Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Jesús, sjálfstæð hugsun og dæmisögurnar

Mynd af málverki af upprsnum Jesú

Í október sl. ritaði Hildur Eir Bolladóttir, prestur á Akureyri, grein sem hét „Einræðuþjóðin“ sem birtist á síðu hennar hildureir.is. Greinin er nú horfin af síðunni.

Þegar ég las greinina þótti mér ástæða til að stinga niður penna um nokkur atriði greinarinnar, og einkum eftirfarandi setningu:

Jesús sagði oft fylgdu mér en lagði um leið áherslu á það að fylgjendur hans hugsuðu sjálfstætt

En sá Jesús sem höfundar guðspjallanna skrifa um lagði enga áherslu á sjálfstæða hugsun. Þvert á móti lagði hann áherslu á blinda trú.

Hjá þeim Jesúsi sem birtisti í Jóhannesarguðspjalli var það að trúa lykillinn að því að því að komast í náðina hjá guði, sbr. sennilega þekktasta vers Biblíunnar, Jóh 3:16:

„Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“

Það að trúa ekki leiddi til glötunnar, sbr. 18 vers sama kafla:

Sá sem trúir ekki er þegar dæmdur því að hann hefur ekki trúað á nafn Guðs sonarins eina.

Í raun er það samkvæmt guðspjöllunum hinn alvarlegasti glæpur að trúa ekki, sbr. að því fylgir hinn mikli dómur að trúa ekki á "nafn Guðs sonarins eina" og andstöðunni við að trúa er stillt upp sem óhlýðni sem verðskuldar "reiði Guðs", sbr. 36 vers örlítið síðar:

Sá sem trúir á soninn hefur eilíft líf en sá sem óhlýðnast syninum mun ekki öðlast líf heldur varir reiði Guðs yfir honum.

Það að efast var sem sagt risastór synd, sem Jesús fordæmdi sterklega. Þeir sem trúðu honum ekki voru á einum stað sagðir eiga „djöfulinn að föður“ (Jóh 8: 44-45) „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gera það sem faðir yðar girnist ... En af því að ég segi sannleikann trúið þér mér ekki." Sá sem trúði ekki var ekki „í hópi sauða“ hans, sjá Jóh 10: 25-26:

Ég hef sagt yður það en þér trúið ekki. Verkin, sem ég geri í nafni föður míns, vitna um mig en þér trúið ekki því að þér eruð ekki úr hópi sauða minna.

Fordæming á efanum getur ekki verið í samræmi við það að hvetja til sjálfstæðrar hugsunar. Vers í svipuðum dúr og nefnd eru hér að ofan eru gríðarlega mörg, og óþarfi að halda áfram að telja þau upp hér. En það verður þó að enda á versi sem lýsir því vel hversu blind trú var í miklum metum hjá Jesúsi. Í 20. kafla í Jóhannesarguðspjalli er fjallað um Tómas. Hann efaðist um upprisuna, því hann hafði ekki séð Jesú upprisinn. Jesús birtist lærisveinunum, og leyfir Tómasi að snerta sig upprisinn. Við það tekur Tómas trú, en Jesús segir við hann: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“ Í þessu versi er blind trú, án sönnunar, upphafin sem dyggð. Það er enn betra að trúa án þess að hafa áþreifanlega vitneskju en að trúa á grundvelli hennar.

Í greininni gefur Hildur Eir það í skyn að Jesús hafi lagt áherslu á að fylgjendur hans hugsuðu sjálfstætt, m.a. því hann talaði oft við þá í dæmisögum, og um dæmisögur þarf að hugsa. Það verður hins vegar ekki ráðið af textum guðspjallanna annað en að dæmisögurnar hafi verið sagðar í þeim tilgangi að aðeins hinir útvöldu myndu skilja, og þeir fyrirdæmdu, sem ekki var "gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis" sem ekki voru úr „hópi sauða hans“, „börn djöflusins“, myndu ekki skilja. Eða svo ég vitni beint í Matteus 13:10-14:

Þá komu lærisveinarnir til hans og spurðu: "Hvers vegna talar þú til þeirra í dæmisögum?" Hann svaraði: "Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið. Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur. Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum, að sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja. Á þeim rætist spádómur Jesaja: Með eyrum munuð þér heyra og alls ekki skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá.

Sindri G. 14.12.2017
Flokkað undir: ( Sögulegi Jesús )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.