Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kirkjusiður í svaðinu

Að undanförnu hefur mátt heyra biskup Þjóðkirkjunnar endurtaka í sífellu ágæti siðarins í landinu og nauðsyn þess að viðhalda honum. Ríka áherslu hefur biskup lagt á það að börnum sé kenndur siður aftan úr fornöld sem haldreipi næstu kynslóðar. Tökum gott dæmi um slíkan málflutning herra Karls Sigurbjörnssonar:

Við byggjum á trúarlegum og siðferðislegum arfi sem hefur reynst okkur vel. Við skulum tryggja það að grunnstoðir okkar menningar og samfélagsskipanar sem þjóðkirkjan hefur staðið fyrir séu styrktar, kristinn siður, með áherslu sína á mannúð, mannhelgi, réttlæti og miskunnsemi.

Stundum er ómögulegt að vita hvort viðeigandi sé að gráta eða hlæja að orðum biskups. Hvaða mannhelgi er biskupinn tala um eða miskunn? Því er vandsvarað. Til hvers var biskup að ganga iðrunargöngu á Kristnihátíðinni árið 2000? Ég held að hann vilji ekkert vita af því siðsins vegna. Klerkar blessuðu og fögnuðu tilkomu voðaverka meintrar mannúðarstefnu. Gangan endaði víst við hyl þar sem einstæðum mæðrum var drekkt og börnin þeirra gerð móðurlaus. Óviðeigandi var fögnuður kristinna vegna kristnitökunnar sem átti sér stað á Þingvöllum. Því þegar kristni komst á lagðist niður stolt okkar Íslendinga sem er Alþingi. Upphófst þá vígaöld Sturlungu með þeim afleiðingum að Íslendingar töpuðu sjálfstæði sínu.

Hver var svo siðpostuli og mannúðarmeistari hinnar Evangelísku Þjóðkirkju? Marteinn Lúter, höfundur siðbótarinnar, gyðingahatari og morðóður siðleysingi. Í bændauppreisninni 1524 sagði hann við lénsherrana hvað gera skyldi við bændur:

Skerið þá, slátrið og stingið... munið að það er ekkert eins eitrað, siðspillandi og djöfullegt eins og uppreisnarmaður.

Hátt í hundrað þúsund bændur voru myrtir og lagði Lúter alla sína blessun á verknaðinn. Um konur sagði Lúter:

Ef þær verða þreyttar og jafnvel þó þær deyi, þá skiptir það ekki máli. Það er í lagi þó þær deyi við barnsburð því það er tilgangur þeirra.

Er þetta fyrirmynd okkar nútímasamfélags? Er þetta siðurinn í landinu?

Fyrstu embættisverk Þjóðkirkjunnar og siðarins í landinu var að höggva trúbræður sína svo að höfuð skildi að búk. Mannúðarkirkjan skipti svo herfanginu með einvaldinum í Danmörku, sem hún slefaði utan í. Eftir fylgdi frekara réttlæti kirkjunnar sem hún kallaði Stóradóm. Aftökur, þar sem fólk var hengt, brotið, brennt og drekkt af fullkomnu miskunnarleysi. Síðan fylgdu þjófnaðir á landareignum og kirkjubyggingarbrjálæði hjá örsnauðri þjóð sem oft átti ekki til matar heldur notaði síðustu aurana í sóknarkirkjuna. Skemmtanir og dans lögðust af, húslestur og bænakvak tók við. Eymdin og hungrið glumdi í hverjum dal nema þar sem embættismenn kirkjunnar mökuðu krókinn.

Hér ríkti kvennakúgun, almúgaþrælkun og trúarofstæki sem bannaði alla aðra trú nema þann sið sem Þjóðkirkjan kenndi. Öllum var smalað til kirkju eða máttu hljóta verra af. Hér ríkti mannhatur, óréttlæti og miskunnarleysi. Hér lifði þjóð í hlekkjum hins kristilega hugarfars.

Þegar kom á 19. öld höfðu nýjar hugmyndir um velferð almúgans skotið rótum. Hugmyndir um sjálfsákvörðunarrétt fólks óháð veraldlegu valdi konunga og andlegu valdi kirkjunnar. Sumar hugmyndirnar voru mjög róttækar, allt frá frjálshyggju til kommúnisma. Þeim var öllum stefnt gegn alræði kirkju og konungs. Hugmyndasmiðirnir fyrir auknu frelsi og jafnrétti voru ekki biskupar eða kóngar. Nei, þeir höfnuðu sið kirkjunnar og mannvonsku hennar. Marga er hægt að nefna sem höfnuðu siðinum: Voltaire, Thomas Paine, Benjamin Franklin, Abraham Lincoln, John Stuart Mill eða Karl Marx svo nokkrir séu nefndir.

Þeir sem hötuðust gegn framförum réðust að vísindamönnum, héldu í þrælhaldið og í óréttlæti miðalda voru allir rammkristnir.

Til að losna undan þessu gífurlega óréttlæti sem kirkja og konungar höfðu skapað þurfti mikið að ganga á. Afleiðingarnar og eftirköstin voru öfgar 20. aldar, sem auðvelt hefði verið að forðast ef aldagamallt kristilegt embættiskerfið hefði gefið eftir á friðsaman hátt. Í þeim löndum þar sem kirkja og konungur gáfu eftir án ofbeldis náðust lýðréttindi og siðbót án mikils ofbeldis. Þannig náðist á Vesturlöndum ákveðinn málamiðlun um að kirkja og konungar fengju að stíga af valdastólum með fullri reisn. Eiginlega of mikilli reisn miðað við óskaplega og grimma fortíð sína.

Þökk sé kóngi og kirkjunni í Danmörku að íslenska hækjukirkjan varð að svara kalli tímans. Hún bakkaði reyndar með fullar hendur fjár sem hún rændi af landsmönnum gegnum aldirnar. Við getum þakkað frelsi og lýðréttindum þeim ofurhugum sem börðust gegn rotnuðu strangtrúarkerfi. Það er því hræðilegt að sjá biskupinn ræna menn hugmyndafræði sem skapaði velferð og aukin réttindi almennings og gera hana að sinni. Það sorglegt að þurfa minna biskup á fortíð embætti hans á Íslandi, sem er ósiður, ófrelsi og óréttlæti. Þess ber að minnast að kristnin fékk tækifæri í 900 ár og afleiðingarnar voru ömurlegar. Það er siðurinn sem við viljum aldrei aftur þurfa að þola.

Siðurinn í landinu heitir nú réttu nafni lýðræði og mannréttindi en ekki boðorðin tíu, stóridómur né faðir vor, verði þinn vilji eða tilkomi þitt ríki. Ég er kominn með upp í kok af matreiðslu biskups á hlutverki kirkjunnar hér á landi. Það er kominn tími til að kenna börnum hvaða stórmenni þorðu að standa upp gegn þeirri mannfjandsamlegu kristnu samfélagsgerð sem hér ríkti. Biskupinn vill að sjálfsögðu að börnin í skólanum séu látin drekka ólyfjan úr drekkingarhylnum, sleikja axir böðlanna, halda sig í hengingarreipin og ylja sér á bálköstunum. En það er kominn tími til að þessi stofnun taki ábyrgð á gjörðum sínum og viðurkenni endalaus afglöp sín. Við viljum að börnum séu kenndir mannasiðir mannréttinda og réttlætis en ekki siðir einvalds á himni og á jörðu.

Frelsarinn 07.04.2005
Flokkað undir: ( Klassík , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/04/05 00:12 #

Heyr heyr, Frelsari! Hrikalega góð grein. Hefðirðu skrifað hana fyrir 300 árum hefðirðu verið brenndur samdægurs.

Þessi endalausu hefðarök biskups eru engin rök. Hefðagælur eru afturhald og afturhald er stöðnun. Ógeðslegt hvernig þessi viðbjóðsstofnun hefur komist upp með alla sína kúgun, limlestingar og dauða gegnunm aldirnar. Hver sá sem í dag starfar fyrir hana ætti að skammast sín.


Karl Birkir - 07/04/05 00:31 #

Góð grein.

En mig langaði til að forvitnast, hvar finnið þið allar þessar tilvitnanir í hann Lúther?

Takk fyrir. :)


frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 07/04/05 00:40 #

Þessar þýðingar eru frá Sigurði Hólm á skodun.is.

Það eru til fjöldinn allur af greinum um Lúter á netinu.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 07/04/05 09:39 #

Afbragðs grein, orð í tíma töluð.

Prelátar Þjófkirkjunnar tönnlast sífellt á hversu bráðnauðsynlegt það sé að styrkja siðinn í landinu og heldur auka "fræðsluna" frekar en hitt. Jafnframt er samtímanum fundið allt til foráttu. Hvernig má það þá vera að meira af kristindómi, sem sannarlega hefur tröllriðið samfélaginu nú og um aldir, sé til þess fallinn að bæta ástandið?? Ég sé ekki betur en eðlilegt sé að álykta að kirkjunni hafi mistekist hrapalega og sé í raun rót vandans, en á engann hátt lausn þar á.


Geiri - 07/04/05 13:18 #

Lofaður sé Frelsarinn :-) Svona að öllu gríni slepptu frábær grein og það væri virkilega gaman að sjá viðbrögð eða svargrein frá biskupi við þessari sögulega, sorglegu, samantekt Frelsarans. Bk Geiri


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 07/04/05 18:07 #

Hrós og aftur hrós. Þetta er meðal þeirra bestu greina sem ég hef lesið. Minnir mig á skarpleika Níels Dungals og orðhnittni hans í bókinni Blekking og Þekking.


Þórður Sveinsson - 07/04/05 18:29 #

Í þessari mjög svo kjarnyrtu grein er vikið að Kristnihátíðinni árið 2000 og því að hér ríkti ekkert trúfrelsi; allir urðu að aðhyllast hinn kristna sið.

Það er auðvitað vegna þess að í kristnitökunni árið 1000 fólst afnám trúfrelsis. Fyrir kristnitökuna mátti fólk sem sé aðhyllast þá trú sem það vildi en varð eftir hana að taka kristni en sæta refsingu ella.

Er það ekki alveg einstaklega athyglisvert að fyrir örfáum árum hafi menn séð sérstaka ástæðu til að halda rándýra hátíð á kostnað fólksins í landinu til að fagna 1000 ára afmæli afnáms grundvallarmannréttinda á Íslandi – já, sjálfs trúfrelsisins?

Ég er búinn að vera að klóra mér í höfðinu út af þessu alveg síðan byrjað var að undirbúa þessa trúhelsishátíð.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 07/04/05 20:14 #

Brilljant.

Börnunum væri betur kenndur sannleikurinn sem er sá að kirkjan hefur alltaf verið dregin "kicking and screaming" til allra framfara af "mannúð, mannhelgi og réttlæti" annarra svo sem húmanískra heimspekinga eða stjórnmálahreyfinga og uppgötvana vísindanna.

Siðurinn í landinu. Það var þá.

93


Ágúst - 07/04/05 21:39 #

Vel skrifuð grein sem lýsir svo vel afskræmingunni. Ákaflega merkilegt hvernig hægt er að faguryrða böl mannsins. Það er að sorglegt að kirkjan sem átti (orðum samkvæmt) að standa fyrir göfugar hugsjónir, var bendluð við djöfulskap.

Í fögrum hugsjónum duga ekki yfirlýsingarnar einar. Að vita hvað skyldan bíður og vera tilbúinn að sinna kallinu er það eina sem dugir og gildir þar einu hvort um er að ræða háleita lífskoðun klerksins eða ríkisbubbans. Hið forsögulega vandamál, sem kemur svo vel fram í greininni, stafar af því að leiðtogum hefur verið tamt að maka frekar sinn eigin krók fremur en þjóna göfugum hugsjónum. Þeim er það of tamt að vera falsmyndir þess sem þeir þykjast standa fyrir. Það hefur gert þá að glæpamönnum og lygurum og vanhelgað það sem þeir þóttust standa fyrir.


ORK - 10/04/05 20:09 #

Amen, testify brother Svo að ég vitni í Simpsons Annars er þetta mjög góð grein og mætti svona rökstuðningur sjást á á fleirri stöðum en bara á vantrú


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/04/05 14:15 #

Í fögrum hugsjónum duga ekki yfirlýsingarnar einar.

Einmitt, það þarf að vera sjálfsgagnrýni og rökstuðningur fyrir hendi líka.

Á Mikka-vefnum mínum birtist nýlega þessi fyrirsögn frá kirkjan.is: ?Líkami Krists, lífsins brauð? Spurningarmerkin voru auðvitað gæsalappir sem Mikkivefur hafði ekki ráðið við að birta rétt, en þetta kallaði fram hjá mér þá hugsun að aldrei spyrja þessir söfnuðir sig hvort fullyrðingar þeirra séu örugglega réttar. Það er þeim einhvern vegið sjálfgefið.

En í staðinn spyr ég að því sem þeir ættu að spyrja sig sjálfa: Líkami Krists, lífsins brauð? Og auðsveip safnaðarbörnin spyr ég: Þurfið þið virkilega á þessari vitleysu að halda?


Þórður Sveinsson - 20/04/05 16:07 #

Ef til vill er við hæfi að rifja hér upp þessi orð Megasar:

því ef einhver er til sem ábyggilega er helgaður þá er það Lúther – grillspjóti andskotans

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.