Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skammarlegt hlutfall ríkiskirkjumeðlima

Línurit sem sýnir hlutfallslega fækkun í ríkiskirkjunniIðulega hreykir háttsett ríkiskirkjufólk sér af því hve hátt hlutfall landsmanna sé í ríkiskirkjunni. Jafnvel er reynt að nota hlutfallið til að réttlæta forréttindi ríkiskirkjunnar og ágang í opinbera skóla.

Með réttu ætti ríkiskirkjufólk að skammast sín fyrir það hve margir Íslendingar eru meðlimir því hlutfallið er afleiðing kúgunar, einræðis og lagaklækja.

Kúgun, einræði og lagaklækir

Þegar kristni var lögtekin árið 1000 var trúfrelsi afnumið á Íslandi. Í hátt í 900 ár var landsmönnum bannað að vera annarar trúar. Kirkjan var einráð í trúmálum og landsmenn kúgaðir til að gerast kristnir.

Þegar trúfrelsi var innleitt á Íslandifyrir 150 árum voru 100% landsmanna meðlimir í ríkiskirkjunni út af þessari kúgun.

Í kjölfarið gekk fólk úr ríkiskirkjunni og meðlimum fækkaði jafnt og þétt þrátt fyrir að ríkiskirkjan hafi verið í forréttindastöðu og sérstakur trúvillingaskattur lagður á þá sem kusu að vera utan trúfélaga.

Þá var tekið upp á því snjallræði að skrá fólk óumbeðið í ríkiskirkjuna. Fólk sem hafði gengið úr Þjóðkirkjunni var skráð aftur í hana ef það fluttist milli bæjarfélaga (það er ekki lengur gert).

Auk þess hefur Þjóðkirkjan fengið því framgengt að skráning í hana erfist. Mörg börn eru við fæðingu skráð í kirkjuna án samþykkis foreldra.

Skammist ykkar!

Jafnvel þó maður ímyndi sér að allir meðlimir Þjóðkirkjunnar séu sannkristnir, þá er prósentan til skammar, þar sem að það er sorglegur minnisvarði 900 ára kúgunar og einræði kristninnar á Íslandi.

Ég held að flestir viðurkenni að stór hluti fólks er skráður í ríkiskirkjuna af vana eða leti. Það að skráning í ríkiskirkjuna skuli vera hin venjulega skráning er bein afleiðing þess að fyrir ekki löngu voru allir landsmenn neyddir til að vera meðlimir.

Þess vegna ættu starfsmenn ríkiskirkjunnar að skammast sín fyrir það hve hátt hlutfall Íslendinga eru skráðir meðlimir.

Hjalti Rúnar Ómarsson 28.07.2017
Flokkað undir: ( Ríkiskirkjan )

Viðbrögð


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 30/08/17 09:52 #

HRÓ: "ef það fluttist milli bæjarfélaga"

...ég held að það hafi verið nóg að flytja milli sókna, þótt bæjarfélagið væri það sama.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.