Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gagnaugablaðsflogaveikin fer ekki í "trúgreinarálit"

Hindúar hafa beina reynslu að guðum sínum. Það hafa múslimar líka, Allah talar til margra þeirra á sama hátt og guð kristinna manna talar til margra þeirra sem lifa og starfa allt í kringum okkur.

En getur þessi reynsla verið rök fyrir tilvist guðanna? Ef svo væri yrðum við að ganga út frá því að allir þessir guðir séu til, líka þeir sem tilheyra útdauðum trúarbrögðum. Í það minnsta erum við ekki þess umkomin að skera úr um hverjir þessara guða eru raunverulegir og hverjir ekki.

Ef einhverjir þessara guða, sem menn hafa haft af beina reynslu, eru ekki annað en afurð heilastarfsins, af hverju þá ekki allir? Nú er það staðreynd að flog í gagnaugablöðum heilans valda trúarlegum upplifunum, guðlegri návist. Og þegar gagnaugablöð manna eru ert með rafstraumi fer það eftir trú þeirra hvaða goðaverur láta sjá sig.

Guðfræðingar dagsins í dag eru farnir að segja það berum orðum að Biblían sé ekki innblásið orð Guðs, heldur fremur heimildarrit um reynslu mannanna af Guði. Þessi yfirlýsing þeirra er skynsamleg og rökrétt, en gjaldfellir um leið Biblíuna, sé tekið mið af ofangreindum rökum.

Reynsla manna af guðum er einfaldlega engin sönnun fyrir tilvist guðanna. Flogaskýringin er þar að auki bæði einfaldari og rökréttari en að halda guðlegri tilvist fram. Það gildir líka um hinn kristna Guð almáttugan. Og nú þegar menn hafa áttað sig á því út á hvað Biblían gengur er tímabært að fara að skoða þessa hluti í réttu samhengi. Gagnaugablaðsflogaveikin er ekki eitthvað sem kemur bara fyrir fólk af öðrum trúarbrögðum. Hún er einnig orsökin fyrir hugmyndum gyðinga og kristinna manna um Guð Abrahams, þann er sæddi Maríu. Biblían skýrir meira að segja afar vel frá öllum flogum þeirra sem hana rita. Hér eru nokkur dæmi:

Og er Bíleam hóf upp augu sín og sá Ísrael, þar sem hann lá í herbúðum eftir kynkvíslum sínum, kom andi Guðs yfir hann.

Er þeir komu til Gíbeu, kom hópur spámanna á móti honum. Og andi Guðs kom yfir hann, svo að hann komst í spámannlegan guðmóð meðal þeirra.

Þá kom andi Guðs yfir Asarja Ódeðsson.

En andi Guðs hreif Sakaría, son Jójada prests, svo að hann gekk fyrir lýðinn og mælti til þeirra: ,,Svo segir Guð: Hvers vegna rjúfið þér boðorð Drottins og sviptið yður allri hamingju? Sakir þess að þér hafið yfirgefið Drottin, þá yfirgefur hann yður.

Andi Drottins kom yfir hann, svo að hann rétti hluta Ísraels. Fór hann í hernað, og Drottinn gaf Kúsan Rísjataím, konung í Aram, í hendur honum, og hann varð Kúsan Rísjataím yfirsterkari.

...og mátti Móse ekki inn ganga í samfundatjaldið, því að skýið lá yfir því og dýrð Drottins fyllti búðina.

Þá huldi skýið samfundatjaldið, og dýrð Drottins fyllti búðina...

Birgir Baldursson 16.10.2003
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Snæbjörn - 17/10/03 20:17 #

Hmm, já, það væri gaman að vita hvað gerist þegar gagnaugablöð trúleysingja eru ert ...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/10/03 13:12 #

Trúleysingjar hafa lýst upplifunum sínum á einhverri óskilgreindri og þægilegri nálægð við slíkar tilraunir.


eva - 25/10/03 11:37 #

Er það ekki líka svona gagnaugablaðaflog sem veldur þeirri guðdómlegu upplifun sem fólk finnur fyrir þegar það heyrir tónlist sem því finnst dásamleg, kemst í symbíóskt samband við náttúruna, lifir sig inn í ljóðalestur, lifir kynlífi, faðmar barnið sitt o.s.frv?

Einu sinni kenndi ég stúlku sem hélt því fram að Guð héldi til í fjárhúsinu heima hjá henni. Hún fyndi nefnilega fyrir návist hans í hvert sinn sem hún tæki á móti nýju lambi. Er það nokkuð ómerkilegri guðdómur sem býr í gagnaugablöðkunum en sá sem býr á himnum?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/10/03 01:46 #

Ég veit ekki hvort þetta sem þú tiltekur, Eva, flokkist beinlínis undir ofskynjanir eða er frekar bara svona fílingur sem fólk kemst í. Gagnaugablaðsflogaveikin veldur raunverulegum ofskynjunum í þessum efnum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.