Eitt af því sem Þjóðkirkjuprestar þakka jafnan sér, gengnum starfsbræðrum sínum og Guðs kristni hér í landi, er þjóðfélagsgerð og almenn velmegun. Þannig breiða þeir út þá skoðun að bein tengsl séu milli trúarinnar og almennra borgaralegra réttinda og halda því mjög á lofti að hvergi sé betra að búa en þar sem Kristur hefur undirtökin. Raunveruleikinn er hins vegar allt annar þegar staðhæfingar eins og þessar eru skoðaðar ofan í kjölinn.
Þetta er viðfangsefni nýlegrar greinar í tímaritinu Journal of Religion & Society (G.S. Paul (2005), 7:1-17). Það er óþarfi að endursegja efni greinarinnar, en til fróðleiks lesendum fer hér lausleg þýðing á útdrættinum:
Víðfeðmar kannanir sýna að guðhræðsla er mjög á undanhaldi gagnvart veraldlegum þankagangi í þróuðum lýðveldisríkjum. Almenn viðurkenning þróunar hefur neikvæða fylgni við guðhræðslu og eru Bandaríki N. Ameríku eina velmegunarþjóðin þar sem meirihlutinn trúir á skapara og þróun er litin hornauga. Til er kappnóg af gögnum hvað varðar þjóðfélagsmein og heilsufar fyrsta heims ríkja. Samanburður milli þjóða, þar sem guðhræðsla er athuguð í tengslum við þjóðfélagsaðstæður mynda grundvöll stórrar faraldursfræðilegrar rannsóknar, sem nota má til að athuga hvort áhrif trúar á og dýrkun skapara er nauðsynleg til að tryggja þjóðfélagsleg gæði. Gögnin sýna að á h.u.b. öllum sviðum taka veraldleg þjóðfélög hinum guðhræddu fram hvað varðar þjóðfélagsleg gæði, á meðan hin trúuðu og andþróunarlegu BNA standa sig illa.
Við þetta er því að bæta að þessi könnun og fjöldi annarra hrekur algerlega þá vinsælu staðhæfingu kirkjunnar manna að við eigum velmegun okkar að þakka trú og trúariðkun þegnanna. Sú velmegun sem við njótum er þrátt fyrir sterka stöðu kirkjunnar, ekki vegna hennar.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.