Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Egill Helgason sér ekki muninn

Í sjónvarpsfréttum gærkvöldsins talaði Sigurður Hólm, varaformaður Siðmenntar, um trúboð í skólum og hversu óverjandi það væri í fjölmenningarsamfélagi að börnin fengju slíka trúarinnrætingu. Egill Helgason sjónvarpsmaður bregst við þessum orðum Sigurðar á Vísir.is í dag.

Egill segir meðal annars:

Nú vill svo til að við erum á kristnu menningarsvæði. Við erum sprottin úr menningu sem hefur verið kölluð júdeo/grísk. Kristnin er samofin sögu þjóðarinnar í meira en þúsund ár - í því sambandi má hvetja menn til að lesa bókaflokk Péturs Gunnarssonar, Skáldsögu Íslands, þar sem hann rekur saman örlög þjóðarinnar og kirkjunnar með listilegum hætti. Ekki hægt að skilja menningu okkar nema að hafa þekkingu á kirkju og kristni. Í raun held ég að fremur ætti að kenna meiri kristni heldur en minni - það má svo láta smá íslamstrú og búddisma fylgja með ef menn vilja.

Magnús Kjartansson, einn harðasti baráttumaður kommúnista á síðustu öld, þótti frábær pistlahöfundur. Ein helsta ástæðan fyrir því var hvað Magnús var biblíufróður, hann var sífellt með biblíutilvitnanir á hraðbergi sem hann setti oft í eitrað samhengi. Samt held ég að Magnús hafi verið trúleysingi. En hann skildi menningarlegt gildi kristininnar.

Augljóst er að Egill ruglar hér saman fræðslu og trúboði. Sigurður kvartar yfir trúarinnrætingu en lætur þess hvergi getið að hann vilji úthýsa fræðslu um þessi trúarbrögð. Ég held að menn séu almennt á því að nausynlegt sé að kenna um kristni og ítök hennar í sögu þjóðarinnar, rétt eins og fræðsla um íslam, búddisma, hindúisma og allt hitt hégiljudótið er hið besta mál.

Trúboð innan veggja skólanna er aftur á móti fullkomlega siðlaust. En Egill talar eins og þessir tveir þættir, trúboð og fræðsla um trúarbrögð, séu eitt og sama fyrirbærið. Auðvitað eru þetta tveir fullkomlega óskyldir hlutir, en greinilegt er að Egill, þessi skarpi menningarrýnir, kemur ekki auga á það.

Hvað veldur?

Birgir Baldursson 21.02.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Bjoddn - 21/02/05 15:13 #

Hvað veldur?...innrætingin að sjálfsögðu, það er ekkert skilyrði að vera fáviti til að verða fórnarlamb heilaþvottar.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/02/05 15:54 #

Einmitt.


Jón Valur Jensson - 22/02/05 00:59 #

Trúar- og siðferðisáhrif í skólum

Ég er mjög sammála viðhorfi Egils Helgasonar (á visir.is) til kristnu uppeldisþáttanna í skólakerfi okkar. Í kvöld var Sigurður Hólm Gunnarsson að ræða þetta mál í Kastljósi Sjónvarpsins og “á móti” honum Adda Steina Björnsdóttir sem starfar á Biskupsstofu. Ekki heyrði ég upphafið, en skilja mátti, að þetta var vitræn, fáguð umræða, Sigurður t.d. mun sanngjarnari og hófsamari en það sem ég hef séð um þessi mál frá sumum vantrúarmönnum. (Það væri alveg þess virði ef einhver slæði inn öllu spjalli þeirra SHG og Öddu Steinu og birti á þessum vef eða öðrum.)

Einu vil ég þó sérstaklega taka á í málflutningi Sigurðar Hólms (og reyndar Öddu Steinu líka). Undir lokin talaði hann um sín eigin sjónarmið á þann veg, að “þetta er gert í nafni umburðarlyndis og frelsis, að allir séu velkomnir í skólann og þar séu öll sjónarmið jafnhá”. Þessu síðastnefnda er ég algerlega ósammála. Fáir myndu vilja, að börn þeirra alist upp í siðferðislegu tómarúmi eða svífandi um í lausu lofti í stórmarkaði allra mögulegra framboðinna lífsskoðana, trúarviðhorfa og ‘isma’, án þess að börnunum sé veitt þar nokkur leiðsögn um rétt eða rangt (sjá neðanmálsgrein.)

Foreldravaldið hlýtur að vera grunntónn í allri umræðu um þessi mál – foreldrunum er falið að sjá um uppeldi barna sinna og eiga því heimtingu á, að þau verði ekki fyrir innrætingu í andstæðum lífsviðhorfum í leikskólum eða skólakerfinu. Nú trúa 80-90% Íslendinga á Guð og tilheyra kristnum kirkjum (jafnvel trúa 67%, að Jesús Kristur hafi risið upp frá dauðum, skv. skoðanakönnun sem birtist í Fréttablaðinu 28/3/04). Gagnstætt hlutleysishyggjunni (sem tengist úreltum uppeldiskenningum) hlýtur þess vegna íslenzkt samfélag að vilja stuðla að því að halda jákvæðum, einkum kristnum, lífs- og siðferðisviðhorfum að börnum, þ.m.t. í skólunum – bæði vegna hugmyndaarfs foreldranna og eins til að við getum nálgazt það markmið, að samræmi og samhengi megi ríkja milli þjóðfélagshópa og kynslóða í landinu.

Er ekki valið tiltölulega auðvelt?: Við eigum ekki að kasta út gildum okkar og fá ekkert í staðinn – eða bara upplausn og neikvætt niðurrif, heldur eigum við að rækta garðinn okkar (ekki alla garða!), en vitanlega með umburðarlyndi fyrir viðleitni annarra í vegarnesti.

Með þessu skrifi tek ég afstöðu gegn þeirri útþurrkunarhyggju gagnvart gildum í skólastarfinu, sem í raun var fólgin í framsetningu SHG hér á undan, jafnvel þótt hann myndi kannski seint kannast við, að hlutleysishyggja hans fæli í sér jafnmikla undanlátssemi við hugmyndafræði og hugarfar Hitlers eða Stalíns eins og Krists eða Búddha.

Sú villa er of oft endurtekin á síðari árum, að íslenzka lýðveldið sé siðferðislega hlutlaust. Alveg eins og við höfum ekki verið hlutlaus í ágreiningsmálum stórveldanna frá og með inngöngu okkar í Atlantshafsbandalagið 1949, þannig hefur lýðveldið heldur ekki verið hlutlaust um siðferðis- og lífsviðhorf allt frá upphafi sínu 17. júní 1944 (og þjóðin raunar miklu lengur). Með ákvæði 62. gr. stjórnarskrárinnar um, að evangelísk-lútherska kirkjan sé þjóðkirkja Íslands, er siðfræði heilagrar Ritningar og kristinnar trúar meðtekin sem grunnurinn að siðgæði þjóðarinnar. Á meðan það ástand varir, er beinlínis rangt að ætlast til þess, að engir skólar né leikskólar leyfi bænir og kristna fræðslu. Engin börn ókristinna foreldra má þó neyða til trúar- og siðferðisfræðslu með kristnu inntaki, sbr. 63. grein sömu stjórnarskrár. Af þessu leiðir líka, að rangt er að neita því (eins og Adda Steina gerði í Kastljósþættinum), að boða megi kristna trú og hlynna að henni með margvíslegum hætti í skólum. Það, sem ég á hér við, er, að trúuðum foreldrum á að vera frjálst að reka einkaskóla (eða senda börn sín í þá), þar sem m.a. slík fræðsla fer fram. Vitaskuld þarf einnig eftirlit skólayfirvalda, ef þetta er reglulegur skóli, sem t.d. fer fram á framlög frá sveitarfélaginu – já, eftirlit ekki aðeins með inntaki og gæðum námsskrárinnar og almennrar kennslu, heldur líka með því, að í þeirri trúarfræðslu fari ekkert það fram, sem heitið geti “gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu,” eins og segir í þeirri sömu 63. stjórnarskrárgrein. Undir slíkum skilyrðum á að vera hægt að leyfa bæði kristna og múslimska skóla hér á landi – sem og skóla fyrir börn Siðmenntarmanna og fólks af flestum trúarbrögðum.

Neðanmálsgrein: Formúla SHG gengur í raun út á, að við megum ekki gera upp á milli hollra áhrifa og óhollra; siðferðislegt afstöðuleysi (móralskur indifferentismi) yrði rökrétta niðurstaðan úr því, og það sama yrði þá eins að ganga út yfir allar Weltanschauungen og stjórnmálastefnur – rangt væri t.d. að halda því að börnum, að nazismi, Apartheid-stefna, herskár Islamismi eða bolsévismi, sem lætur tilganginn helga meðalið, væru nokkuð lakari valkostir en hófsamur húmanismi, kristin varðveizlustefna eða sócíaldemókratismi; og á trúarlega sviðinu væru blóðug fórnartrúarbrögð (eins og tíðkuðust í fornöld – og í Ameríku þegar hvítir menn fundu hana), Satanismi og andfélagsleg afbrigði trúar (sbr. safnaðarleiðtoga sem hafa tekið hundruð safnaðarmeðlima með sér í dauðann) allt eins rétthá fyrirbæri og gert jafnhátt undir höfði í kynningu trúarviðhorfa eins og friðsömum taóisma, Búddhisma, kristinni trú, gyðingdómi og Islam. Egóismi í siðferðisefnum, hedónisk nautnahyggja og lausung t.d. í kynferðis- og samskiptaefnum (líbertaríanismi í ýmsum myndum) og öfga-frjálshyggja um aðgengi að eiturlyfjum, allt þetta væri þá sett á sama bekk og þær siðakenningar, sem hingað til hafa verið taldar uppbyggilegar fyrir ungar sálir, s.s. virðing fyrir skyldutilfinningunni, virðing fyrir foreldrum, manni sjálfum og samfélaginu, að ógleymdri leiðsögn Krists um bróðurkærleika undir föðurumhyggju Guðs.

PS. Ég hef áður fjallað um þetta mál – og þá með öðrum hætti – á þessu vefsetri, á slóðinni FAQ: Ríkir ekki trúfrelsi á Íslandi? – í allnokkrum innleggjum þar, enda var þá hart að mér saumað. Sennilega verð ég nú ásakaður um að hafa horfið til baka til enn meiri íhaldsmennsku, en ofangreind viðhorf mín (viðbragð mitt við skrifi Egils á visir.is) eru þó mat mitt að velhugsuðu ráði.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 22/02/05 01:12 #

Ég held að þú sért örlítið að misskilja þennan vettvang Jón Valur. Hugmyndin er að lesendur Vantrúar geri athugasemdir við það sem hér er skrifað, ekki að þeir skrifi ritgerðir um efni sem tengist greininni í besta falli óbeint. Í síðustu athugasemd má með góðu móti segja að fyrsta setningn tengist efni greinarinnar, restin er allt önnur umræða.

Ef þig langar að skrifa grein á Vantrú er það hið minnsta mál, þú getur haft samband við okkur og það er alls ekki ólíklegt að við myndum birta þvaðrið.

En vinsamlegast ekki senda copy/paste greinar í athugasemdum. Það er bara dónaskapur.


Jón Valur Jensson - 22/02/05 01:29 #

Fyrirgefðu mér þetta, Matti, það var ekki meiningin að vera með neinn dónaskap, – ég sá bara, að lítil umræða var um þetta hér og taldi ykkur kannski til í að takast á við það sem ég fullyrti í þessu skrifi mínu. En ég þakka fyrir gott boð að fá – hugsanlega – að birta grein á þessu vefsetri.


Sigurður Hólm Gunnarsson - 22/02/05 13:54 #

Ég bendi á að ég hef svarað þessum pósti Jóns á vefsíðu Egils: http://www.visir.is/?&pageid=539&newsid=31632&Page=2


Jón Valur Jensson - 22/02/05 14:26 #

Þakka þér ábendinguna, Sigurður.


Jeremía - 22/02/05 16:28 #

Ég er búinn að svara þessu á bloggsíðunni minni: http://jeremia.blogspot.com/2005/02/kristnifrikennsla-grunnsklum.html


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 22/02/05 17:22 #

Kaþólikkar á móti kynfræðslu - það er kúnstugur hópur.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 23/02/05 11:58 #

Egill Helgason rembist við að skilja þetta mál illa eða alls ekki.

Í nýjasta innleggi sínu segir hann um viðbrögðin.

Annars skil ég ekki að það sé svo óskaplegt mál að verið sé að kenna dálítinn kristindóm - jafnvel þótt slæðist inn í skólana stöku bænir. Það er bara fals að vilja skrifa kristnina út úr sögunni í nafni einhverrar fjölmenningar. Á löngum tíma hafa þróast gildi þessa samfélags sem við búum í - það er engin goðgá að fullyrða að líklega séu þetta mannúðlegustu og bestu samfélög sem nokkurn tíma hafa verið til á jörðinni. Kristnin á þar talsverðan hlut. Þetta eru gildi sem á að rækta, ekki hlaupa í felur með.
Hverjir vilja "skrifa kristnina úr sögunni"?

Af hverju virðast trúmenn eiga svona erfitt með að sjá aðra hlið á málum en sína eigin.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/02/05 12:37 #

Hvað gengur að manninum? Einu rök hans eru að gera öðrum upp skoðanir.

Enginn vill úthýsa fræðslu um kristindóm í skólum. Raunar er ég sammála Agli um að þessa fræðslu þurfi að auka og draga þá ekki undan allan viðbjóðinn sem finna má í Biblíunni auk allra þeirra hræðilegu verka sem kristin kirkja ástundaði gegnum myrkar miðaldirnar.


Þorgrímur Tjörvi - 24/02/05 15:55 #

Alveg er ég sammála því að auka þurfi fræðslu á því sem gert hefur verið í nafni guðs og kirkjunnar.. Það þarf ekki af fara langt til að finna allskyns viðbjóð, það er ekki lengra síðan en rúm hundrað ár síðan trúboðastefna kaþólsku kirkjunnar tröllreið afríku, þar sem þjóðarmorð áttu sér stað með blessun kirkjunnar, allt gert með þeim "göfuga" tilgangi að boða orð guðs..


Jón Valur Jensson - 25/02/05 13:31 #

Öfgafull er þessi ræða, Þorgrímur Tjörvi, eða hvaða þjóðarmorð í Afríku á kaþólska kirkjan að hafa lagt blessun sína yfir?

Hverjir vilja "skrifa kristnina úr sögunni"? spyr Matti. Mér hafa nú sýnzt Vantrúarmenn býsna viljugir til að slá striki yfir allt það góða, sem kristnin hefur fært heiminum, en þeim mun fúsari að vísu til að gera sem mest úr því, sem miður hefur farið. Þið megið nú ekki gleyma því, að þeir menn eða þær þjóðir, sem taka trú, hætta ekki að vera mannlegs eðlis fyrir því, með allri þeirri áhættu á mannlegum skeikulleik, mistökum, sviksemi og illum verkum, sem því fylgir; en það sem einhver gerir af slíkum hvötum, án tillits til eða í trássi við þá trú, sem hann einhvern tímann tók eða þykist hafa, það verður hvorki eignað þeirri trú né náðarkrafti Guðs sem áhrifavaldi. Ég veit, að þið svarið þessu með því að benda á ýmislegt, galdrabrennur, trúvilluofsóknir, krossferðir og sumt í Gamla testamentinu, sem sönnun fyrir því, að illvirki geti verið trúarlega mótíveruð. Ekki hef ég tíma til þess hér og nú að glíma við þá sterku röksemd – við getum rætt það mál seinna, enda þess vert – en hitt er staðreynd, að þið talið jafnan eins og trúin geti einungis verið mannkyni til óþurftar og miska. Orð Egils í rammapistlinum hér ofar eru ágætis áminning til ykkar um, að svo sé ekki – þvert á móti hafi kristindómurinn stuðlað að meiri mannúð og mildi meðal kristnu þjóðanna en margar aðrar þjóðir hafa fengið að njóta. Ég vil bæta við, að kaþólsk guðfræði- og heimspekihugsun á miðöldum fór í þann eindregna farveg hjá sumum helztu fulltrúum skólaspekinnar (einkum Tómasi frá Aquino), að það stuðlaði að viðurkenningu á skýrri aðgreiningu hins andlega og veraldlega, trúar og skynsemisfræða, guðfræði og heimspeki, kirkjulegs valds og veraldlegs – og að sjálfræði vísindanna, í stuttu máli sagt: stuðlaði að þeirri secúlaríseringu, sem þróaðist í sívaxandi mæli á Vesturlöndum, eftir því sem á leið frá síðmiðöldum og langt fram á nýöld, og átti sinn stóra þátt í þeirri frelsishreyfingu úr viðjum gamalla valdastofnana og bannhelgi, sem ríkt hafði lengi, m.a. gagnvart sumum rannsóknarefnum vísindanna og ennfremur gagnvart nýtingu náttúrunnar fyrir mannkynið. Um þetta er t.d. fjallað á mjög ferskan hátt í lítilli bók, God´s Grace in History, eftir þann ágæta Charles Davis, sem þá var kaþólskur prestur og guðfræðikennari, en sagði síðar af sér prestsskap og kvæntist (fráhvarf hans frá móðurkirkjunni hefur mér alltaf þótt mikill skaði, því að hann var einn skýrasti hugsuður enskra guðfræðinga og unun að lesa hans lipru, en djúpthugsuðu texta). Annars hafa margir aðrir fjallað um nefnt efni fyrr og síðar, þótt við hér á Íslandi séum aftarlega á merinni í upplýsingu þar eins og um margt annað á sviði guðfræði og heimspeki.

Að lokum bendi ég á mönnum á, að umræðan á þessum vef Egils um trúarleg áhrif í skólakerfinu hélt áfram frá því, sem komið var, þegar ég sendi ykkur pistilinn um daginn, það er á ÞESSARI VEFSLÓÐ (http://www.visir.is/?&pageid=539&newsid=31632&Page=2), með t.d. innleggjum frá mér, Sigurði Hólm Gunnarssyni o.fl., en sú vefsíða endar reyndar á ósvífnu höggi undir beltisstað á sjálfum mér, og svara ég því o.fl. (auk innleggja frá öðrum) á næstu (3.) vefsíðunni.

Við getum a.m.k. öll verið sammála um, að umræðan um trúarlegt efni og uppeldisáhrif í skólum er nauðsynleg. Þetta málefni verður sennilega tekið fyrir í Silfri Egils nk. sunnudag.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.