Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Öfgafullir trúleysingjar?

Oftar en ekki heyri ég þá gagnrýni frá sárum trúmönnum að við hér á Vantrú séum öfgafullir. Öfgaglæpirnir eru víst þeir að vantrúarmenn gagnrýna trúmál og trúbrögð á hispurslausan hátt. Mín upplifun að gerast trúleysingi og láta skynsemina taka yfirhöndina er einhver öfgalausasta afstaða sem ég hef tekið á lífsleiðinni. Að trúa á óstaðfest hindurvitni og goðsögur bronsaldar voru mínir öfgar í lífinu. Það var ekki fyrr en ég tjáði mig um að lítið væri hæft í Jesú- eða Mósesögum og siðfræði þeirra að ég kynntist svörtu hlið trúarinnar. Því einn mesti glæpur trúarbragða gegn mannkyni er öfgafull afstaða þeirra til gagnrýni og gagnrýnenda í gegnum aldirnar.

Mig langar að útskýra fyrir trúmönnum hvað mér þætti vera öfgafullir trúleysingjar, sem ég myndi aldrei styðja, heldur fordæma í alla staði. Ef einhver vildi svona þjóðfélag myndi ég frekar kalla hann “nöttcase” eða hreinan öfgabrjálæðing. Þrátt fyrir að viðkomandi hjúpaði sig fagurgala í nafni manngæsku og réttlætis breytti það engu:

  • Að í stjórnarskrá væri trúleysi sérstaklega varið og styrkt af ríkinu umfram aðrar lífskoðanir.

  • Að þjóðsöngurinn væri tileinkaður trúleysingjum á Íslandi “Ó, trúleysi vors lands!”

  • Að Alþingi hæfist ekki fyrr en alþingismenn hefðu setið hátíðardagskrá Þjóðartrúleysisfélagsins.

  • Að Alþingi samþykkti sérstök lög um sérstöðu Þjóðartrúleysisfélagsins og virtu í hvívetna tilmæli forstöðumanns félagsins.

  • Að hér væri trúleysismálaráðherra sem færi með skipan trúleysismála í landinu auk þess að skipa forstöðumann Þjóðartrúleysisfélagsins.

  • Að Alþingi samþykkti að lágmarki 5 milljarða á ári í trúleysismál.

  • Að félög trúleysingja væru undanþegin íþyngjandi skattalögum.

  • Að háð og grín gegn trúleysi væri refsivert brot, varðaði 3 mánaða fangelsi eða sektum.

  • Að það varðaði við lög að trufla skemmtanir og hátíðarhöld trúleysingja.

  • Að Trúleysismálaráðuneytið hefði milligöngu um að samþykkja skráningu löglegra félaga trúleysingja, þó með þeirri undantekningu að Þjóðartrúleysisfélagið fengi meiri stuðning en önnur trúleysisfélög. Félög trúmanna væru lagalega útilokuð frá slíkri skráningu.

  • Að Alþingi setti lög að börn trúleysingja væru sjálfkrafa skráð við fæðingu í trúleysisfélag móður.

  • Að Alþingi setti lög um að ríkið innheimti félagsgjöld löglegra trúleysisfélaga. Þeir sem stæðu utan trúleysisfélaga borguðu samt trúleysisfélagagjöld ,en þau rynnu til Háskóla Íslands.

  • Að um 200 trúleysisfræðingar væru ríkisstarfsmenn og störfuðu hjá Þjóðartrúleysisfélaginu sem væri alfarið sjálfstæð starfandi ríkisstofnun með skrifstofu og forstöðumann á Laugaveginum.

  • Að ríkið hefði sérstakan sjóð til byggingu trúleysissetra og það væri skylda sveitarfélaga að útvega lóðir undir slíkar byggingar á góðum og áberandi stað, án gatnagerðar- og fasteignagjalda.

  • Að sérstakir trúleysishátíðardagar væru skyldufrídagar fyrir alla landsmenn.

  • Að haldin væri trúleysishátíð á Þingvöllum í boði Alþingis með ákveðnu árabili.

  • Að stofnaður væri trúleysishátíðarsjóður, að fullu fjármagnaður af ríkinu, sem aðeins væri skipaður trúleysingjum, til að gefa pening í góð málefni.

  • Að bækur um trúleysi fengju ríflega þýðingarstyrki frá Alþingi á ári hverju.

  • Að Háskóli Íslands hefði Trúleysisfræðadeild og útskrifaði löglega trúleysisfræðinga til starfa fyrir almenning. En trúleysisfræðingar ættu að fræða almenning um trúleysi og hefðu skyldu að gegna að aðstoða trúleysingja við merkisáfanga í lífinu og veita hjálp á erfiðum tímum.

  • Að á öllum stigum grunnskóla væru kennslubækur, samdar af trúleysingjum, kenndar til að auka skilning barna á trúleysi og sem sýna fram á siðferðilega yfirburði trúleysingja. Af kærleik trúleysingja mættu börn trúaðra sem ekki vilja slíka fræðslu fara fram á skólagang á meðan fræðslan færi fram tvisvar í viku.

  • Að hér væru leikskóla-, grunnskóla-, spítala-, fanga-, sendiráðs-, heyrnarlausra-, fatlaðra-, útlendinga-, vímuvarna-, almannavarna-, ellimála- og sérþjónustutrúleysisfræðingar til að sinna öllum sviðum mannlífsins,

  • Að forstöðumaður og starfsmenn Þjóðartrúleysisfélagsins væru áberandi við allar opinberar athafnir. Þeir færu ávallt með fræðsluerindi við opnum opinbera mannvirkja og væru áberandi á öllum sviðum mannlífsins þar sem því yrði við komið.

  • Að ríkisútvarpið hefði sérstöku hlutverki að gegna fyrir stöðu trúleysis hér á landi.

Frelsarinn 10.07.2006
Flokkað undir: ( Klassík , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Snæbjörn - 10/07/06 15:23 #

Satt er það. Þegar þú framandgerir þetta svona þá sér maður hvað þetta er í raun klikk.


Erik - 10/07/06 21:47 #

Snilld


Skúli - 10/07/06 22:17 #

Veikleikinn í þessum samanburði byggist á því sem þið sjálfir hafið þrástagast á - trúleysi er ekki skoðun í sjálfu sér. Hún byggir eingöngu á því að hafna öllum þeim skoðunum sem fela í sér átrúnað á æðri mátt.

Ef trúleysi er skilið víðari skilningi - s.s. með því að kenna það við almennan pósitívisma (sem væri reyndar fráleitt!) þá fellur samlíkingin um sjálfa sig.

En hvað um það, "frelsari" góður, þú ert skemmtilegur karl og synd að þú skulir ekki koma fram undir þínu rétta nafni. ;>)


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 10/07/06 22:27 #

Ég held því fram að trúleysi sé ákveðin lífsskoðun og því er þessi samanburður réttmætur.


Skúli - 10/07/06 22:30 #

Ok. Geturðu dregið saman í nokkrum línum hvað felst í þeirri lífsskoðun? Nú felur viðskeytið "-leysi" ekki beint í sér að þetta sé skoðun í sjálfu sér.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 10/07/06 22:54 #

Ég veit að þú hefur lesið þetta hér áður en þú gætir gert það aftur til að glöggva þig á því hvað trúleysi er.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 10/07/06 22:56 #

Hlekkurinn átti að vera þessi.


Khomeni - 10/07/06 23:26 #

Frábær grein Frelsari góður. Ferskt sjónarhorn á veruleikann. Þetta er hverju orði sannara. Virkar eins og ferskur vindgustur inn í óþefsbæli.

Endilega skrifaðu blaðagrein sem byggð er á þessum pistli.. Þetta er punktur sem sannarlega á erindi við landann.


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 11/07/06 00:06 #

Kæri Skúli, veikleiki greinarinnar er hennar styrkleiki. Orðið trúleysi er vissulega tosað í ystu myrkur og misnotað á versta máta. En vonandi ættu þessi orð að vekja menn af væru blundi. Ég viðurkenni fúslega sem fyrrverandi evangelískur Þjóðkirkjuvinur sá ég ekki bjálkan. En þetta er heiðarleg tilraun mín til að hjálpa fólki í svipaðri stöðu og ég var í.

Vissulega er veruleikinn erfiður í þessu máli en vel hugsandi lýðræðis og mannréttindasinnar í Þjóðkirkjunni hljóta að fara átta sig. Ég virði séra Hjört Magna mjög fyrir hans hugrekki í þessum málum, Þjóðkirkjumenn ættu að hlusta á hann ef "vantrúardólgarnir" eru ekki boðlegir.

Vonandi munu allir geta tekið höndum saman að koma okkur undan þessari erfiðu stöðu sem starfsfólk og Þjóðkirkjan hefur verið sett í. Því miður er núverandi forysta Kirkjunar ekki tilbúin til að taka á þessum málum. En sá bjarti dagur mun koma.


hildigunnur - 11/07/06 00:31 #

Mjög góðir punktar. Sýnir hvað þetta er skakkt, allt saman.


Pétur Haukur Jóhannesson - 11/07/06 07:53 #

Mjög flott grein. Tveir þumlar upp :)


Lína - 11/07/06 08:07 #

"Að á öllum stigum grunnskóla væru kennslubækur, samdar af trúleysingjum, kenndar til að auka skilning barna á trúleysi og sem sýna fram á siðferðilega yfirburði trúleysingja"

Mennt er máttur. Styð það að þið semjið bækur sem útskýra trúleysi og gildin sem liggja þar á bak við.

En hverjir eru "siðferðilegir yfirburðir trúleysingja" ?


Lína - 11/07/06 08:28 #

Og meira: Styð margt í þessari grein. Stofnanir geta orðið of þungar fyrir sjálfar sig. Peningar fara í bruðl og pjátur og hátíðir til að snobba. Snobb er andstæða Kristni. Sé ekkert að því að kenna gömlu góðu "biblíusögurnar" á sama hátt og Íslendingasögur. En það á ekki að prédika í skólum enda efast ég um að allir kennarar sem kenna kristnifræði séu trúaðir. Síðan má velja það besta úr siðferði kristinnar trúar og trúleysingja svo allir verði rosalega rétt siðferðislega þenkjandi! Ég er handviss um að trúarbragðafræði er kennd í grunnskólum og því má einnig kynna trúleysi.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 11/07/06 10:04 #

Ég er handviss um að trúarbragðafræði er kennd í grunnskólum og því má einnig kynna trúleysi.

Því miður er handvissa þín ekki á rökum reist - kristinfræðum eru gerð góð skil í grunnskólanum, önnur trúarbrögð mannkyns eru varla nefnd, hvað þá að um þau sé fjallað af nokkru viti.


Lína - 11/07/06 10:31 #

Tók þetta upp úr aðalnámskrá grunnskóla:

"Trúarbragðafræðsla er umfangsmikið viðfangsefni. Eðlilegt er að beina sjónum nemenda fyrst og fremst að útbreiddustu trúarbrögðum heims, svo sem búddadómi, hindúasið, Íslam og gyðingdómi. Í tengslum við landafræði og sögu er mikilvægt að skoða átrúnað í þeim samfélögum sem fjallað er um hverju sinni: Í yngstu bekkjum grunnskólans er stefnt að því að nemendur kynnist framandi trúarbrögðum með frásögnum af jafnöldrum og hvernig trú þeirra hefur áhrif á daglegt líf. Í efstu bekkjum grunnskóla er síðan farið kerfisbundið í trúarbrögð heims."

http://bella.stjr.is/utgafur/AGkristinfraediofl.pdf

Ef þessu er ekki sinnt er verið að brjóta á nemendum og kerfið e-hvað að klikka. Mínir krakkar lásu bók í 9. eða 10. bekk sem ég las með þeim um trúarbrögð heims.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 11/07/06 11:22 #

Kristinfræði er kennd frá 1. bekk til 10. bekkjar og það er ekki byrjað að minnast á önnur trúarbrögð fyrr en í 9-10. bekk. Það kalla ég ekki mikla áherslu á önnur trúarbrögð.

Þ.e. frá 1-8. bekkjar er bara kristni kennd og það með formerkjum trúboðs. Ég bið þig um að lesa þetta sjálf því sjón er sögu ríkari - Námskrá grunnskólana í Kristinfræði


Khomeni - 11/07/06 11:30 #

Þótt að trúarbragðakennsla sé á aðalnámsskrá þá er ekki þar með sagt að hún sé kennd. Þetta veit ég vel því ég hef kynnt mér málið. Það vantar kennara í þetta.


Khomeni - 11/07/06 11:38 #

Þótt að trúarbragðakennsla sé á aðalnámsskrá þá er ekki þar með sagt að hún sé kennd. Þetta veit ég vel því ég hef kynnt mér málið. Það vantar kennara í þetta.

Það hefur verið óttalegt sleifarlag á trúarbragðakennslu í grunn og framhaldsskólum alla tíð.


Jórunn (meðlimur í Vantrú) - 11/07/06 12:41 #

Lína spyr:

"En hverjir eru "siðferðilegir yfirburðir trúleysingja"?"

Siðferðilegir yfirburðir þeirra sem eru lausir undan trú á guð eða guði svo og önnur yfirnáttúrleg fyrirbæri eru, að þeir nota eigin skynsemi og gildismat til þess að gera það sem er rétt AF ÞVÍ AÐ ÞAÐ ER RÉTT Í SJÁLFU SÉR. Hefur góðar afleiðingar fyrir þá sem hlut eiga að máli. Er besti kostur af þeim sem í boði eru o.s.frv.

Trúleysingjar gera ekki eitthvað vegna þess að talsmaður (prestur) einhvers guðs þ.e. yfirnáttúrleg, tilbúin hugmynd - "segi" eða "boði" að svona sé rétt að gera því annars fari viðkomandi til Helvítis - komist sem sagt ekki til Himnaríkis.


Snæbjörn - 11/07/06 13:01 #

Það má svo náttúrulega setja spurningarmerki við hversu gott siðferði það er, að gera ekki slæma hluti af ótta við refsingu.


Khomeni - 11/07/06 13:10 #

Góður punktur hjá Snæbirni. Trúarlífsfélagsfræðingar hafa löngum bent á að aðaltilgangur trúarbragða sé félagslegt taumhald. Þannig öðlast samfélagið stöðugleika og "þæga" þegna. Snæbjörn tekur dæmi um þessa tilhneygingu trúarbragða.

"Þér verður refsað ef þú....."

"þú ferð til helvítis ef þú..."

"Þú skalt láta þetta yfir þig ganga þvi í næsta lífi verður þér umbunað...."


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 11/07/06 13:32 #

Það sem Lína misskilur er að í kennslubækur í kristnifræði í grunnskólum eftir séra Sigurð Pálsson og Iðunni Steinsdóttur er kristna siðferði hið glæstasta í þessum heimi. Í textanum hér fyrir ofan er ég að snúa út úr því og herma upp á trúleysi.

Nöfn bókanna eins og "Birta" eða "Ljós heimsins" segja meira mörg orð um aðdáun höfundanna kristindómnum. Þar er t.d. virkilega ógeðslegur kafli um trúboð í Afríku, um vonda töfralækna og góða kristna trúboða. Ég nenni ekki að telja allt ruglið upp í þessum bókum en þær segja bara frá einni hlið mála og eru áróður. Höfundarnir ættu að vita betur og réttlæting kristinna þjóða að hreppa Afríkubúa í þrældóm var kristið siðferði og kenningar.

Ég vildi allavega ekki að barnið mitt myndi lesa viðlíka rugl um trúleysi, þar sem stöðugt væri gefið í skyn að trúleysingjar væru betra fólk en annað. Það er auðvitað bara rugl og lygi. Fólk er eins misjafnt eins og það er margt. En ég endurtek þau orð að vont fólk gerir vonda hluti, gott fólk góða hluti en til að fá gott fólk til að gera vonda hluti þarf trú til.


óðinsmær - 11/07/06 16:32 #

trúaðir einstaklingar vona að trú á hið góða muni gera verk þeirra "rétt" en þið fullyrðið á hrokafullan hátt að þið hafið "siðferðislega yfirburði" og þurfið ekkert að vona, þið eruð öll svo sannfærð. þið eruð öfgafull á margan hátt þótt umfjöllunin um hið gagnstæða sé sett fram á sniðugan hátt í þessari grein.

í mínum skóla var kristnifræði bara kennd einn vetur þegar ég var 10 ára (kannski tvo, man það ekki alveg) og kennarinn var fúllyndur. Í þá daga var ekkert kennt um önnur trúarbrögð. Þetta var mjög secular skóli, því kennararnir voru þannig týpur og gátu ráðið þessu að miklu leiti.


Ásgeir - 11/07/06 16:41 #

Sá fyrsti sem talaði um meinta yfirburði trúleysingja var Lína.


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 11/07/06 17:12 #

Óðinsmær hefði átt að lesa umræðurnar hér fyrir ofan. Það hefur enginn haldið því fram að trúleysingjar séu siðferðilega betri á nokkurn hátt. Það hafa hins vegar kristnir gert með sínum kennslubókum.


Alexander E. - 11/07/06 17:22 #

Sniðug grein. Sumt þarna er alveg nýtt fyrir mér, hafði ekki hugmynd um að málum væri háttað svona. Algjört grín.


Svanur Sigurbjörnsson - 11/07/06 18:50 #

Upplýsandi grein sem ætti að opna huga hvers lesanda. Ég skora á þig "frelsari" að senda þessa grein til birtingar í mbl. Það má vísa í t.d. "öfgaárás" Sr. Gunnars Jóhannessonar á Richard Dawkins. Þá má segja að skipta megi út trúleysi fyrir hvaða lífsskoðunarstefnu sem er og allt yrði þetta jafn fáránlegt. Takk


Gunnar - 11/07/06 20:26 #

Gagnrýni Sr. Gunnars Jóhannessonar er að finna hér.


Heiða María Sigurðardóttir - 11/07/06 20:59 #

Húrra, flott! Styð hugmynd um blaðagrein. En af hverju ekki í Fréttablaðið, tekur það ekki við aðsendum greinum? Það er meira lesið en Mogginn.


Snæbjörn - 13/07/06 18:14 #

Ég held ekki að ég hafi neina siðferðislega yfirburði yfir trúað fólk.

Ef eitthvað er að marka mína reynslu í þessum málum þá er að finna gott fólk allsstaðar. Enda mjög hæpið að sletta fram fullyrðingum um stóra hópa fólks.

Hins vegar er siðferði breytilegt eftir menningarheimum. Til dæmis myndu trúaðir suðurríkjamenn fordæma mig fyrir að vilja leyfa fóstureyðingar og að sama skapi hryllir mig við dauðarefsingum sem njóta hylli á þessum slóðum.

Siðferði er of afstætt til þess að einhver geti haft yfirburði. Ég get haft gáfnalega eða líkamlega yfirburði enda er hægt að mæla slíkt. (Sem við trúleysingjar virðust vera upp til hópa hrifnir af). Eina fólkið sem ég er viss um að ég hafi siðferðislega yfirburði yfir eru svokallaðir siðleysingjar, en þeir geta verið bæði trúaðir og trúlausir. Þeim einfaldlega skortir hæfileikann til að setja sig í spor annarra og finna fyrir samúð. Svoleiðis fólki hættir til að verða raðmorðingjar (þó ekki alltaf), en hvort þeir trúi á Guð eða ekki breytir engu svo ég viti til. Enda hægt að nota Guð til þess að réttlæta ýmislegt.


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 13/07/06 20:24 #

1/200 (ekki nákvæm tala) er siðleysingi með skerta starfsemi í 2 af þeim 3 stöðvum heilans þar sem samviskan/hæfileikinn til að setja sig í spor annara er staðsett. Það var magnaður þáttur um slíkt fólk á Discovery Channel á síðasta ári. Það var mjög athyglisvert að sjá einu mögulegu lækninguna sem er örgjörvi sem mun örfa þessi svæði heilans.

Ég man ekki nákvæmlega tölurnar, en siðleysingjar voru langt innan við 10% af öllum föngum en áttu meirihluta allra alvarlegustu ofbeldisglæpanna og morða. Einnig að fyrirtæki tapa fúlgurfjár vegna siðleysingja sem ganga lausir um reksturinn. Þeir stinga samstarfsmenn í bakið til að komast til metorða og á sama tíma svíkja fyrirtækið í gróðrafíkn og hégóma. Þannig um samfélagið okkar ganga svartir sauðir í öllum starfstéttum sem eru sama um allt og alla nema rassinn á sjálfum sér. Algjörlega ólæknandi vandamál.

Það sem sker simpansa og menn frá öðrum spendýrum er mikil geta sett sig í spor annara með meiri nákvæmni en hjá öðrum spendýrum. Gott dæmi er hvernig simpansar verjast á sama hátt eins og menn, sem hópur ef ráðist er á einn í hópnum. Yfirleitt hlaupa spendýr eins fljótt og auðið er til að bjarga eigin skinni, nema þá sínu eigin afkvæmi. Þarna er upphaf samviskunnar sem hefur hjálpað okkur svo mikið til hagsbótar fyrir hópinn. Það er ótrúlega bjánalegt þegar trúmenn reyna að virkja þennan þátt mannlífsins til undirstrika guðdóminn og ósýnilega sál trúarbragðanna, þegar samviskan er bara lífræðislegs eðlis og hefur ekkert með nokkurn guðdóm að gera. Heldur hluti af þróun spendýra sem hafa hag af samvisku vegna langs lífaldurs og fárra afkvæma pr. móður.


Davíð - 14/07/06 07:31 #

-út úr dúr, góðfúsleg ábending.

Kæri Snæbjörn...

Það er pínulítið vandræðalegt að sjá eftirfarandi hjá þér:

"Enda mjög hæpið að sletta fram fullyrðingum um stóra hópa fólks.

Hins vegar er siðferði breytilegt eftir menningarheimum. Til dæmis myndu trúaðir suðurríkjamenn fordæma mig fyrir að vilja leyfa fóstureyðingar"

Í ljósi fyrstu setningarinnar, hefði ekki verið nær að orða þriðju setninguna á þessa leið:

"Til dæmis [myndu eflaust] margir trúaðir suðurríkjamenn..."?

Málið er náttúrulega að þessi alhæfingar form virðast oft vera mikið innbyggð í okkur. Kannski er það vegna þess að heilinn telur þetta einfaldi málið.

Fannst þetta bara pínu fyndið :Þ

-út úr dúr endar!


Snæbjörn - 14/07/06 19:41 #

Góður púnktur hjá þér Davíð. Vitanlega eru sumir trúaðir Suðurríkjamenn í Demókrataflokknum. ;)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/08/06 06:40 #

Eini gallinn við það að Frelsarinn birti greinina í Mogganum er sá að þá myndi hann/hún þurfa að gera það undir réttu nafni. Um leið stefnir þessi greinarhöfundur samfélagslegri stöðu sinni í hættu, enda þjóðfélagið gegnumsýrt af andúð á trúleysi og trúleysingjum, eftir margra alda áróður kirkjunnar gegn þessum þjóðfélagshópi.


Haukur Ísleifsson - 04/10/07 23:04 #

Já jafnvel besta fólk sem hefur góða rökhugsun og gott siðfreði á það til að hafa fordóma gegn trúleysingjum. Þetta er búið kenna fólki í gegnum aldirnar. Raunhæf barátta trúleysingja fyrir réttmæti skoðana sinna er nýbyrjuð og mun standa lengi. Persónulega tel ég að við mennirnir séum ekki nógu andlega þróaðir til að geta lifað sem heild án trúar á einhvað. Too bad.


Þorvaldur - 19/12/12 17:34 #

Þessi grein hittir meira og minna beint í mark. Ekki alveg sammála "Að þjóðsöngurinn væri tileinkaður trúleysingjum á Íslandi “Ó, trúleysi vors lands!”" af ýmsum ástæðum.

Vil að gefnu tilefni benda á, varðandi siðferðið, að það er fylgni milli kirkjusóknar og fjölda fanga. Því kenna þeim sem það þekkja annars vegar um hefnigirni trúvillinga og hinsvegar innbygða siðblindu sem felst í vissunni um fyrirgefningu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.