Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Tómhyggja Hannesar Péturssonar

Kettlingar

Þegar ég var menntaskólanemi og síðar ungur fullorðinn maður fannst mér oft eins og ég væri eini trúleysinginn í heiminum. Það þótti ekki til siðs í þá daga (já, það er svona stutt síðan) að vera mikið að úttala sig um að guðir væru ranghugmynd og mýta, enda var kirkjan alltumlykjandi í samfélaginu, átti skuldlaust allar stórhátíðirnar og stóru stundirnar í lífi manna. Hvað sem öllum vísindum leið áttum við að líta upp til presta og helst vera auðmjúk, spariklædd og pen í návist þeirra.

Og fyrst trúleysið var svona mikið tabú fannst mér reyndar dálítið gaman að ögra öðru fólki með því. Ég man eftir hljómsveitaræfingum sem leystust upp í rökræður við félaga mína sem komu frá trúuðum heimilum. En samt var þetta ekki alveg án sektarkenndar því mér fannst ég stundum vera óttalegur púki, næstum eins og útsendari illra afla sem vildu grafa undan allsherjarreglu samfélagsins.

Mér fundust hugmyndir mínar og heimsmynd nánast vera byltingarkennt stöff, þótt á síðari árum hafi manni orðið ljóst að aðrir voru búnir að hugsa allar þessar hugsanir áður og setja á blað. Maður vissi bara ekki af þeim, vantaði að vera betur víðlesinn. Að við værum bara kjötvélar í tilgangslausri veröld? Kirkjan varaði við slíkum þankagangi og hafði gert um aldir.

Þess vegna var það alltaf svo kærkomið að þegar maður rakst á skrif manna sem maður gat verið viss um að skildu mann. Eitt af stóru andartökum lífs míns var þegar ég las fyrst kvæði Hannesar Péturssonar sem nefndist Kópernikus:

Á kvöldin undir kveiktu tungli og stjörnum
koma þeir heim af ökrunum. Lágan óm
ber vindur frá klukku er álútu höfði og hljóðir
halda þeir stíginn hjá veðruðum róðukrossi með
feðranna gömlu, gnúðu amboð á herðum
en glaðir að allt skuli bundið svo föstum skorðum:
sjá þarna tungl og vindar, hér vegur og blóm.

Þeir vita' ekki að hann sem heilsar þeim oft á daginn
hjó þessa jörð af feyskinni rót - og henti
sem litlum steini langt út í myrkur og tóm.

Ég man enn gæsahúðina sem hríslaðist um mig. Enn í dag hef ég tilhneigingu til að fá tár í augun við að lesa þetta ljóð, eða bara hugsa um það, svo kærkomin var þessi gjöf Hannesar. Þarna kemur allt heim og saman - hin trénaða heimsmynd sem birtist í gömlum verkfærum og veðruðum krossi. Feyskin rót. Í fáum orðum undir lokin nær Hannes að stúta þessu öllu og sýna okkur fram á hve stórkostleg hún var sú hugarfarslega bylting sem þessi sextándualdarmaður hrinti af stað.

En maður spyr sig líka hvers vegna það hefur ekki tekist á fjórum til fimm öldum frá því að jörðini var kastað út í tómið að festa þann stórfenglega sannleika almennilega í sessi. Jú við hér í norðrinu erum svo sem að verða ágætlega sett í þessum efnum og helstu nágrannalönd okkar líka, en restin af heiminum er enn að paufast um í myrkri fullu af englum og djöflum. Fólk ver stórum hluta ævi sinnar í að fara með þráhyggjuleg ritúöl til að bægja frá sér illum öflum, eins og prestarnir í nærsamfélagi þeirra hafa kennt þeim.

Sturlað. Má ég þá frekar biðja um tómhyggju Hannesar Péturssonar.

Hún birtist manni út um allt í ljóðum hans, en aldrei sem bölsýni heldur er hún “fyrst og fremst lofsöngur um lífið í skugga dauðans”, eins og Skafti Þ. Halldórsson orðar svo fagurlega í gamalli Moggagrein um ljóðlist Hannesar. Þar birtir Skafti líka þetta stutta ljóðbrot sem tekur af allan vafa um hvað tómhyggja Hannesar snýst:

Þyrstum huga safna ég lífinu saman
í sérhverri hreinni nautn: í lestri, í kossi -

svo allt verður tilfinning, dýrmæt og

daglega ný.

En Dauðinn á eftir að koma. Hann veit

hvar ég bý.

Þetta er einmitt það sem við háværu trúleysingjarnir í samfélaginu höfum verið að hamra á í seinni tíð, að lífið er núna og eins gott að njóta þess, hvað sem líður öllu tali prestanna um guðlausa efnishyggju. Sjálfir hafa þeir í aldanna rás lofað efnishyggjulegu munaðarlífi þegar við erum dauð, en því aðeins að við neitum okkur um lystisemdirnar meðan við lifum. Hvílíkur boðskapur það, þrælslund, undirgefni og eymdardekur í skiptum fyrir ei-lífið þar sem, í sjúklegum hugarheimi þeirra, við fáum að lifa sem konungborið fólk.

Nei, þá kýs ég frekar Hannes allan daginn, alla daga. Tómhyggja hans er fögur. Og ekki bara fögur, hún er stórkostleg. Það finn ég best á gæsahúðinni.

Birgir Baldursson 20.02.2019
Flokkað undir: ( Efahyggja , Hugvekja )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?