Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er Jón Gnarr hóra?

Jón Gnarr á athyglisverða grein aftan á Fréttablaðinu núna á fimmtudaginn. Ekki er nóg með að eigingirnin sé alls ráðandi í skrifum hans, heldur fullyrðir hann að kærleiksríkir trúleysingjar séu guðsbörn. Í huga Jóns Gnarr er guðinn hans semsagt handhafi og útdeilandi kærleikans.

Fyrst að eigingirninni:

Bjöddn skrifar í gær þrusugóða grein þar sem hann kemur inn á hina eigingjörnu mótívasjón sem leynist á bak við þá viljaákvörðun fólks að trúa á guði:

Kristni selst ágætlega vegna þess að hún fjallar um eiginhagsmuni fyrstu persónunnar og fullvissar þann sem trúir að hann sé nú merkilegri og betri en við hin. Hinn sanntrúaði veit að hann er í sigurliðinu, á beinu brautinni en við hin erum öll á leið til glötunnar. Hann hefur svosem ekkert fyrir sér í þessum skoðunum sínum, en hann er sáttur svo lengi sem hann getur notað fyrirlitningu til að upphefja sjálfan sig.

Eigingirni er ekki eitthvað sem við kennum börnum okkar af því að fæstir telja sóma að slíkri hugmyndafræði. Samt er hún í lagi ef hún er notuð í ljósi krists. Hið sama á við um margt annað sem flestir eru ósáttir við en þykir svo í lagi ef sama leið er notuð til að snúa fólki til trúar.

Þetta viðhorf skín út úr nýjustu skrifum Jóns Gnarr aftan á Fréttablaðið:

Ég er ekki að reyna að kristna fólk til þess eins að kristna það. Ég er einungis að benda á leiðir sem hafa hjálpað mér og öðrum til að öðlast betra líf. [leturbreyting mín - BB]

Guðstrúin er hér semsagt fyrst og fremst orðin tæki til að eiga sælli daga hérna megin grafar. Merkilegt, því einhverju sinni var kenning kirkjunnar sú að með því að hokra hér á jörð við ömurleg kjör væri maður að búa sér til gríðarlega inneign á himnum. „Sælir eru hógværir“ og „verra er fyrir ríkan mann að komast til himnaríkis en úlfalda gegnum nálarauga,“ sögðu Jesús og prestarnir.

Þetta gildir semsagt ekki lengur, heldur snýst guðstrúin nú orðið um að öðlast betra líf bæði hér og fyrir handan. Að taka trú er semsagt orðið að instant umbun í Calvínískum stíl. Þeim farnast vel sem guðinn hefur velþóknun á, bæði fyrir og eftir dauðastundina.

Svona eru guðstrúendurnir nú orðnir heimtufrekir. Og í ofanálag fylgir þessu bætta lífi líka leyfi til að hrokast og upphefjast, sökum þess hve útvalinn maður er. Göfgin maður!

En Jón á góða spurningu í lok pistils síns þegar hann spyr:

Eru ekki allar manneskjur að leita að því sama, óháð trú og skoðunum? Vilja ekki allir bara hamingju fyrir sig og sína?

Kannski. Kannski ekki. En af hverju heldurðu, Jón, að eina leiðin að hamingjunni hljóti að felast í að selja ímynduðum guðaverum að sér aðgang, eins og einhver hóra? Og þurfa svo daginn eftir að endurtaka leikinn til að fá næsta fix.

Í niðurlagi greinarinnar byrjar Jón að tala til hinna trúlausu og kallar þá fullum fetum guðsbörn, það er að segja þá þeirra sem eru kærleiksríkir. Því er semsagt þannig háttað í huga hans að hver sá sem sýnir af sér kærleiksríkt hugarþel hljóti að vera að endurvarpa einhverju guðlegu. Guð er náttúrlega kærleikur og því hlýtur kærleikurinn að vera frá guði.

Kannski hefur Jón Gnarr rétt fyrir sér. Kannski eru kærleiksfullu trúleysingjarnir guðsbörn eftir allt saman. Kannski er guðinn hans Jóns sá sem sér um að blása í okkur kærleika og réttlætiskennd. Kannski, kannski, kannski.

Er það líklegt? Bendir sú þekking sem við höfum öðlast á heiminum til þess að þetta sé sannleikurinn? Hefur Jón Gnarr velt því fyrir sér hvort þessu geti verið öfugt farið? Er ekki líklegra að í stað þess að aþeistar séu guðsbörn eins og sanntrúaðir, þá sé allt þetta fólk aðeins heilastórir apar sem búa að þeim hæfileikum að geta velt fyrir sér tilvist sinni?

Og hafa að auki til að bera næga sköpunargáfu til að getað hrapað að röngum niðurstöðum.

Birgir Baldursson 12.06.2005
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


eggert egg - 13/06/05 10:55 #

Ég er ekki sammála þessari skoðun Bjöddns þar sem hann talar um að kristið fólk noti fyrirlitningu til að upphefja sjálft sig og bera kristið fólk þannig saman við menn eins og Hitler og fleiri sem einmitt ólu á fyrirlitningu annarra til að upphefja sjálfa sig á kostnað hinna fyrirlitnu. En það þarf ekki að ræða þessa skoðun Bjöddns meira, því það er einmitt það sem þetta er...skoðun. Hann hefur sína skoðun og ég aðra.

Út í annað... Gnarrinn: "Ég er ekki að reyna að kristna fólk til þess eins að kristna það. Ég er einungis að benda á leiðir sem hafa hjálpað mér og öðrum til að öðlast betra líf." Ég er sammála Gnarrinum í þessu. En málið er að hann er að tala út frá eigin brjósti, honum finnst líf sitt hafa batnað við að taka á móti kristi og reynir að gera sitt til að bæta líf annarra með þeim hætti sem hann bætti sitt. Og get ég bara ekki séð neitt athugavert við það.

Þú segir svo: "Guðstrúin er hér semsagt fyrst og fremst orðin tæki til að eiga sælli daga hérna megin grafar. Merkilegt, því einhverju sinni var kenning kirkjunnar sú að með því að hokra hér á jörð við ömurleg kjör væri maður að búa sér til gríðarlega inneign á himnum. „Sælir eru hógværir“ og „verra er fyrir ríkan mann að komast til himnaríkis en úlfalda gegnum nálarauga,“ sögðu Jesús og prestarnir."

Er þín skoðun á trúuðum að þeir verði að eiga ömurlega ævi til að eiga rétt á einhverju á himnum. Verður þeim semsagt að líða illa með trú sína til að eiga skilið að komast innundir á himnum??? Það er skrítin skoðun en ef þetta er það sem þú heldur, þá er ekki skrýtið að þú sért trúleysingi.

Eina ástæða Gnarrs fyrir trúboði sínu er eins og hann segir að láta sér og öðrum líða betur...er það svo rangt? Manni líður alltaf vel ef maður hjálpar öðrum...er það eigingjarnt?

Að lokum ætla ég bara að segja að það er ekkert að því að láta sér líða vel, hvort sem maður er trúaður eða ekki. Í framhaldi af þessu sting ég upp á því að við njótum góða veðursins í dag, fáum okkur ís og slöppum af með tærnar upp í loft, í góðu stuði (með guði eða ekki :) ).


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/06/05 11:58 #

Er þín skoðun á trúuðum að þeir verði að eiga ömurlega ævi...

Fullkomlega ekki, þú misskilur mig fullkomlega. Mér er annt um að sem flestir eigi sem besta ævi. En hinir sannkristnu ganga með þá ranghugmynd í kollinum að enginn geti verið hamingjusamur nema með því að ganga guðinum þínum á hönd. Og svo er í krafti þess byrjað að predika og pirra fólk með bjánalegum yfirlýsinum eins og sjást reglulega hjá Jóni Gnarr.

Það eru margar leiðir að hamingjunni. Auk þess er fjöldinn allur af fólki til sem að mati okkar hinna er fullkomlega hamingjusamt, en hefur ekki einu sinni velt fyrir sér hugtakinu. Mér detta í hug börn upp til hópa. Hvað er þetta kristna lið að troða upp á þau þessari ranghugmyndaleið að hamingjunni? Þurfa þau eitthvað á því að halda?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/06/05 12:01 #

Manni líður alltaf vel ef maður hjálpar öðrum...er það eigingjarnt?

Það fer eftir því hver mótívasjónin er. Ef þú hjálpar öðrum aðeins til að kalla fram eigin vellíðan er það fullkomin eigingirni. Og ef hjálpin felst í því að troða hindurvitnum þínum upp á annað fólk er þetta ekkert annað en eigingirni.


Þórður Sveinsson - 13/06/05 12:31 #

Guðstrúin er hér semsagt fyrst og fremst orðin tæki til að eiga sælli daga hérna megin grafar. Merkilegt, því einhverju sinni var kenning kirkjunnar sú að með því að hokra hér á jörð við ömurleg kjör væri maður að búa sér til gríðarlega inneign á himnum. „Sælir eru hógværir“ og „verra er fyrir ríkan mann að komast til himnaríkis en úlfalda gegnum nálarauga,“ sögðu Jesús og prestarnir.

Hefur það ekki alltaf verið svo í raun að guðstrúin hefur verið tæki til að eiga sælli daga hérna megin grafar? Ekki er að efa að með hokri sínu við sárustu fátækt taldi fólk sig áður fyrr vera að búa sér til inneign á himnum. En það var auðvitað viss leið til að gera jarðvistina bærilegri og sætta sig við andstreymið í lífinu. Þorri fólks held ég því að hafi notað trúna sem haldreipi í vægðarlausri veröld þar sem fólk hrundi niður úr hungri og sjúkdómum. Fyrir vikið leið því sennilega aðeins skár.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/06/05 13:14 #

Eymdardekur kirkjuboðskapsins hefur í aldaraðir gengið út á að sætta fólk við eymd sína í stað þess að virkja það til að útrýma henni.

Ætli megi ekki á sama hátt, í hinu misskipta velferðarsamfélagi nútímans, líta á þessa gyllingu vellíðaninnar gegnum trú sem tæki til að koma í veg fyrir að fólk sé of mikið að hræra í þjóðfélagsskipaninni, með því að gera það upptekið að eigin sælu. Mér reyndar dettur þetta svona bara í hug hér og nú.

Veltum þessu fyrir okkur.


Ásgeir - 13/06/05 13:31 #

Trúarbrögðin eru ópíum fólksins, kannski?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/06/05 14:19 #

Jú, það leiðir alltaf allt að þeirri niðurstöður að trúin sé eins og fíkniefnaneysla, kvikk fix sem stöðugt þarf að viðalda með nýrri inntöku.


Auður - 13/06/05 15:51 #

Ha ha, fyndið. Eggert sagði allt sem ég hefði viljað segja í viðbrögðum sínum :)

Mér finnst Jón ekkert vera að predika eða troða neinu uppá mann með því sem hann skrifar. Mér finnst hann bara vera að segja frá því sem hann upplifir og svo tekur maður bara til sín það sem manni geðjast að lætur annað liggja á milli hluta. Ég upplifi það þannig.

Í sambandi við eigingirnina þá held ég að manni sé óeðlilegt að gera e-ð algjörlega óeigingjarnt. Þannig séð. Þúst, æ, hvernig get ég útskýrt? Uuuuu, jah bara, afhverju ætti maður að gera e-ð sem að gerir ekkert fyrir mann? Þá ég ekki við að maður geri e-ð og ætlist alltaf til einhvers til baka og þannig hegðun, heldur bara, að gera gott veitir manni vellíðan. Ef það gerði það ekki, afhverju ætti maður þá að gera það. Jiii, veit ekkert hvort þetta kemst til skila...get eignlega ekki útskýrt það. Orðið eigingirni hefur neikvæða merkingu, manni er kennt það eins og að það sé e-ð neikvætt....ég er ekkert viss um að eigingirni sé alltaf af hinu slæma. Ætli það sé ekki gott að vera mátulega eigingjarn.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/06/05 15:59 #

Eigingirni er semsagt bara hið besta mál. Og þar með hefurðu um leið fallist á að trúarástundun er eigingjörn hegðun.

Óeigingjörn hegðun er til og hefur verið útskýrð út frá þróunarfræðunum. Menn fórna sér fyrir heildina, fyrir framgang afkvæma sinna og þar fram eftir götum. En auðvitað stórnumst við öll af „vellíðunarlögmálinu“ ef svo má segja, reynum að hlúa að sjálfum okkur og okkar nánustu. Gallinn er bara sá að trúað fólk á borð við Jón Gnarr lætur að því liggja að hann og trúsystkin hans séu einhverjir handhafar hamingjunnar, því leiðin að henni sé gegnum trúna sem hann tók.

Svo er ekki og víst að stór hópur fólks hefur ekkert upp úr því að aðhyllast þessar yfirnáttúruhugmyndir annað en kvöl og angist.

Oftar en ekki veitir þessi trú enga aðra huggun en þá sem fæst við hræðslu við óraunverulega hluti sem þessi sama trú hefur komið inn hjá fólki.


Auður - 13/06/05 16:17 #

En nei, menn sem fórna sér fyrir heildina og allt það sem þú skrifaðir...gera þeir það ekki af því að að það er það góða og rétta að gera? Af því að það sem skiptir þá máli og þeim þykir vænt um græðir á því?- Og við tilhugsunina líður þeim vel.

Já, ætli það ekki, að trúarástundun sé eigingjörn hegðun. Aftur, afhverju annars að stunda hana ef hún gerir ekkert fyrir mann?


Auður - 13/06/05 16:33 #

Varðandi kvölina. Eru ekki sumir sem velja sér þá kvöl? Svo eru aðrir sem fá ekkert val og eru kúgaðir sem er náttúrulega ógeðslegt. Annars veit ég ekki svo mikið um þetta. En það sem Jón er að tala um kemur þessu ekkert við er það? Hann er bara að tjá sig aftan á þetta blað og maður ræður alveg hvað maður gerir við það.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/06/05 16:37 #

...gera þeir það ekki af því að að það er það góða og rétta að gera?

Þetta er víst bara ritað í gen okkar. Þegar þær aðstæður skapast að einstaklingur þurfi að fórna sér svo genetíkin megi bjargast, þá er líklegt að einmitt það gerist.

Lestu bókin The Selfish Gene eftir þróunarfræðinginn Richard Dawkins og gáðu hvort rök hans höfði til þín.


Auður - 13/06/05 16:40 #

Það er einmitt það sem ér að segja. Þannig að það er í raun ekki óeigingjarnt...:)


ormurinn - 13/06/05 17:27 #

Það koma oft frá ykkur ágætis pistlar en stundum eruð þið svo öfgakenndir að það hálfa væri nóg.

Fyrir það fyrsta langar mig nú að taka fram að þessir pistlar Jóns Gnarrs í Fréttablaðinu hafa lengi farið í taugarnar á mér því mér leyðist trúboð og finnst það eiginlega hálfgerð frekja af Jóni að vera að troða þessu upp á mann vikulega.

Annars var þessi grein sú fyrsta eftir hann sem mér þótti allt í lagi og mér er algerlega fyrirmunað að sjá eigingirnina í þessum skrifum.

Þeir sem eru trúaðir eru sannfærðir um það að þeirra lífsskoðun er rétt, þó svo að okkur trúleysingjum megi þykja það órökrétt. Þessvegna skín ekki í gegn nein mannfyrirlitning heldur bara órökstudd eða órökrétt sannfæring. Mér finnst þessi lífsskoðun bjánaleg en ég vil ekki fara að kalla það mannfyrilitningu.

Ég er ekki að reyna að kristna fólk til þess eins að kristna það. Ég er einungis að benda á leiðir sem hafa hjálpað mér og öðrum til að öðlast betra líf.

Ef Jón segir að trúin fær honum til að líða betur þá er ég ekki í nokkrum vafa um að hann er einlægur og segi satt. Ég dásama t.d. ofnæmislyf sem ég fékk fyrst fyrir þremur árum og hafa stórbætt líf mitt (og vonandi annara) á sumrin. Hvar er eigingirnin í þessu??????

Eins og ég segi þá eru hér oft ágætis pistlar en fyrir alla muni farið aðeins rólega í sakirnar og passið ykkur á upprópununum og yfirskriftunum. Það er ekki bærilegur grundvöllur til rökræðna að kalla hina og þessa hórur eða lygara eða hvaðeina.

Þið virkið nefnilega oft ekki hótinu skárri en trúarnöttarar sem eru að reyna að troða trú sinni upp á fólk.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/06/05 18:23 #

Jamm og já, ormur. Ég hef reyndar hvergi haldið því fram að ég sé neitt á móti hórum. :)

En samlíkingin er fráleitt út í hött. Menn gangast guðum á hönd til að fá eitthvað í staðinn. En af því að frelsunin, sem meintur guð gefur þeim sem það gera, er svo ófullkomin þá þarf að síendurtaka ferlið til að upplifa hið góða ástand.

Þetta kostar þráhyggju/áráttuatferli.

Almennilegur alfaðir myndi hanna þetta með skárri hætti, t.d. þannig að nóg væri að beygja kné sín einu sinni og biðja einu sinni fyrir velferð mannkyns í heild sinni.

En nei, menn halda fram tilvist þessa guðdóms þrátt fyrir þessa annmarka, þrátt fyrir að þeir upplifi það æ ofan í æ að trúarhegðun þeirra hafi engin eða skammvinn áhrif. Þeir halda þessari tilvist fram þrátt fyrir að þekking okkar á heiminum eigi að gera okkur upplýst um að trúarhegðun er lítið annað en sjálfssefjun og vellíðanin sem Jón Gnarr og aðrir trúmenn upplifa er aðeins afrakstur sjálfssefjunarhegðunar og fullnægðrar göfgiþrár. Þetta er skammvinnt kikk og menn runkast því á guðdómnum í nautnahyggju sinni.

Stundum er nauðsynlegt að stuða, ormur. Og ég hef gaman af því að tipla ekki kringum tepruskap þann sem trúarbrögðin installera í allan almenning. Að auki fullyrði ég ekki að Jón Gnarr sé hóra, heldur spyr að því og færi rök fyrir samlíkingunni. Ef einhver sér í hendi sér að samlíkingin eigi ekki við er honum frjálst að mæta hér í kommentin og hrekja hana.

Ég hef ekkert á móti hórum, en kenni í brjósti um stúlkur sem þurfa að selja sig fyrir næsta skammvinna fíkniefnablissi. Ætli ég vorkenni ekki bara Jóni Gnarr og öðru trúfólki á sömu forsendum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/06/05 18:25 #

Það er einmitt það sem ér að segja. Þannig að það er í raun ekki óeigingjarnt...:)

Frá sjónarhóli einstaklingsins er þetta óeigingjarnt. En frá sjónarhóli genanna er þetta fullkomlega eigingjörn hegðun. Þau fórna okkur miskunnarlaust á altari eigin hagsmuna, við erum þeim aðeins tæki til viðhalds og dreifingar, ef eitthvað er að marka Dawkins.


Ormurinn - 13/06/05 23:12 #

En samlíkingin er fráleitt út í hött. Menn gangast guðum á hönd til að fá eitthvað í staðinn. En af því að frelsunin, sem meintur guð gefur þeim sem það gera, er svo ófullkomin þá þarf að síendurtaka ferlið til að upplifa hið góða ástand.

..en það er drifkrafturinn fyrir öllu sem við gerum að fá eitthvað í staðinn. Annars veit ég ekki hvort allir trúmenn gangast guði á hönd til að fá eitthvað í staðinn, amk ekki meðvitað.

Hinsvegar virðist það vera fólki eðlislægt að vilja sannfæra aðra um ágæti sinnar lífsínar og sinna skoðanna og þannig séð hef ég skilning á prédikunarþörf manna. Þó svo að hún fari í taugarnar á mér. (Og Jón er búinn að fara mikið í taugarnar á mér með þessum pistlum sínum.)

Annars finnst mér Fréttablaðið nú gera sér far um að vega á móti þessum leiðindapredíkunarpistlum hans Jóns með ágætum myndaseríum um Pú og Pa.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/06/05 00:08 #

Annars veit ég ekki hvort allir trúmenn gangast guði á hönd til að fá eitthvað í staðinn, amk ekki meðvitað.

Jón Gnarr gerir það augljóslega, hann öðlast betra líf. Og þetta er einmitt það sem frjálsu söfnuðurnir hér nota til að auglýsa vöruna sína. Taktu Jesú inn í hjarta þitt og allt mun verða gott.

En verður allt gott við þetta? Getur verið að þetta sé eins og hjá Herbalife, þér er uppálagt að segja þeim sem þú ert að véla inn í költið að þú sért orðinn ríkur og hamingjusamur þótt hvort tveggja sé lygi?


eggert egg - 14/06/05 09:19 #

Björn segir: "Jú, það leiðir alltaf allt að þeirri niðurstöður að trúin sé eins og fíkniefnaneysla, kvikk fix sem stöðugt þarf að viðalda með nýrri inntöku."

Jú það er alveg rétt, því hver þekkir það ekki þegar kristnir einstaklingar brjótast inn, stela, selja líkama sinn og ljúga að nánustu ættingjum til að geta beðið bænirnar sínar. En það er víst engin bæn eins og sú fyrsta, maður ánetjast nefnilega alltaf eftir fyrstu bænina. Maður verður smám saman alltaf meira og meira antisocial og á endanum þá getur maður beðið yfir sig og dáið bara inni á klósetti á einhverjum skemmtistað....

Hvernig í ósköpunum geturðu borið saman þessa tvo hluti án þess að líta á heildina, þetta er eins og að bera saman sprengju og hjólbörur afþví að þær eru eins á litinn... Þú móðgar kristna einstaklinga með þessari samlíkingu þinni, auk þess sem að þú gerir lítið úr fólki sem á við alvöru fíkniefnavandamála að stríða. Prufaðu að segja dópista sem er á "cold turkey" frá þessari samlíkingu og gáðu hvort að hann sé þér sammála henni á einhvern hátt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 14/06/05 09:55 #

Af hverju í ósköpunum þurfa trúmenn alltaf að rembast við að móðgast útaf réttmætum líkingum?

"Jú, það leiðir alltaf allt að þeirri niðurstöður að trúin sé eins og fíkniefnaneysla, kvikk fix sem stöðugt þarf að viðalda með nýrri inntöku."
Leiðir ekki af sér:
Jú það er alveg rétt, því hver þekkir það ekki þegar kristnir einstaklingar brjótast inn, stela, selja líkama sinn og ljúga að nánustu ættingjum til að geta beðið bænirnar sínar.

Síðustu daga hafa margir verið ansi duglegir við að reyna að vinna rökræðuna með því að saka menn um dónaskap. Í gvuðanna bænum hættið því og einbeitið ykkur að málefnunum og röksemdunum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/06/05 10:22 #

Hvernig í ósköpunum geturðu borið saman þessa tvo hluti[?]

Ég get það af því að ég get fært rök fyrir því sem ég segi.

Ég hef áður gripið til svipaðra líkinga, fyrst í Mogganum árið 2002, en líka hér og þar um þennan vef, s.s. hér og hér.

Fyrir þann sem horfir á utanfrá er samlíkingin augljós, síendurtekið atferli sem veitir vellíðan og þarf að endurtaka til að viðhalda henni. Sömu boðefnin eru væntanlega virkjuð í heilanum. Prestarnir/fíkniefnasalarnir mæra varning sinn og halda honum m.a.s. að börnum, því snemma beygist krókur og viðhalda þarf fjármagnsstreyminu til kirkjunnar/mafíunnar sem flytur inn dópið.

Lestu þessar greinar sem ég vísa í og sjáðu hvort rökin þar opni augu þín fyrir því hvers eðlis trúarástundun er í raun.

Mundu líka að trúin er löglegt dóp eins og áfengi. Og ódýrt í þokkabót. Þessi mynd sem þú dregur upp af dópistunum á mun fremur við um samfélag þar sem efnin eru ólögleg og kosta formúu.


eggert egg - 14/06/05 11:59 #

Birgir : "Fyrir þann sem horfir á utanfrá er samlíkingin augljós, síendurtekið atferli sem veitir vellíðan og þarf að endurtaka til að viðhalda henni. Sömu boðefnin eru væntanlega virkjuð í heilanum. Prestarnir/fíkniefnasalarnir mæra varning sinn og halda honum m.a.s. að börnum, því snemma beygist krókur og viðhalda þarf fjármagnsstreyminu til kirkjunnar/mafíunnar sem flytur inn dópið."

Mætti þá ekki snúa þessu upp á íþróttamenn og einkaþjálfara fyrst við erum nú byrjaðir?

Íþróttamenn æfa sig, stundum oft á dag, og það atferli veitir þeim vellíðan og þurfa þeir að æfa sig til að viðhalda þessari vellíðan sem fæst við æfingarnar. Einkaþjálfararnir/fíkniefnasalarnir halda fram nauðsyn æfinga og segja að fólk þurfi að hreyfa sig og mæla með hreyfingu, meðal annars í sjónvarpi og dagblöðum, því það þarf að viðhalda fjármagnsstreyminu til líkamsræktarstöðvanna/mafíunnar og þarafleiðandi einnig í vasa einkaþjálfaranna/fíkniefnasalanna.

Getur þá ekki líka verið að það sé satt???

Birgir : "Mundu líka að trúin er löglegt dóp eins og áfengi. Og ódýrt í þokkabót. Þessi mynd sem þú dregur upp af dópistunum á mun fremur við um samfélag þar sem efnin eru ólögleg og kosta formúu."

Segjum að þetta sé rétt hjá þér, bænin er eins og dóp. Þá yrði maður að álykta að ef að bænin væri ólögleg og það kostaði mann formúu að biðja, þá væri eftirfarandi satt:

Ég sagði hér fyrr... "Jú það er alveg rétt, því hver þekkir það ekki þegar kristnir einstaklingar brjótast inn, stela, selja líkama sinn og ljúga að nánustu ættingjum til að geta beðið bænirnar sínar. En það er víst engin bæn eins og sú fyrsta, maður ánetjast nefnilega alltaf eftir fyrstu bænina. Maður verður smám saman alltaf meira og meira antisocial."

En þetta er bara að því gefnu að þú hafir rétt fyrir þér og að bænin sé(eins og þú segir)dóp en að hún sé ólögleg og rándýr.

Þú segir að bænin sé eins og dóp...ættu þá ekki sömu reglur að gilda um hvorttveggja? Ég bara spyr.

Ég þarf kanski ekki að segja það en ég er ekki sammála þessari skoðun þinni.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/06/05 12:09 #

Getur þá ekki líka verið að það sé satt???

Hver veit? Íþróttaástundun er um margt lík dópneyslu og trúarástundun. Sömu boðefni virkjuð, sama flæðisástand fengið fram. Jor poínt bíjíng?

En þetta er bara að því gefnu að þú hafir rétt fyrir þér og að bænin sé(eins og þú segir)dóp en að hún sé ólögleg og rándýr.

Ég er ekki bara að tala um bænina heldur alla trúarástundun. Ef ólöglegt væri að fara til kirkju og ástunda þetta þráhyggju/áráttuatferli myndi þetta færast niður í undirheimana, já.


Auður - 14/06/05 12:14 #

Í sambandi við fíkniefnaneyslulíkinguna. Meinaru þá í neikvæðum skilningi? Því að ef þú neitir dóps þá skemmirðu líkama þinn og líf og sambönd við sjálfan þig og fólkið í kring. Ekki trúin. Eða júh, eflaust er til fullt af fólki sem lætur trú sína hafa þessi áhrif, en líka fullt sem gerir það ekki. Ef það skaðar hvorki þig né aðra (sérstaklega aðra)er það þá ekki í lagi?

Reyndar fer ég að hugsa núna, af því að mér finnst þið tala svo mikið út frá kristinni trú: eruð þið bara að mæla gegn henni...? Þykist vita að svo er ekki samt. Eitt pirrar mig líka doldið, finnst eins og þið talið eins og það sé bara þessi eina trú og henni sé alltaf hagað eins. Ér kannski bara að misskilja.

Dunno, ég trúi á mátt mér æðri, ekki samkvæmt kristinni trú samt.Og það hjálpar mér mikið á öllum sviðum lífs míns. Ég treð þessari trú/skoðun minni ekki upp á neinn. Er þá e-ð að því að ég trúi á þennan æðri mátt??


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 14/06/05 12:31 #

Kristni er mest áberandi trú á Íslandi, sú sem fær mest frá ríkinu (frá okkur) og því liggur beint fyrir að taka hana mjög vandlega fyrir.

Þú mátt alveg hafa þína trú fyrir þig og þú ræður fyllilega hvort þú kemur hingað til að lesa greinarnar eða ekki. Ólíkt þjóðkirkjunni þá erum við voðalega lítið að fara með okkar boðskap út fyrir þessa vefsíðu og fjölmiðla, við erum til dæmis ekki í leikskólum eða grunnskólum að reyna að bjarga börnum frá trú.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/06/05 12:48 #

Því að ef þú neitir dóps þá skemmirðu líkama þinn og líf og sambönd við sjálfan þig og fólkið í kring.

Ef þú ástundar trú ertu að koma þér upp ranghugmyndum um heiminn, ranghugmyndum sem á stundum geta verið hættulegar sjálfri þér eða samfélaginu. Í verstu tilfellum trúarkölta yfirgefa menn fjölskyldur sínar, eyðileggja sambönd við fólkið í kring um sig og eyðileggja jafnvel líkama sinn með sjálfsmorðum.

Ef það skaðar hvorki þig né aðra (sérstaklega aðra)er það þá ekki í lagi?

Er ekki hóflega drukkið vín í lagi? Jújú, en samt er það vímuefnaneysla.

Það er hægt að vera mis-langt leiddur. Sjáðu bara muninn á þér og Gunnari í Krossinum.


eggert egg - 14/06/05 13:06 #

Birgir ég skil hvað þú ert að segja en ég er þér bara svo hjartanlega ósammála.

En svo segirðu annað sem mér finnst áhugavert í svari þínu til Auðar : "Er ekki hóflega drukkið vín í lagi? Jújú, en samt er það vímuefnaneysla.

Það er hægt að vera mis-langt leiddur. Sjáðu bara muninn á þér og Gunnari í Krossinum. "

Ok prófum þetta aðeins...:

  1. Gefum okkur að það sé í lagi að neyta vímuefna í hófi, eins og þú segir.
  2. Það er hættulegt að neyta vímuefna í óhófi.
  3. Gefum okkur að bænin sé vímuefni, eins og þú segir.

Þetta leiðir af sér að það sem þú ert að segja er: Það er í lagi að biðja, en bara ef það er gert í hófi. Það er ekki í lagi að biðja ef það fer út í öfgar eins og Gunnar í Krossinum gerir.

Ég sem hélt að þú værir á móti bænum í hvaða formi sem þær væru. Gaman að þessu :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/06/05 22:54 #

Ég er á því að Þjóðkirkjukristnir séu í minni hættu á að skaðast en Krossliðið. Neyslan er einfaldlega úr öllu hófi hjá seinni hópnum. En ég tek skýrt fram að ég tel alla neyslu þessa efnis óæskilega, því afleiðingarnar eru ranghugmyndir sem oft og tíðum eru samfélaginu hættulegar. Þeir sem bergja kaþólska búsið vilja banna smokka, hefta kynfræðslu og úthrópa samkynhneigð og fóstureyðingar, Fíladelfíusmókerarnir fá sömu ranghugmyndir um homma og fóstureyðingar auk þess sem það fólk er með það á hreinu að illir andar herji á fólk og von sé á Jesú til jarðarinnar að dæma lifendur og dauða. Múslim-sprautufíklar...

Jú gett mæ drift.

Þótt þjóðkirkjubúsið sé kannski vægt miðað við geðsýkisástandið sem flest önnur trúarbrögð valda, þá eru áhrif neyslunnar samt sem áður óæskileg. Þessu fólki finnst upp til hópa í lagi að dílerar fari í skólana að fylla börnin af þessu kjaftæði og syndainnræting og andatrú fylgir með í pakkanum, svo dæmi séu tekin. Ég gæti haldið áfram í allt kvöld.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 16/06/05 08:20 #

Eggert, núna ertu bara kominn langt út fyrir efnið. Lögleiðing fíkniefna kemur málinu ekkert við. Er Biggi að leggja til að bænir verði bannaðar með lögum? Nei, og þar af leiðandi er samlíkingin út í hött.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/06/05 10:33 #

Ég hef ekki áhuga á því að nokkur maður gerist eiturlyfjaneytandi, þvert á móti. Af lögleiðingu hlytist margfalt minni skaði en af núverandi ástandi. Það er allt og sumt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/06/05 11:24 #

Athugasemdir Lárusar Páls Birgisson, sem hér skrifar undir nafninu eggert, voru færðar á spjallborðið. Lárus Páll, vertu úti, þú ert ekki velkominn hér.


AlmaÞöll - 07/09/05 01:04 #

Ég er að koma inn á þessa síðu í fyrsta skipti og hef aðeins náð að lesa u.þ.b. helming kommentana hérna fyrir ofan. En ég er með litla ábendingu fyrir trúaða og trúleysingja.. það er að lesa bækur sem heita Samræður við Guð ..Eflaust æla sumir af því að sjá nafnið á bókinni (af sumum kjánalegum kommentum hér að dæma) en allir ættu að vera opnir og kynna sér málið. ..Hafið þið hugsað út í að trúarbrögðin hafi kannski bara verið búin til, til að halda fólki í skefjum. (til að rísa ekki upp á móti lögum og reglum) En að Guð sé samt til?? Að Guð sé algóður og krefjist ekki daglegra bæna til að "hleypa þér inní himnaríki". Að það sé líf eftir þetta líf, því að hvernig getur orka eyðst upp? Hún hlýtur að breyta stöðugt um form ekki satt..??


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 07/09/05 01:13 #

Ég held að það sé nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að trúarbrögð hafi verið búin til í þeim tilgangi að halda fólki niðri þó þau hafi í gegnum tíðina verið notuð í þeim tilgangi.

Ég veit ekki hvernig þú sættir hugmyndir þínar um algóðan guð við til dæmis fellibylinn sem fór yfir New Orleans fyrir rúmri viku eða flóðbylgjuna sem skall á annan dag jóla í fyrra. Hugmyndir þínar um orku ættirðu að ræða við eðlisfræðinga.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/09/05 02:26 #

Ég las mig á sínum tíma inn í hálfa fyrstu bókina um þessar samræður við Guð. Þetta voru allt saman ósköp gamalkunnar nýaldarhugmyndir um guðdóminn, þreytt tugga hreinlega.


Dagur - 19/05/06 17:43 #

Merkilegt hvað þessi samtök ykkur þurfa að fara alltaf á lágt plan, þau eru ógeðslega ljót. Ég skil ekkert í fullorðnu fólki að nenna að reyna sýna fram á hvað trú sé slæm. Ekki trúi ég, en þar sem ég er ekki fábjáni hef ég alveg virðingu fyrir þeim sem trúa, jafn og þeim sem ekki trúa.

Þið eruð allir bara hrokagikkir, svona wanabe rebels, eins og illa skrifaðir unglingar í Þorgrímur Þráinsson bók. ""Ég trúi ekki á guð því það er ekki svalt...og ég reyki líka því ég hata kerfið"

Þið eruð of tilgerðarlegir.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/05/06 17:57 #

Alveg rétt hjá þér, Dagur. Næst þegar þú skrifar á vefinn okkar ættirðu að koma heiðarlega fram og nota raunverulegt netfang. Upp á það hljóða þær reglur sem við höfum sett hér á þessu ljóta mannvonskuvefsetri.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/05/06 20:43 #

"Ég trúi ekki á guð því það er ekki svalt...og ég reyki líka því ég hata kerfið"

Skemmtileg tilviljun, ég trúi einmitt ekki á Gvuð af sömu ástæðu og ég reyki ekki. Hvoru tveggja er tilgangslaus og heimskuleg iðja sem erfitt er að venja sig af.

Frekari athugasemdir með fölsku póstfangi verða fjarlægðar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.