Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þykjustuleikurinn

Mynd af fermingu

Fyrir 27 árum ca. fermdist ég borgaralega, eins og það hefur haldið áfram að kallast - þrátt fyrir tuðið í sumum.

Ég hef frá því að ég man eftir mér sem röflandi einstaklingi verið afar trúlaus. Aldrei getað fellt mig hið minnsta við hugmyndir um yfirnáttúru og guði. Það hentaði mér því mjög vel að það væri hægt að halda svona verða-fullorðinn-athöfn á guðlausum forsendum og ég valdi þá leið. Hef aldrei séð eftir því. Það var ljómandi vel lukkað og hróður þeirra athafna hefur stigmagnast með hverju árinu. Nú taka mörghundruð börn þátt, en voru bara 20-30 þegar ég var með.

Að mínu viti algjörlega sjálfsögð og eðlileg menningarþróun í nútímasamfélagi. Auðvitað á að vera hægt að halda upp á helstu áfanga í lífinu án þess að standa í einhverjum skrípaleik gagnvart bronsaldarhugmyndum um guði og áhrif þeirra á tilveruna. Nafngjafir, brúðkaup, greftranir og fleira. Allt þetta vilja margir gera hátíðlega og fallega, án þess þó að kirkjan komi við sögu.

En sumum finnst þetta óþarfa vesen. Það sé allt í lagi að taka þátt í messum og bænum og kirkjulegum hefðum þótt maður trúi ekkert sérstaklega. Maður taki bara þátt og þá líði ömmu og afa vel og allt sé í himnalagi.

Ég er auðvitað alveg sammála því. Fólk sem tekur trúarbrögð ekki alvarlega getur alveg tekið þátt að nafninu til og aldrei ergt nokkurn mann með því. En hvað er þá að liðinu sem vill það ekki; liðinu sem „tekur þessu allt of alvarlega“?

Fyrir því geta verið margar ástæður. Sé maður, t.d. eins og ég í seinni tíð, á því að trúarbrögð séu á heildina litið böl sem mannkynið þarf að vaxa upp úr, þá er eðlilegt að vilja ekki taka þátt í að viðhalda þeim sem normi, heldur fara aðrar og nýjar leiðir. En fæstir 14 ára unglingar hafa fastmótaðar skoðanir á því. Það hlýtur því að vera eitthvað annað.

Það held ég að sé sú tilfinning að það sé rangt að bulla og fullyrða og lofa allskyns hlutum sem maður trúir ekkert á. Það þykir sumum vera einkennileg þvermóðska, að geta ekki bara tekið þátt. En er það ekki virðingarvert vilja ekki játa trú sem maður hefur ekki? Það hefði ég haldið að sé dálítill mannkostur. Dálítil sannleiksást, sem einmitt á undir högg að sækja núna á tímum Trumps og margir vilja virkja að nýju.

Stundum vill fólk líka líta á þetta sem einhvern skort á félagsþroska og umburðarlyndi; að geta ekki bara verið með í stað þess að rugga bátnum. En þótt það sé etv hluti af myndinni, þá finnst mér mikilvægt að rækta sannleiksást og heiðarleika. Trúi maður ekki á guði, þá hlýtur að vera eðlilegt að vilja ekki þykjast og taka þátt. Maður hefði líka haldið að kirkjan vilji að fólkið sem sækir messu meini það sem það segir. Sé ekki bara að þóknast fólki.

Það eru ýmsar hliðar á þessu. Flestar þó jákvæðar eftir þvi sem mér sýnist. Borgaraleg ferming er komin til að vera. Guði sé lof.

Höfundur er stjórnarmaður í Siðmennt.

Kristinn Theódórsson 09.09.2018
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/09/18 15:56 #

Það er líka afskaplega jákvæð þróun að sífellt fleiri börn eru hætt að fermast. Ég held það hljóti að vera einfaldara í dag þegar valkostirnir eru til staðar og ekki lengur undarlegt þó krakkar fermist ekki í kirkju eins og allir aðrir.

Auðvitað er félagslegur þrýstingur að fermast (fá gjafir, halda veislu).

Ég myndi helst vilja sjá það færast yfir á grunnskólaútskrift og fermingar sem fyrirbæri mættu mín vegna heyra sögunni til, en þangað til er frábært að krakkar hafi valkosti.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?