Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Dæmisögur Jesú

Mynd af barni að skírast

Margir halda að Jesús hafi verið dæmisagnameistari. Dæmisögur hans eru víst listilega samdar og boðskapurinn fallegur. Ef maður fer skipulega í gegnum dæmisögur guðspjallanna kemur hins vegar í ljós að það er lítið varið í langflestar þeirra.

Skipulegur yfirlestur

Það er vafamál hvað nákvæmlega í guðspjöllunum flokkast sem dæmisaga. En ef maður notar einhvern af þeim listum sem til eru (til dæmis þennan), þá er lítið mál að lesa þær allar og gefa þeim einkunn. Ég gerði það og setti þær í fjóra flokka eftir því hve fallegur boðskapurinn var. Hér eru niðurstöðurnar:

A. Ómerkilegur boðskapur - 52%

Helmingur dæmisagnanna lenti í flokknum “ómerkilegar". Þetta eru dæmisögur sem eru annað hvort það torræðar að við erum bara ekki viss um merkingu þeirra eða þá að boðskapurinn er ekki það merkilegur en um leið ekki hræðilegur.

Sem dæmi má benda á dæmisöguna "Að byggja á bjargi":

Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi, því það var grundvallað á bjargi. En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll, og fall þess var mikið."

Boðskapurinn hér er bara frekar ómerkilegur áróður fyrir því að fylgja þessum trúarhóp. Ef þú fylgir Jesú ertu gáfaður, ef þú gerir það ekki þá ertu heimskur. Ekki djúp speki hér á ferð og engin merkilegur siðferðisboðskapur.

B. Heimsendarugl - 31%

Næstum því þriðjungur dæmisagnanna fjallar með einum eða öðrum hætti um væntanlegan heimsendi og örlög fólks á dómsdegi. Þetta er ekki fallegur boðskapur.

Sem dæmi má benda á dæmisöguna um "Trúa þjóninn"

Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur. Það skiljið þér, að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi. Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi. Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur? Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. En ef illur þjónn segir í hjarta sínu: ,Húsbónda mínum dvelst,’ og hann tekur að berja samþjóna sína og eta og drekka með svöllurum, þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, sem hann væntir ekki, á þeirri stundu, sem hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með hræsnurum. Þar verður grátur og gnístran tanna.

Hér er endurkomu Jesú við heimsendi líkt við því þegar þrælaeigandi kemur heim til sín og verðlaunar eða refsar þrælum sínum við heimkomuna.

Annars konar rugl - 7%

Næstum því tíunda hver dæmisaga var annars konar rugl. Þarna er boðskapurinn rugl-hugmyndir sem eru svo galnar að jafnvel venjulegt kristið fólk myndi ekki samþykkja boðskapinn.

Sem dæmi má benda á dæmisöguna um "Vondu vínyrkjana”:

Og hann tók að tala til þeirra í dæmisögum: "Maður plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi. Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna að fá hjá þeim hlut af ávexti víngarðsins. En þeir tóku hann og börðu og sendu burt tómhentan. Aftur sendi hann til þeirra annan þjón. Hann lömdu þeir í höfuðið og svívirtu. Enn sendi hann annan, og hann drápu þeir, og marga fleiri ýmist börðu þeir eða drápu. Einn átti hann eftir enn, elskaðan son. Hann sendi hann síðastan til þeirra og sagði: ,Þeir munu virða son minn.’ En vínyrkjar þessir sögðu sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, þá fáum vér arfinn.’ Og þeir tóku hann og drápu og köstuðu honum út fyrir víngarðinn.’ Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra? Hann mun koma, tortíma vínyrkjunum og fá öðrum víngarðinn.

Þarna er boðskapurinn sá að gyðingar hafi drepið þá spámenn sem guð sendi þeim og þeir hafi svo drepið Jesú. Guð mun svo refsa gyðingum fyrir það og fara til heiðingja. Svipaðan boðskap má finna í einu bréfanna sem er eignað Páli postula: “Því að þér hafið þolað hið sama af löndum yðar sem þeir urðu að þola af Gyðingum, er bæði líflétu Drottin Jesú og spámennina og hafa ofsótt oss. Þeir eru Guði eigi þóknanlegir og öllum mönnum mótsnúnir.” (1. Þess 2:14-16). Flestir trúmenn væru varla tilbúnir í að taka undir svona viðhorf sem birtast í dæmisögunni.

Gott - 10%

Tíunda hver dæmisaga var góð. Þá er um að ræða dæmisögu sem hefur fallegan siðferðisboðskap. Til dæmis sagan af "Miskunnsama Samverjanum. (textinn fylgir ekki af því að allir þekkja þá sögu)

Dæmisagnaskussi?

Það er auðvitað hægt að deila um einstaka sögur. Og ef þú telur að ég hafi verið sérstaklega ósanngjarn í dómum mínum á dæmisögunum, þá skora ég á þig að lesa einfaldlega allar dæmisögurnar og flokka þær á sama hátt.

Mér finnst að minnsta kosti ljóst að Jesús guðspjallanna er ekki dæmisagnameistari. Flestar dæmisögurnar eru ekki með fallegan og djúpan siðferðislegan boðskap. Helmingurinn er frekar ómerkilegur, þriðjungur fjallar um heimsendi, tæp tíund er algert rugl, svo er tíund góðar dæmisögur

Ég tel að margt fólk hafi þá ranghugmynd að dæmisögur Jesú séu almennt góðar og fallegar einfaldlega af því að sömu góðu dæmisögurnar eru endursagðar aftur og aftur. Á meðan er þagað um ljótu og ómerkilegu dæmisögurnar í skólum og kirkjum.

Dæmisögurnar sem ég tók sem dæmi í þessari grein sanna það ágætlega. Nánast hvert einasta mannsbarn á Íslandi þekkir söguna af miskunnsama Samverjanum. En hve margir þekkja dæmisöguna af vondu vínyrkjunum eða dæmisöguna af trúa þjóninum?


Hér fylgir listi af dæmisögum Jesú með tenglum á textana í íslensku biblíunni, fyrir þá sem vilja lesa yfir dæmisögurnar sjálfir:

Sæðið sem vex, Ljós á ljósastiku, Nýtt vín á gamla belgi, Hús hins sterka, Sáðmaðurinn, Mustarðskornið, Vondu vínyrkjarnir, Fíkjutréð, Trúi þjónn, Illgresið
Perlan, Netið, Faldi fjársjóðurinn, Miskunnarlausi þjónninn, Verkamenn á víngarði, Tveir synir, Brúðmeyjarnar, Sauðir og hafrar, Skuldugu mennirnir, Miskunnsami Samverjinn, Vinur að nóttu til, Ríki heimskinginn, Að reikna kostnaðinn, Ávaxtalausa fíkjutréð, Týnda drakman, Týndi sonurinn, Klóki ráðsmaðurinn, Ríki maðurinn og Lasarus, Meistarinn og þjónninn, Rangláti dómarinn, Farísei og tollheimtumaður, Hefðarsæti, Að byggja á bjargi, Súrdeigið, Góði hirðirinn, Veislan, Pundin

Hjalti Rúnar Ómarsson 17.12.2017
Flokkað undir: ( Sögulegi Jesús )

Viðbrögð


Kolgrímur - 29/03/18 21:11 #

Mér virðist sjálfum dæmisagan "Að byggja á bjargi" vera skýrt og gagnlegt erindi Jésús til áheyrenda sinna.

Þessi dæmisaga kemur alveg í beinu framhaldi af textanum í sama kafla að því er virðist, eins og þessum sem kemur alveg rétt á undan umræddri dæmisögu:

20 Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

21 Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ,Herra, herra,` ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.

22 Margir munu segja við mig á þeim degi: ,Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?`

23 Þá mun ég votta þetta: ,Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.`

Síðan kemur upphafið í dæmisögunni í næsta versi í þessum sama kafla í Matteusarguðspjalli 7:

24 Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi.

Ef þessi umrædda dæmisaga Jésús "Að byggja á bjargi" eigi að vera höfð eftir honum í alveg nálægu eða beinu framhaldi af fyrri versum á undan eins og þeim sem ég dróg fram, þá finnst mér hún vera athyglisverð.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?