Svo maður tali nú ekki um fjáraustrið í þjóðkirkjuna sem mætti nýta til þarflegri hluta.

Varðandi tíundina sem talað er um í biblíunni, þá átti fólk að leggja hana í guðsríki, sem sagt til þeirra sem áttu erfitt og þörfnuðust hjálpar en ekki til kirkjubygginga eða til að greiða laun presta og forkólfa trúarsafnaða. Hvergi er minnst á kirkjubyggingar og skraut sem fylgir, eða einhverjar launagreiðslur til að borga af bílum fyrir tíundina svo ég muni. Það er heldur ekki talað um að guðsríki sé bygging, eða Armani jakkaföt og heldur ekki happdrættismiði þar sem eru engin núll og allir geta unnið bíl..... svo ég muni.

Þannig að skrítin er nú túlkunin á biblíunni myndi ég segja þegar peningarnir og eignirnar eru farnar að snúast um guðsríki.

Svo forkólfar sértrúarsafnaða og Omega eru búnir að snúa tíundinni við. Þeir taka tíund frá veiku og viðkvæmu fólki sem þarf hjálp og setja hana í launagreiðslur, húsakynni og flottheit undir rassgatið á sjálfum sér.


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 26/06/07 00:38 #

Varðandi Hjálmar dómkirkjuprest þá má geta þess að hann er með yfir miljón krónur á mánuði í laun frá hinu opinbera fyrir það að túlka biblíuna eftir því sem hentar hverju sinni. Yfir miljón krónur og launahærri en sjálfur yfirstrumpur ríkiskirjunnar, biskup Íslands. Mér finnst alltaf svolítið fyndið að heyra þessa ofurlaunamenn tala fjálglega um "græðgisvæðinguna" eins og hún væri eitthvað sem þeir hefðu ekki hugmynd um að ætti sér fasta búsetu í hugum þeirra sjálfra... :)

Þessir forkólfar sértrúarhreyfinga eru í mínum huga haldnir einhverskonar mikilmensku komplex eða jésú-komplex / mannkynsfrelsara-komplex. Svívirðilegir andskotar sem skirrast einskis í mannlegum breyskleika. Ganga jafnvel svo langt að seilast í örorkubætur geðsjúklinga (guði til dýrðar...) Gunnar var nú staðin af slíkri óhæfu og eins og samviskulaus siðleysingi afsakaði hann þetta níðingsverk með tilvitnunum í "hina helgu bók". Mér býður við svona hyski

Ef svo ólíklega vill til að til sé einhverskonar guð sem er staðsettur í einhverskonar yfirnátturu, og með Jesús við hlið sér og eldsofnin hans Jesúsar þeirra í milli. Þá er ég þess fullviss að Gunnar í Krossinum fer beinustu leið í eldsofnin fyrir óhæfuverk sín og samviskuleysið, hatursboðskapinn og svívirðuna.

Ég er þess fullviss að um leið og Gunnar hittir guðinn sinn... - verður heimurinn að örlítið betri stað.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 26/06/07 01:49 #

Ég vildi óska þess að fólk færi að koma fram með sínar sögur um það hvernig það varð sértrúarsöfnuðum að bráð og hvað fór fram þar. Fullt af fólk sem komst í burtu frá þessu en finnst kannski erfitt að tala um það opinberlega vegna þess að það skammast sín fyrir að hafa látið fara svona með sig. Mér finnst þetta fólk myndi þó gera öðrum stórgreiða með því að segja sína sögu.

Einnig ættu þau samtök sem vinna að geðverndarmálum að láta meira í sér heyra. Hafa lent í mesta basli við svona trúarofstækislið og ekki hvað síst peningalega vegna skjólstæðinga sinna sem hafa skrifað upp á framfærslu handa forkólfum trúarsafnaða þótt það hafi varla átt fyrir því. Þeir hafa gert ótrúlega ljóta hluti og ómannúðlega.

Kona sem er tengd í mína fjölskyldu fór í Krossinn fyrir einhverjum árum. Hún var talsvert í drykkju og var að reyna að ná sér út úr henni, ný skilin við barnsföður sinn og leið ömurlega illa. Hún átti litla dóttur 3ja ára. Hún fór á samkomu af tilstuðlan einhverrar konu úr Krossinum. Hún komst þar í trúarvímu eins og hún sagði sjálf seinna og var á bleiku skýi í nokkra mánuði. Kynntist manni í Krossinum ógiftum og var gift honum 2 mánuðum síðar. Hún var mikið í djöfladýrkun á samkomunum eins og hún sagði frá seinna og einnig maðurinn hennar þar sem samkomurnar gengu mikið út á að reka út illa anda úr fólki og úr sjálfum sér.

Stelpan hennar litla var fjörkálfur og bráð skemmtilegur krakki. Eitthvað fór þetta fjör fyrir brjóstið á nýja manninum. Nótt eina vaknaði vinkonan um miðja nótt við grát í stelpunni sinni og fór til hennar. Þá stóð maðurinn yfir barninu með biblíu í höndunum og þuldi yfir henni formúlu til að reka út illan anda. Barnið var auðvitað skelfingu lostið. Við þetta vaknaði konan loksins úr trúarvímunni og spurði sjálfa sig......hvað er eiginlega búið að gerast! Hún var gift manni sem hún þekkti ekki neitt, hætt að hafa samband við ættingjana sína af því að þeir voru ekki nógu trúaðir og barnið hennar álitið vera á valdi djöfulsins. Hún pakkaði niður og flutti út. Þá voru liðnir 4 mán. síðan hún frelsaðist. Segir í dag að þetta hafi verið mesta ógeð sem hún hafi lent í um æfina.

Annað, milljón á mánuði fyrir að vera prestur! Já það er dýrt guðsríkið.


Guðjón - 26/06/07 11:31 #

Stelpan hennar litla var fjörkálfur og bráð skemmtilegur krakki. Eitthvað fór þetta fjör fyrir brjóstið á nýja manninum. Nótt eina vaknaði vinkonan um miðja nótt við grát í stelpunni sinni og fór til hennar. Þá stóð maðurinn yfir barninu með biblíu í höndunum og þuldi yfir henni formúlu til að reka út illan anda. Barnið var auðvitað skelfingu lostið.

Þessi saga er frá allt öðrum tíma. Það trúaða fólk sem ég þekki lifir allt öðru lífi en hér er lýst. Ef það lendir í vandræðum með börnin sín leitar það sér aðstoðar hjá fjölskyldudeild. Og ef ég lenti á samkomu af því tagi sem hér er lýst þyrti ég sennilega áfallahjálp. Börnin mín horfa á sama sjónvarpsefni og aðrir og lesa sömu bækur. Samt tel ég mig trúaðan og er virkur í trúarlegu starfi. Börnin mín eru það líka vegn þess að ég hvet þau til þess. Til þess að það sé mögulegt verður auðvitað að borga fyrir þann kosnað sém slíku fylgir. Ástæða þess að ég tek þátt í trúarlegu starfi er að ég tel að þannig verð líf mitt betra.

Ég lít svo á að hver og einn verði að ráða því hvernig lifi hann lifir. Ef ég skil Margréti rétt er hún ekki sátt við þetta. Vegna þess að hún er ósátt við trúarlegt starf eiga allir að hætta því.

Vantrúarmenn eru að mér sýnist lika ósáttir við mig og gera engan greinar mun á mér og mínum líkum og manningum sem þylur fordæmingar úr Bíblíunni.


Finnur - 26/06/07 13:07 #

[Athugasemdir Finns og þær umræður sem fóru fram um þær voru færðar á spjallborðið - Hjalti Rúnar]


óðinsmær - 26/06/07 13:13 #

jamm, ég er reyndar að fá tvær litlar hrukkur á milli augnanna eftir ævilangar ósjálfráðar grettur, ef ég hefði aldrei sett um hneykslunarsvip þá væru þær sennilega ekki þarna. Sagan um grettuna sem festist er því bara skynsamleg, og líka sagan sem þú setur upp.


óðinsmær - 26/06/07 13:14 #

en mig langar að sjá þetta alræmda bréf, getið þið ekki komið höndum yfir það? ég bíð spennt ;)


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 26/06/07 14:08 #

Birgir

Þessi saga er frá allt öðrum tíma. Það trúaða fólk sem ég þekki lifir allt öðru lífi en hér er lýst. Ef það lendir í vandræðum með börnin sín leitar það sér aðstoðar hjá fjölskyldudeild.

Hvað áttu við með fjölskyldudeild? Er það þá deild innan þess trúfélags?


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 26/06/07 14:09 #

Afsakið ég var að meina Guðjón


Guðjón - 26/06/07 16:24 #

Með fjöldskyldudeild á ég við þá þjónustu sveitafélags ætlaða almenningi.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 26/06/07 20:49 #

Guðjón: Sagan sem ég sagði er ekki gömul og frá allt öðrum tíma. Þetta viðgengst enn í dag. Ekki langt síðan samkynhneigður unglingsstrákur svipti sig lífi eftir að hann var tældur á samkomu hjá öfgatrúuðum sem reyndu að reka úr honum hommadjöfulinn eins og þeir kalla það. Hann var aðeins 16 ára.

Prófaðu endilega að lifa lífi utan trúarsafnaðar og láttu ekki fjötra þig. Þessi svokallaða frelsun ykkar eru ekkert annað en fjötrar, þar sem fylgja boð og bönn og hræðsluáróður um djöfulinn sem þið sjáið í öllu sem fellur ekki undir sannleikann samkvæmt skilgreiningu ykkar á trúarritunum.

Svo þessi yfirþyrmandi gleði á samkomum ykkar sem þið haldið að sé af því að guð er svo góður við ykkur og þið svo lánsöm að vera honum þóknanleg. þetta er ekkert annað en víma. Betra að bretta upp ermunum og gera eitthvað af viti og eyða orku sinni í annað en tilbeiðslu og lofgjörðir til guðs sem mismunar fólki.


Guðjón - 27/06/07 13:01 #

Takk fyrir ráðlegingar þínar Margrét. Þú meirnar eflaust vel. En þegar maður er orðin fullorðin þarf maður sjálfur að taka ábyrð á lífi sínu og gera það sem maður telur sjálfur vera rétt. Gangi þér vel.


Hnakkus - 27/06/07 13:18 #

Þarna hittirðu naglann á höfuðið Guðjón. Fullorðið fólk getur sjálft tekið ábyrgð á sínu lífi og gert það sem það sjálft telur vera rétt. Ekki það sem löngu dauður hirðingjar töldu vera rétt eða það sem Gunnar í krossinum og langsóttir ofurdraugar telja vera rétt.


Guðjón - 30/06/07 09:23 #

Hnakkus ætti að lesa Sarte. Flest okkar kjósa að lifa hefðbundnu lifi og þannig lifi byggist á atriðum eins og tilgangi, merkingu og trúnaður.

Satre hefur skoðað merkingu þess að vera frjáls i guðlausum heimni og niðurstaða hans var að hafa atrðiðum eins og fjölskyldu, trúnaði.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.