Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Frumvarp til nýrra ríkiskirkjulaga á Alþingi

Mynd af Alþingi

Í gær var frumvarpi til nýrra ríkiskirkjulaga útbýtt á Alþingi. Frumvarpið felur í sér lítið skref í átt að aðskilnaði ríkis og kirkju að því leytinu til að alls konar smáatriði um starfsemi ríkiskirkjunnar eru tekin út. Hins vegar felur frumvarpið líka í sér stórt stökk frá aðskilnaði ríkis og kirkju, þar sem nýjar greinar sem styrkja tengsl ríkis og kirkju bætast við.

Gegn yfirlýstu markmiði

Samkvæmt greinargerðinni er markmið frumvarpsins “að einfalda til muna löggjöf um þjóðkirkjuna og færa ákvörðunarvald um skipan kirkjunnar, sem kveðið er á um í löggjöf í dag, til kirkjuþings” og sagt að ef frumvarpið verði “að lögum mun sjálfstæði þjóðkirkjunnar aukast stórlega". Sagt er að þetta eigi að vera þróun í því að Þjóðkirkjan verði enn frekar “sjálfstætt trúfélag" en ekki “opinber stofnun".

Einföldunin og sjálfstæðið felst helst í atriðum eins og að það verður ekki lengur kveðið á í lögum um prófasta, vígslubiskupa og fleira í þeim dúr. Þjóðkirkjan mun ráða öllu þessu sjálf. Svo fylgir með frumvarpinu að ýmis löngu úrelt lög verða felld úr gildi (t.d. tilskipun eins danakonungs sem hefur í raun þýtt að flestar fermingar Þjóðkirkjunnar eru ólöglegar).

Hins vegar eru nýjar greinar í frumvarpinu sem ganga þvert á það markmið að einfalda löggjöfina og draga úr sjálfstæði Þjóðkirkjunnar.

Helst má þar nefna 3. grein frumvarpsins, þar sem segir meðal annars:

Þjóðkirkjunni ber að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni.

Það er ekkert í núverandi lögum um að Þjóðkirkjan skuli starfa á landinu öllu og tryggja að landsmenn allir geti átt kost á henni. Þarna er ríkið að skerða sjálfstæði Þjóðkirkjunnar með því að þvinga hana til þess að starfa á öllu landinu.

Þrátt fyrir að þessi grein skerði sjálfstæði Þjóðkirkjunnar, þá er góð ástæða fyrir því að yfirstjórn Þjóðkirkjunnar er ánægð með hana. Því að eins og fram kom á kirkjuþingi, þá mun þetta verða “sóknarfæri" þegar Þjóðkirkjan reynir að fá aukna fjármuni frá ríkinu[1].

Önnur nýmæli eru líka gegn yfirlýstu markmiði laganna en munu eflaust ekki geta falið í sér meiri fjárútlát til Þjóðkirkjunnar, svo sem 4. grein frumvarpsins:

Þjóðkirkjan skal í starfsháttum sínum halda í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis.

Það er auðvitað fínt ef trúfélög vilja starfa á jafnræðis- og lýðræðisgrundvelli, en af hverju er ríkið að skylda eitthvað “sjálfstætt trúfélag" til að gera þetta? Lögin eru að miklu leyti svona atriði sem engum myndi detta í hug að ríkið setti um “sjálfstæð trúfélög".

Ef dómsmálaráðherra og Alþingi vilja í raun gera ríkiskirkjuna að sjálfstæðu trúfélagi, þá ættu þau að taka allt úr þessum lögum sem er ekki nauðsynlegt. Sú er ekki raunin í þessu frumvarpi og ef eitthvað, þá mun það styrkja tengsl ríkis og kirkju.


[1] Hjalti Hugason í umræðum um þetta mál á kirkjuþingi 2020-09-12, ~2:32:00

Ritstjórn 10.03.2021
Flokkað undir: ( Ríkiskirkjan )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/03/21 17:03 #

Ummæli Hjalta Hugasonar, sem vísað er á neðanmáls, eru sláandi.

Það er alveg ljóst að þriðja grein er sett inn til að tryggja Þjóðkirkjunni aukið fé til langframa, sama hvernig þróunin verður á trúfélagsaðild landsmanna. Það hlakkar eiginlega í Hjalta þarna á kirkjuþingi, þetta er svo jákvætt fyrir kirkjuna.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.