Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kristur - Saga Hugmyndar

Bókin sjálf

Nýlega kom út bókin "Kristur - Saga hugmyndar" eftir Sverri Jakobsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Það er ekki oft sem að íslenskir fræðimenn birta heilu bækurnar um Jesú sjálfan og því var mjög spennandi að sjá hvað einn helsti sagnfræðingur landsins hafði til málanna að leggja.

Efni bókarinnar

Eins og nafnið gefur til kynna þá er bókin að mestu leyti hugmyndasaga. Sverrir skrifar um hugmyndir sem kristnir höfðu um Jesú frá fyrstu öld að upphafsöldum miðalda. Hann er ekki mikið að velta fyrir sér hvernig Jesús var í raun og veru (og útskýrir af hverju).

Bókin byrjar á stuttri kynningu á aðstæðum við botn Miðjarðahafs á fyrstu öld og Sverrir bendir á þær hreyfingar og hugmyndir sem svipuðu að sumu leyti til ýmissa atriða í frumkristni (til dæmis minnist hann á hundingja og aðra meinta messíasa).

Stærsti hluti bókarinnar fer svo í að skoða hvaða hugmyndir um Jesú er að finna í elstu heimildunum um hann, til dæmis söguskrif Jósefusar og auðvitað Nýja testamentið.

Þar eftir eru stuttir kaflar um hinar ýmsu frumkristnu trúarhreyfingar sem urðu síðar flokkuð sem “villutrú" (t.d. Markíon og Ebíonítar) og þær hugmyndir sem elstu kirkjufeðurnir höfðu um Jesú.

Síðasti þriðjungur bókarinnar fjallar um deilur um Jesú sem komu upp á meðal kristinna manna eftir tíma frumkristni. Svo sem Aríusardeiluna (er Jesús fyrsta flokks eða annars flokks guð?) og Nestoríusardeiluna (var Jesús með eitt eða tvö eðli?).

Fínt inngangsrit

Eins og Sverrir sagði í fyrirlestri um efni bókarinnar, þá eru ekki “óhefðbundnar hugmyndir" í henni, heldur er hann að “fylgja meginstraumnum". Það er ekki hægt að deila um það. Fólk með brennandi áhuga á frumkristni á eftir að finna sumt sem það er ósammála, þar sem hann er kannski að fylgja straumnum of mikið.

Bókin er fínt yfirlit um samtíma Jesú, helstu rit Nýja testamentisins, hinar ýmsu hugmyndir í frumkristni og svo kristsdeilur fyrsta árþúsundið.

Þó ég hafi sumt við bókina að athuga[1] þá er frábært að fá efni frá hágæða sagnfræðingi um frumkristni. Þetta er vafalaust besta inngangsbókin í Nýjatestamentisfræðum sem er til á íslensku[2] sem ég veit af og vonandi lesa sem flestir hana og vonandi munu allir heyra það litla sem hann hefur þó að segja um hinn sögulega Jesú.

Hvern segir Sverrir Jesú vera?

Sverrir útskýrir ágætlega af hverju hann skrifar ekki um það hver Jesús var í raun og veru:

Hver var Jesús Kristur í raun? Þeirri spurningu verður ekki svarað á grundvelli þeirra heimilda sem til eru um hann. Það er ekki hægt að fletta goðsögunni ofan af Jesú og finna manninn á bak við hana, einsog Júdas Ískaríot boðar í hinni kunnu rokkóperu eftir Andrew Lloyd Webber og Tim Rice. Það er einungis hægt að segja mismunandi sögur af Kristi og rekja það hvernig myndin af honum breyttist í meðförum þeirra sem fylgdu honum og trúðu. (bls 270)

Með öðrum orðum, Jesús er týndur. Heimildir okkur um hann eru svo brenglaðar að það er ógjörningur að vita almennilega hver hann var í raun. Miðað við elstu heimildir virðist hann hugsanlega hafa verið gyðinglegur heimsendaspámaður. Þetta er samkvæmt Sverri ákveðinn kjarni sem er hægt að sjá í elstu heimildum.

Seinna breyttist þetta og “gyðinglegur kraftaverkamaður og heimsendaspámaður, þróaðist yfir í guðlega veru sem væri eldri en sköpunarverkið og tengdist óravíddum heimssögunnar" (bls 267).

Hver verða viðbrögðin?

Þegar útgáfa bókarinnar var kynnt glöddust margir prestar. En miðað efni bókarinnar, þá er ekkert þar sem ætti að gleðja þá: Jesús var, ef eitthvað, gyðinglegur heimsendaspámaður, og hugmyndir um að hann sé hinn eini sanni guð eru síðari tíma viðbætur.

Þetta er algerlega þvert á kenningar kirkjunnar og það þyrfti heldur betur að endurrita kennsluefni fermingarfræðslu Þjóðkirkjunnar ef mark yrði tekið á þessu riti.

Sagnfræðilegar rannsóknir á frumkristni er eitur fyrir kristna trú. Þess vegna hefur til dæmis ekki þegar verið gefin út sambærileg bók og af sömu ástæðu verður þessi bók ekki seld í kirkjum landsins.


[1] Nokkrir punktar sem mér finnst vafasamir:

  1. Hann eyðir nokkrum síðum í Testimonium Flavianum en minnist bara í einni setningu á að “jafnvel þó að kaflinn um Jesúm sjálfan teldist innskot og ekkert mark á honum takandi" (bls 37) - þegar mjög góð rök eru einmitt fyrir því og ég efast um að það sé minni “meginstraumur" heldur en að það séu bara kristnar viðbætur í TF.
  2. Hann notar 1. Þess 2:14-15 sem heimild fyrir því að Páll hafi talið að Gyðingar hefðu verið valdir að dauða Jesú, en það eru góðar ástæður fyrir því að halda að þetta sé síðari tíma viðbót - og sú hugmynd er alveg “meginstraums".
  3. Hann er full-bjartsýnn á að Pétur gæti hugsanlega verið heimild sem höfundur Markúsarguðspjalls notaði (t.d. á bls 93 segir “Markúsarguðspjall vísar til Péturs sem heimildarmanns" - Hvar er það gert?)
  4. Hann segir að Markíon hafi ritstýrt Lúkasarguðspjalli og þeim bréfum Páls sem voru í regluritasafni hans og fellt niður það sem honum líkaði ekki. Hann vísar á andstæðinga Markíons sem heimild fyrir þessu, en tekur síðan fram að það sé erfitt að vita um Markíon þar sem heimildir okkur um hann eru frá andstæðingum hans. Það er alveg eins líklegt að það sem Markíon var sakaður um að hafa fellt út hafi verið bætt inn.

[2] Bókin um biblíuna er líka fín.

Hjalti Rúnar Ómarsson 03.10.2018
Flokkað undir: ( Bókadómur )

Viðbrögð


Sindri G - 03/10/18 12:55 #

Flottur ritdómur!


Árni Grétar - 19/12/18 10:52 #

Jesús er ekki týndur. Hann býr ekki í bókum. Það er nóg að kalla nafn hans og biðja til hans. Hann er mesti maður sem hefur gengið um á þessari jörð. En ef þú vilt halda áfram að lifa í myrkrinu þá er það þitt frjálsa val.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?