Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ekki gera Jesú að leiðtoga lífs þíns

Mynd af fermingu

Þegar fólk selur hús er því skylt að upplýsa kaupanda um galla. Ef það er ekki gert getur það flokkast sem svik.

Fermingarfræðsla ríkiskirkjunnar gengur út á að selja börnum Jesú. Í athöfninni eru þau spurð hvort þau vilji gera Jesú að "leiðtoga lífs síns". Þjóðkirkjan upplýsir ekki um galla Jesú áður en fermingarbörnin svara. Hér eru nokkrir gallar:

1. Jesús var heimsendaspámaður.

Í guðspjöllunum talar Jesús um að heimsendir sé í nánd. Hann var heimsendaspámaður. Svona talaði hann eitt sinn um heimsendi:

Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13:40-42)

Jesús sagði að samtímamenn hans myndu sjá heimsendi (Mk 13:30) og sagði nokkrum lærisveinum að þeir myndu sjá endurkomu hans (Mk 9:1).

2. Jesús var helvítispredikari

Eins og fram kemur í tilvitnuninni í fyrsta lið boðaði Jesús helvíti. Við heimsendi verður fólki hent í “eldsofninn" og þar verður “grátur og gnístran" tanna. Á þessum tíma var litið á helvíti sem alvöru stað með alvöru eldi og það er engin ástæða til að halda að Jesús hafi ekki trúað því sama.

Jesús líkir helvíti við að vera hent í dýflissu og pyntaður þar og talar um þetta sem “eilífa refsingu" og “eilífan eld" sem var búinn til handa “djöflinum og englum hans" (Mt 25:41,46).

3. Jesús var költleiðtogi

Ef þú fréttir af því að ættingi þinn hefði selt allar eigur sínar og hefði skorið á öll tengsl við fjölskylduna til að fylgja einhverjum sjálfskipuðum talsmanni guðs, þá myndirðu réttilega giska á að hann væri genginn í “költ".

Fylgismenn Jesús gera þetta í guðspjöllunum. Lærisveinarnir yfirgáfu fjölskyldur sínar og Jesús var meira að segja á móti því að einn þeirra fengi tíma til að jarða föður sinn áður en hann fylgdi Jesú (Mt 8:22). Söfnuðurinn er hin nýja fjölskylda samkvæmt hinum óskeikula leiðtoga, Jesú (Mk 3:21-35).

4. Jesús er óþekktur

Allt ofantalið byggir á guðspjöllunum í Nýja testamentinu. Þau eru nánast einu heimildir okkar um persónuna Jesú og boðskap hans. Gallinn er að þetta eru mjög vafasamar heimildir. Þetta eru helgisagnir eftir óþekkta meðlimi í “költi" um költleiðtogann.

Furðuverk og skáldskapur eru á nánast hverri einustu síðu í guðspjöllunum. Fæðingarfrásagnirnar eru fínt dæmi um helgisagnablæ guðspjallanna. Annað fínt dæmi eru sögurnar af upprisu Jesú. Í Matteusarguðspjalli er það til dæmis ekki bara Jesú sem rís upp frá dauðum, heldur risu “margir líkamar helgra manna" upp frá dauðanum og gengu um Jerúsalem og “birtust mörgum"(Mt 27:52-53).

Við getum ekki treyst því sem guðspjöllin segja um Jesú þar sem þetta eru svo óáreiðanlegar heimildir. Því getur enginn vitað hvað Jesús sagði og kenndi.

Þögn kirkjunnar

Að gera heimsendaspámann, helvítispredikara og költleiðtoga, sem við erum ekki viss um hvað sagði og gerði, að “leiðtoga lífs síns" er afskaplega vafasamt.

Prestar munu örugglega ekki fræða börnin um ofantalin atriði í fermingarfræðslunni þrátt fyrir að hún eigi að undirbúa börnin í að ákveða hvort þau vilji gera Jesú að “leiðtoga lífs síns". Atvinnutrúmenn græða á hverju barni sem fermist, þannig að það er spurning hvort þessi þögn þeirra sé ekki einungis óheiðarleg, heldur einnig sviksamleg.

Í staðinn fyrir að gera vafasama einstaklinga að leiðtogum lífs síns, mæli ég með því að fólk temji sér sjálfstæða hugsun. Ekki kaupa gallað hús.

Hjalti Rúnar Ómarsson 11.04.2018
Flokkað undir: ( Fermingar , Sögulegi Jesús )

Viðbrögð


Siggi - 13/04/18 01:59 #

Ég er ekki viss um að fermingarbörn kafi svona djúpt til að sjá bullið og ljósið... Besta leiðin til að leyfa barninu að vera trúlaust er að leyfa því að ganga frjálst um á google og wikipedia.org. Flest börn hafa "common sense" og vitsmunirnir koma að sjálfu sér.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?