Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sannar hlutlægt siðferði tilvist Jahve?

Mynd af textanum úr 3. Mós 21.9

Ríkiskirkjupresturinn Gunnar Jóhannesson birti fyrir nokkru tvær greinar þar sem hann fjallar í löngu máli um hin svokölluðu siðferðisrök fyrir tilvist guðs. Því miður vantar heilmikið upp á að Gunnar styðji forsendur röksemdafærslunnar almennilega.

Siðferðisrökin

Í stuttu máli eru rökin eitthvað á þessa leið:

  1. Ef guð er ekki til þá eru ekki til hlutlæg siðferðisleg sannindi.
  2. Hlutlæg siðferðisleg sannindi eru til.
  3. -> Guð er til.

Gunnar talar reyndar ekki bara um “hlutlæg" siðferðisleg sannindi heldur bætir hann við “algild, og bindandi fyrir alla, hafin yfir persónulegar og ólíkar skoðanir og félagslegar venjur".

Samkvæmt röksemdafærslunni eru siðferðisleg sannindi hlutlæg: tilvist þeirra byggist ekki á skoðunum eða tíðaranda, heldur eru til á svipaðan hátt og lengd og massi og þau væru ekki til ef guð væri ekki til.

Skoðum forsendur röksemdafærslunnar:

1. Guð og hlutlæg siðferðisleg sannindi

Gunnar eyðir töluverðu púðri í að fullyrða að í heimi án guðs geti siðferðisleg sannindi ekki verið til, en hann færir engin rök fyrir því. Ef siðferði er hlutlægt í sama skilningi og til dæmis massi, lengd og rafhleðsla, af hverju gætu siðferðisleg sannindi þá ekki verið til án einhvers konar guðs?

Hann kemst næst einhverri svona útskýringu þegar hann fullyrðir að guðinn hans sé “í eðli sínu góður". En ef “góður" er einhvers konar hlutlægur eiginleiki sem guðinn hans hefur, hvers vegna væri þessi eiginleiki ómögulegur í guðlausum heimi?

Engar útskýringar hafa fengist á því.

2. Er siðferði hlutlægt?

Persónulega held ég þó að algerlega hlutlæg siðferðisleg sannindi séu ekki til. Og jafnvel þó að einhver guð væri til, þá sé ég ekki af hverju það ætti að breyta einhverju um það.

Siðferði er bara þess eðlis að það byggir óhjákvæmilega á persónulegum gildum og skoðunum, og þá skiptir engu máli hvort persónan sé manneskja, geimvera eða almáttug andavera. Það er engan veginn ljóst hvernig siðferðisleg hluthyggja getur verið sönn, að minnsta kosti útskýrir Gunnar það ekki.

Helstu rök Gunnars eru vísanir í persónulega upplifanir fólks. Hann varpar fram spurningum á borð við: “Er það virkilega ekki rangt að drepa barn vegna einhvers sem faðir þess gerði?”, “Er það ekki raunverulega rangt að drekkja börnum?”, “Eru þjóðarmorð ekki í alvörunni slæm?” Auðvitað finnst flestum okkar þetta rangt, en það er ekki ljóst að okkur finnist þetta vera rangt á einhvern hlutlægan eða algildan hátt.

Gunnar segir að við vitum öll að siðferði sé hlutlægt. Innsæi okkar segir að "til sé siðferðilegur mælikvarði, óháður skoðunum okkar, breytni og menningar- og samfélagsbundnum aðstæðum". Raunin er reyndar sú að margir virðast aðhyllast einhvers konar afstæðishyggju (hér er ágætis yfirlit um rannsóknir á "folk moral relativism"). Þetta sést til dæmis þegar fólk er spurt að því hvort það væri rangt fyrir geimverur á plánetunni Xenon að stela. Þá virðist þetta meinta innsæi fólks klikka og því þarf að koma með einhver önnur rök fyrir tilvist hlutlægs siðferðis en að vísa bara til innsæis fólks.

Báðar forsendur Gunnars eru því afskaplega vafasamar og því er röksemdafærslan vafasöm.

Ósamræmi siðferðisrakanna og Jahve biblíunnar

En óháð þessum göllum, þá er frekar merkilegt að Gunnar noti þessi rök. Hann hefur nefnilega varið óskeikulleika biblíunnar og ýmis illvirki guðs í biblíunni.

Er það til dæmis algilt og hlutlægt, bindandi fyrir alla að það sé rangt að drepa barn fyrir verk föður þess? Gunnar á erfitt með að svara þessari spurningu, þar sem hann ver Jahve þegar hann “[tók] til sín frumburð Davíðs og Batsebu til að refsa Davíð fyrir drýgðar syndir”.

Er algilt og alls staðar rangt að drekkja börnum? Jahve drekkir öllum heiminum í biblíunni. Eru mannréttindi eins og trúfrelsi algild eins og fram kemur í mannréttindasáttmálum? Í biblíunni skipar guð fólki að grýta þá sem boða trú á aðra guði. Eru þjóðarmorð ætíð röng? Ekki ef siðferði byggist á Jahve biblíunnar.

Trúmenn eins og Gunnar segjast oft aðhyllast algilt og hlutlægt siðferði. En í raun gerast þeir algerir afstæðishyggjumenn þegar kemur að guðinum þeirra. Guðinn þeirra getur gert hvað sem er og alltaf er það á einhvern hátt gott. Jafnvel er sagt að guðinn þeirra sé handan góðs og ills.

Oftar en ekki aðhyllast þeir nefnilega ekki siðferðislega hluthyggju, heldur siðferðislega hughyggju. Í þeirra huga er siðferði ekki hlutlægt og algilt. Siðferði byggist bara á persónulegum skoðunum og skipunum guðs. Og þegar sá guð er Jahve biblíunnar er klárt að sá guð er ekki góður samkvæmt því siðferðislega innsæi sem Gunnar vísar til.

Gunnar ætti því ekki að nota siðferðisrökin fyrir tilvist guðs, því forsendurnar eru hæpnar og rökin samræmast illa guðinum hans.

Hjalti Rúnar Ómarsson 09.05.2018
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?