Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Enn um aðkomu Þjóðkirkjunnar að menntun barna

Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda
(Mattheusarguðspjall 28:19)

Fólk sem vill raunverulegt trúfrelsi og jafnan rétt lífsskoðana hefur gagnrýnt það harðlega að kristniboð sé stundað í skólum. Ríkisvaldið og kirkjan eru bæði tvö í bjánalegri og þversagnakenndri stöðu; stjórnarskrá kveður á um trúfrelsi er tekur samt fram að Þjóðkirkjan eigi að njóta sérstöðu og forréttinda. Hið opinbera hefur sinnt því síðarnefnda af mun meiri elju en því fyrrnefnda. Í Aðalnámsskrá grunnskóla um kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði segir:

Inntak námsgreinarinnar er þríþætt. Í fyrsta lagi fræðsla um kristna trú og menningu og sögu kirkjunnar. Í öðru lagi siðferðileg viðfangsefni. Í þriðja lagi fræðsla um helstu trúarbrögð heims.

Hljómar sanngjarnt, ekki satt? Strax á næstu blaðsíðu segir hins vegar:

Kristilegt siðgæði á að móta starfshætti skólans ásamt umburðarlyndi og lýðræðislegu samstarfi. Þó að þetta eigi við um skólastarfið almennt hlýtur kennsla í kristnum fræðum að sinna þessum þætti sérstaklega og vinna markvisst að því að stuðla að siðgæðisþroska nemendanna í glímu við siðferðileg álitamál. Gengið er út frá því að það sé gert í ljósi kristilegrar siðfræði.

Námsskráin tekur sérstaklega fram, augljóslega að gefnu tilefni:

Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun og er því fyrst og fremst ætlað að miðla þekkingu og auka skilning á kristinni trú og öðrum trúarbrögðum. Liður í því er að nemendur séu hvattir til að setja sig í annarra spor og skoða viðkomandi átrúnað innan frá, með augum hins trúaða.

Stóra spurningin er: Hvernig er hægt að fræða um trú án þess að boða trú? Ef trúaður maður sér um fræðsluna, er hann þá ekki skyldugur af eigin sannfæringu til þess að gera sitt til að gera „allar þjóðir að lærissveinum“? Ég tel það liggja í augum uppi, að besta leiðin til þess að fræðsla um trú og trúarbrögð geti verið hlutlaus sé að trúfélög fái ekki að koma nálægt henni -- þar með talið að samning námsefnis sé ekki verk presta. Presturinn hefur í fyrsta lagi þá köllun, vænti ég, að „gera allar þjóðir að lærisveinum“, og í öðru lagi eru trúarbragðafræðingar mun betur fallnir til starfans þar sem þeir hafa ekki beina hagsmuni af því að boða ein trúarbrögð umfram önnur. Það á ekki að vera í verkahring skylduskóla að 6 ára nemendur fyrsta bekkjar „geri sér ljóst hvað bæn er og læri að þekkja Faðir vor, kvöld- og morgunbænir og borðbænir“ -- ef fólki þykir á annað borð ástæða til að smábörn biðji til guðs, þá getur slík kennsla farið fram á heimilum eða í sunnudagaskólum. Ef skólinn kennir um bænir á annað borð, þá væri nær að kenna hvað bæn er, ekki hvernig maður biður. Fyrir svo utan það, að ég man ekki eftir að hafa nokkurn tímann vitað íslenska fjölskyldu fara með borðbæn. Síðan hvenær er það siður hér á landi?

Ragnar Gunnarsson trúboði svarar spurningu á trú.is: Hvað er trúboð? Það er fróðleg lesning. Ragnar segir meðal annars: „Enginn verður þvingaður til trúar og engan á að kaupa til trúar.“ Ég held að það þurfi ekki stórt stökk til að skilja það sem þvingun til trúar, þegar því er haldið að óvita að guð sé til eða yfirhöfuð að trú sé sjálfsögð. Og hvað er það annað en að kaupa fólk til trúar, þegar börn fá gjafir að verðmæti hundruða þúsunda króna fyrir það að játast Jesú með munninum? Kirkjan þykist stundum andæfa markaðsvæðingu fermingarinnar -- en rétt eins og flest fermingarbörn játast Jesú í munninum, þá er ekki að sjá að andóf kirkjunnar sé nema í munninum. Aðgengi Þjóðkirkjunnar að börnum á svokölluðum fermingaraldri (sjá annars Fermingarvertíð Þjóðkirkjunnar er að hefjast) er hrópleg mismunun.

Starf kirkjunnar innan skólanna er kallað kærleiksþjónusta og látin hljóma voðalega sakleysislega. Hvað segir Ragnar Gunnarsson í því samhengi? Jú: „Kristniboð fellur undir kærleiksþjónustusvið biskupsstofu“ -- þurfið þér frekari vitnanna við?

Sá sem sinnir manneskjum ber ábyrgð. Ég man eftir því þegar sögukennari minn í menntaskóla kenndi okkur hvað fælist í kenningunni um stéttabaráttu. Honum tókst það vel af hendi án þess að í kennslunni fælist nein boðun á marxisma. Sá maður gæti sjálfsagt staðið sig vel í að kenna um kristni ef honum dytti það í hug. Sjálfur vinn ég á geðdeild. Aldrei hefur það freistað mín að nota aðstöðu mína þar, með tilheyrandi aðgangi að manneskjum, til þess að halda sterkum skoðunum mínum á trú eða pólitík að fólki. Það væri einfaldlega ekki rétt. Enda snýst starf mitt ekki um trú eða pólitík, heldur umönnun.

Ég hef haft stærðfræðikennara sem vildi svo til að var prestur. Hann blandaði aldrei kristinni trú inn í stærðfræðina. Út af fyrir sig er ekkert að því að prestar kenni börnum -- en kristinfræði er kannski ekki heppileg námsgrein fyrir þá að kenna.

Kristinn maður er settur í klemmu ef hann á að kenna börnum um trú sína án þess að reyna að vinna þau á hennar band í leiðinni. Kirkjan þykist ekki stunda trúboð í skólum, en sannleikurinn er augljós; boðun er í fyrsta lagi hlutverk hennar, í öðru lagi má skilja hugsunina út frá t.d. orðum biskups, „Það að þegja um trú er innræting gegn trú“ -- og síðan hreinlega þegar Þjóðkirkjan segir Vinaleið vera trúboð


* Aðalnámskrá grunnskóla : kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði
* Hvað er trúboð?

Vésteinn Valgarðsson 31.01.2007
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Magnús - 31/01/07 10:26 #

Frábær grein.


Bjarni - 31/01/07 10:30 #

Um hvað snýst málið? Hvers vegna leggur kirkjan ofuráherslu á boðun trúar meðal barna? Svarið er augljóst, sjálf framtíð hennar er í húfi. Kirkjan myndi einfaldlega líða undir lok án boðunar meðal svo ungra og móttækilegra einstaklinga. Börn treysta fullorðnu fólki og hafa ekki til að bera nægilegan þroska eða gagnrýna hugsun til að geta metið boðskap af þessu tagi sjálfstætt. Tilvist kirkjunnar byggir því á þessum ógeðfelda grunni; innrætingu og heilaþvotti barna.

Gagnrýni á trúboð kirkjunnar meðal barna er því bein ógnun við tilveru hennar. Þetta er kjarni málsins. Kirkjan mun því aldrei taka það í mál að hætta þessu og mun frekar auka árásir sínar á börn frekar en hitt. Við munum sjá meira af slíkri “kærleiksþjónustu” og ýmsum “vinaleiðum” í framtíðinni. Það segir sína sögu um þetta talíbanaþjóðfélag sem við tilheyrum að skólayfirvöld og menntamálaráðherra þora ekki að bregðast á neinn hátt við réttmætri og vel rökstuddri gagnrýni á þetta sjúklega ástand. Við skulum minnast þess í komandi alþingiskosningum.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 31/01/07 11:01 #

Æðsta vald þjóðkirkjunnar ályktaði sl. október

Kærleiksþjónustan skarast því við öll önnur hlutverk kirkjunnar. Um skyldur gagnvart náunganum sagði Jesús: „Það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér“ (Matt. 25.40). Við erum erindrekar Krists, sbr. kristniboðsskipunina (Matt. 28.18-20).

Svo þræta kirkjunnar menn fyrir trúboð og neita að um boðun sé að ræða.


Axel - 31/01/07 13:39 #

Frábær grein hreint út sagt. Alltaf gaman að lesa eitthvað í þessum dúr áður en maður lendir í rökræðum við kristið fólk sem gagnrýnir mann fyrir að trúa ekki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.