Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gegn skírn

Mynd af barni að skírast

Undanfarið hefur borið á því að prestar reyni að réttlæta barnaskírn á nýjan hátt. Athöfnin er í augum presta víst afskaplega falleg og á að tákna eitthvað á þá leið að að guð elski alla og að barnið sé frábært:

Skírnin er í raun um þetta, hún er formleg ástarjátning frá Guði, þakkargjörðarhátíð fjölskyldunnar og staðfesting kirkjunnar á því að hún ætli að vera til staðar fyrir þennan tiltekna einstakling, hvað sem á dynur. #

Þegar fólk velur að skíra barn að kristnum sið þá er það í raun að segja við óvitann: „Við vitum ekki ennþá hver þú ert en við lofum að elska þig eins og þú ert á hverjum tíma og ætlum að reyna að lifa þannig að það sé gott að vera þú.“ #

Með skírninni fær barnið það lífsverkefni að líkjast Jesú Kristi sem gerði skýra ástarkröfu á alla menn og barðist fyrir mannréttindum. #

Hér eru tvær ástæður fyrir því að foreldrar ættu ekki að skíra.

Skotleyfi skírnarinnar

Þjóðkirkjan lítur á skírð börn sem kristin og telur að skírnin sé loforð foreldra (og allra viðstaddra) um að ala barnið upp í kristinni trú.

Þó margir foreldrar taki þetta ekki alvarlega þá er þetta grafalvarlegt í augum starfsmanna kirkjunnar og hefur raunverulegar afleiðingar.

Þar sem barnið er þegar kristið telur kirkjan að ekki sé verið að stunda trúboð þegar þessu barni er innrætt kristin trú. Prestar geta því stundað eins mikið barnatrúboð og þeir vilja þegar um skírt barn er að ræða og það flokkast sem “fræðsla".

Þannig að með því að skíra barn eru foreldrar að gefa Þjóðkirkjunni skotleyfi á trúboði sem beinist að börnum þeirra. Þess vegna ættirðu ekki að skíra barnið þitt nema þú styðjir trúboð í leik- og grunnskólum landins.

Skuggahlið skírnarinnar

Í umfjöllun Þjóðkirkjunnar virðist alltaf gleymast að minnast á það sem opinberar játningar Þjóðkirkjunnar segja um skírnina. Í fræðum Lúthers minni er svar við spurningunni “Hvað gefur eða gagnar skírnin?”

Svar: Hún veldur fyrirgefningu syndanna, frelsar frá dauðanum og djöflinum og gefur eilífa sáluhjálp öllum, sem trúa því, eins og orð Guðs og fyrirheit hljóða.

Nýfædd börn eru sem sagt þjökuð af erfðasyndinni og með skírninni er hún afmáð, svo ekki sé minnst á sjálfan djöfulinn.

Með því að skíra börn er verið að taka undir þennan drungalega og bjánalega hugmyndaheim kirkjunnar.

Þess vegna ættirðu ekki að skíra barnið þitt. Nema þú aðhyllist þá heimsmynd að börn séu þjökuð af erfðasyndinni, en þá er þér svosem ekki viðbjargandi.

Við skiljum vel að þið viljið halda veislu og bjóða ættingjunum og vinum. Nafngiftarveisla er fínn valkostur og laus við þá galla sem fylgja skírn. Bakið kökur, skellið í heita rétti, bjóðið fólki og segið viðstöddum nafn barnsins þegar það á við.

Bjarni Karlsson, einn þriggja sem vitnað er í hér að ofan, segir í lokaorðum.

Barnið þarfnast ekki skírnar og er ekki betra eða verra hvort heldur það fær skírn, nafnaveislu, veraldlega nafngjöf, eða hvað annað. Barnaskírn er hins vegar grjótharður siður sem aldrei má týnast sem lifandi valkostur. #

Við tökum undir með Bjarna, börn tapa engu við að sleppa skírn og barnaskírn á að vera “lifandi valkostur”. Valkostum má sleppa.

Ritstjórn 16.12.2017
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?