Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvernig á að laga sóknargjöld?

Skýringarmynd

Í nýjasta hefti Ritraðar guðfræðistofnunar birtist grein um sóknargjöld eftir Hjalta Hugason, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Tilefnið er deilur Þjóðkirkjunnar og ríkisvaldsins um vegna lækkunar sóknargjalda. Yfirstjórn Þjóðkirkjunnar heldur því fram að þetta séu félagsgjöld sem ríkinu sé í raun óheimilt að lækka. Ríkisvaldið heldur því fram að um framlög sé að ræða.

Í greininni fer Hjalti yfir sögu og eðli sóknargjalda og reynir að svara því hvort sóknargjöld séu félagsgjöld eða framlög ríksisins. Loks stingur hann upp á því hvernig eigi að laga sóknargjaldakerfið.

Greinin er að mínu mati fínt innlegg í sóknargjaldaumræðuna, en þó vil ég gera athugasemdir við tvö atriði í henni.

1. Eru sóknargjöld framlög eða skattur?

Hjalti reynir að svara því hvert sé eðli sóknargjalda. Hér á landi eru sóknargjöld í framkvæmd á þá leið að trúfélög fá ákveðna upphæð af innheimtum tekjuskatti fyrir hvern skráðan meðlim.

Hann tekur hliðstæðu sóknargjalda í Svíþjóð sem dæmi (bls 35) og bendir á að þar sé klárlega um félagsgjald að ræða af því að:

  • gjaldskyldan miðast við aðild
  • um beint persónulegt gjald er að ræða
  • gjaldtakinn ákveður upphæð þess

Ekkert af þessu á við á Íslandi og sóknargjöld eru því klárlega ekki félagsgjöld. Um þetta erum við hjartanlega sammála og þess væri óskandi að þeir fjöldamörgu stjórnendur Þjóðkirkjunnar sem fullyrða að um félagsgjöld sé að ræða breyti málflutningi sínum til samræmis við grein Hjalta eða þá svari henni efnislega.

Hjalti telur samt að sóknargjöld séu ekki ríkisframlag, heldur séu þau “skattalegs eðlis". Ástæðan virðist vera eftirfarandi tvær röksemdafærslur:

a. Sögulegu rökin

Hann bendir á að áður fyrr voru sóknargjöld opinber skattur (lengst af nefskattur) sem rann beint til Þjóðkirkjunnar. Þegar núverandi kerfi var tekið upp árið 1987 voru sóknargjöld lögð niður sem sérstakur skattur. Sóknargjöld voru ekki lengur innheimt sérstaklega, heldur eingöngu tekjuskattur. Hjalti lýsir þessu á þá leið að sóknargjaldið “hvarf inn í tekjuskatt einstaklinga" (bls 53).

Gallinn við þessi rök er sá að um leið og það er hætt að innheimta sóknargjaldið sérstaklega, þá er bara útgjaldaliðurinn eftir í ríkissjóði og þá er þetta einungis til sem framlög. Það að þetta hafi upphaflega verið skattur skiptir ekki máli.

Ímyndum okkur að ríkið myndi hætta að innheimta útvarpsgjaldið, en myndi enn borga RÚV ákveðna upphæð úr innheimtum tekjuskatti fyrir hvern landsmann sem á sjónvarp. Þar sem útvarpsgjaldið væri ekki lengur innheimt sérstaklega, heldur væri það bara til sem framlag frá ríkinu, þá væri það ekki skattur heldur einfaldlega ríkisframlag. Þó svo að það hafi eitt sinn verið skattur, þá væri það ekki lengur skattur, heldur bara framlag. Sama gildir um sóknargjöld.

b. Endurgjaldsrökin

Hjalti stingur auk þess upp á því að núverandi sóknargjöld séu hugsanlega ekki hreint framlag af því að þau séu einhvers konar gagngjald fyrir það að Þjóðkirkjan hafi látið af hendi “sjálfstæðan tekjustofn" (bls. 51) þegar sóknargjöldin hurfu inn í tekjuskattinn. Hann líkir þessu við kirkjujarðasamninginn, þar sem ríkið greiðir Þjóðkirkjunni ákveðna árlega upphæð fyrir framsal jarðeigna.

Gallinn við þessi rök eru þau að sóknargjöld voru, eins og Hjalti bendir á, skattur sem ríkið ákvað með lögum. Þetta var ekki nein raunverulega eign Þjóðkirkjunnar, heldur bara skattur sem ríkið setti á og lét renna til kirkjunnar. Á sama hátt myndi ríkið ekki standa í skuld við RÚV ef að útvarpsgjaldið yrði lagt niður.

Sóknargjaldaframlagið byggist því ekki á neinu afsali af hendi Þjóðkirkjunnar og því ganga þessi rök Hjalta ekki upp.

2. Verri er þeirra jöfnuður

Hjalti vill laga sóknargjaldakerfið “eftir því sem mögulegt er innan núgildandi ramma", með það markmið að einfalda og minnka fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju og að auka gegnsæi (bls. 56).

Fyrst stingur hann upp á því að í lögum verði einfaldlega sett inn sú fullyrðing að sóknargjöld séu félagsgjöld. Ég tel það yrði að mestu leyti tilgangslausa breyting, þar sem að sóknargjöld myndu enn ekki hafa nein einkenni félagsgjalda. Þetta væru bara félagsgjöld að nafninu til.

Hjalti leggur síðan til að lögum yrðii breytt á þá leið að utantrúfélagsfólk geti beint “þeirri upphæð af tekjuskatti sínum sem sóknargjöldum nemur til einhverra þarfra málefna í almannaþágu". Hann segir að þetta muni “auka jöfnuð" þeirra sem standa utan allra trúfélaga og hinna sem tilheyra Þjóðkirkjunni eða trúfélögum (bls. 57).

Vissulega myndu þetta jafna útgjöld þessara tveggja hópa. En ef því er slegið á föstu að sóknargjöld meðlima trúfélaga séu félagsgjöld, þá væri utantrúfélagsfólk í raun að borga hærri skatt heldur en aðrir. Sem væri hugsanlega mannréttindabrot. Það er undarlegur jöfnuður.

Ef ég borga 5.000 krónur árlega í félagsgjöld í karlaklúbb, en Hjalti borgar ekki neitt þar sem hann er ekki meðlimur, þá borga ég að vissulega meira í karlaklúbba en Hjalti. En það þýðir ekki að það séu gild jafnréttissjónarmið að leggja sérstakan 5.000 krónu skatt á alla sem borga ekki félagsgjöld í karlaklúbb.

Í tilfelli félagsgjalda til trúfélaga, þá væri þvert á móti líklega um brot á jafnréttislögum að ræða, þar sem það væri í raun verið að skattleggja fólk sérstaklega vegna trúfélagaskráningar þeirra. Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna hefur einmitt gagnrýnt Ísland fyrir þetta.

Af hverju ekki Svíþjóð?

Ég er sammála Hjalta varðandi það að sóknargjöld séu ekki félagsgjöld og að það ætti að laga kerfið. En ef hann vill lagfæra kerfið með því að skilgreina sóknargjöld sem félagsgjöld í lögunum, hvers vegna ætti ekki bara að breyta sóknargjöldum í raunveruleg félagsgjöld? Sóknargjöld yrðu þá persónuleg gjöld sem miðuðust við aðild og gjaldtakinn myndi ákveða upphæðina.

Samkvæmt honum er þannig kerfi í Svíþjóð. Kannski leggur hann það ekki til af því að hann telur að það sé ómögulegt að ná þeirri breytingu í gegn. En fyrst að það var hægt í Svíþjóð, af hverju ætti það ekki að vera hægt hér?

Eina ástæðan sem mér dettur í hug er sú að ef fólk gæti sparað sér um það bil 10.000 krónur á ári með því að segja sig úr Þjóðkirkjunni, þá yrði fjöldaflótti úr henni og að það sé óásættanleg afleiðing fyrir marga.

Hjalti Rúnar Ómarsson 18.12.2017
Flokkað undir: ( Sóknargjöld )

Viðbrögð


Lárus Jón - 10/01/18 21:54 #

Takk fyrir greinargott yfirlit. Það er eitt sem alltaf vantar í umfjöllum um þessi mál og það er afgjaldið sem Íslenska ríkið fær af þeim jörðum sem kirkjan á, skv. samningi kirkju og ríkis þar um.

Hverjar eru tekjurnar af þessum jörðum?

Þegar þessi upphæð liggur fyrir væri etv einfaldast væri að ríkið skilaði jörðunum til kirkjunnar sem myndi þá fjarmagna sig sjálfa. Þetta hljóta að vera umtalsverðartekjur til að mæta 4-5 milljarða framlagi (sóknargjalda) ríkisins til kirkjunnar ...


Lárus Jón - 10/01/18 21:59 #

Rétt tala framlags ríkisins til þjóðkirkjunnar er lægri en ég nefndi, rétt rúmlega 2 milljarðar. Endilega leiðréttið mig ef rangt er farið með.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/01/18 22:59 #

Hverjar eru tekjurnar af þessum jörðum?

Engar?

Rétt tala framlags ríkisins til þjóðkirkjunnar er lægri en ég nefndi, rétt rúmlega 2 milljarðar

Hvernig færðu þá tölu út?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 10/01/18 23:29 #

Takk fyrir greinargott yfirlit. Það er eitt sem alltaf vantar í umfjöllum um þessi mál og það er afgjaldið sem Íslenska ríkið fær af þeim jörðum sem kirkjan á, skv. samningi kirkju og ríkis þar um.

Ekki málið. Ég held að það sé að mestu leyti hægt að fjalla um sóknargjöld og kirkjujarðir alveg aðskilið. (hún fær ~ 2milljarða fyrir jarðirnar ef ég man rét og svo ~2 milljarða í sóknargjöld og svo ~ 1 milljarð í ýmsa sjóði).


Lárus Jón - 11/01/18 20:27 #

Takk fyrir svarið Hjalti, þá hefur mig ekki misminnt um 4-5 milljarðana. Matti: Tveggja milljarða töluna fann ég í einhverri frétt um fjárlögin síðustu, en það voru þá væntanlega eingöngu sóknargjöldin.

Ég hélt reyndar að afgjaldið af kirkjujörðunum væri það sem kæmi á móti því sem ríkið greiðir en ef það ca 2 milljarðar og framlög ríkisins alls um 5 þá hallar nú ansi mikið á okkur skattborgarana ...

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?